Að koma sér í rúmið á tækniöld.

Já, það ætti nú að vera einfalt mál að koma sér í rúmið er nóttin nálgast. Goie_pngemsinn minn minnir mig á það klukkutíma fyrir svefn að taka þetta blessað Magnesium Citrate . Svolítið seinna finnst mér gott að fá mér svona bangsate og nota síðan tímann til þess að þvo mér, koma mér í náttfötin, pústa, bursta tennur, og smyrja nýja Niveakreminu á andlitið, Voltarenkreminu á hálsliðina og Lavenderolíunni á handleggina og auðvitað pissa, svona eins og lög gera ráð fyrir og vera búin að láta hitateppið ylja upp rúmið þegar ég skríð uppí. Yfirleitt er þetta allt í réttri röð og alveg dásamlega notalegt.

Þá upphefst athöfnin við að koma sjálfri mér og Ipadinum fyrir til þess að lesa,  en það

oie_jpg (1)er bara heilmikið mál. Fyrst leggst ég á upphitað undirlagið og hækka aðeins höfðagaflinn. Síðan set ég púða ofaná bringuna á mér, á púðann set ég svo Ipadinn minn upp á rönd.  Svo kemur trikkið, því nú set ég sængina ofaná mig svo brúnin nemi rétt yfir Ipadinn á púðanum svo hann haldist fastur í lesstöðu. Þetta fann ég út þegar ég fór að vera slæm í hálsliðum og handleggjum og gat ekki haldið á bók uppi í rúmi. Nú get ég látið handleggina liggja á hitateppinu og lyfti bara öðrum í einu til þess að smella á nýja síðu.  Þessi nýja tækni er alveg frábær 🙂

Já alveg frábært þegar allt skipulagið gengur upp, þ.e.a.s. þegar ég fer í rúmið og er búin að tékka á því að síminn sé á náttborðinu stilltur á hringingu næsta dag, búin að setja vatn í bolla á náttborðið, búin að bera Voltarenkremið aftan á hálsinn á mér og slakandi Lavenderolíuna á handleggina. Leggja svo eftir lesturinn Ipadinn varlega á náttborðið, setja eyrnatappa í eyrun, loka augunum alveg afslöppuð og bíð augnablik eftir að Óll Lokbrá komi með draumana.

Því miður gengur þetta nú ekki alltaf fyrir sig á þennan hátt.
Stundum er ég nefnilega búin að gera mig klára í rúmið, eða tel það a.m.k. þegar ég tek fyrst eftir því að ég hef gleymt að kveikja á hitateppinu og kveiki á því. Síðan átta ég mig á því þegar ég er að leggjast út af,  að Ipadinn sem geymir bókina sem ég er að lesa er líklega frammi í eldhúsi. Ég sprett af stað og finn hann. Ég kem mér síðan vel fyrir í rúminu aftur eftir tilheyrandi  tilfæringar og byrja að lesa.
Síðan ætla ég að fá mér smá vatnssopa og tek þá eftir því að það er enginn bolli á náttborðinu 🙁  Ég rýk þá upp úr rúminu, legg Ipadinn svolítið harkalega aftur á náttborðið, fer fram í eldhús, set vatn í bolla og fer inn aftur með bollan  Ég sé sem betur fer í leiðinni að Gemsinn er ekki á náttborðinu og ég sæki hann. Síðan kem ég öllum tilfæringunum með Ipadinn fyrir enn á ný og byrja að lesa. Eftir nokkrar mínútur fer ég að verða svo þreytt í hálsliðunum og man þá að ég gleymdi að bera á mig Voltarenkremið. Allt byrjar upp á nýtt og nú skelli ég Ipadinum pínulítið harkalega á náttborðið og segi líka eitthvað pínulítið ljótt og æði fram á bað og ber á mig þetta blessað krem, drekk svo aðeins meira af vatninu áður en ég leggst uppí aftur og reyni að slaka á við lesturinn eftir að koma mér vel fyrir.

Loksins næ ég að slappa af og er farið að líða vel á hitateppinu mínu. Nú hef ég líklega náð að lesa í einar í tíu mínútur þegar ég uppgötva ég að ég hef of oft teygt mig í bollan með vatninu. Nú þarf ég sem sé enn einu sinni að byrja upp á nýtt og fara framúr. Í þetta skiptið til að pissa – Fjárans vatnsdrykkjan alltaf.  Ég svipti af mér sænginni með formælingum sem alls ekki eiga við fyrir svefninn, hendi burtu koddanum af bringunni á mér og Ipadinum er nú skellt mjög harkalega á náttborðið.  Ég æði fram á bað og lýk erindinu og eins gott að ég mundi í leiðinni eftir því að bera á mig Lavenderolíuna sem ég hafði gleymt að bera á mig. Ég dríf mig svo inn, læt mér ekki einu sinni detta það í hug að byrja á byrjunarreit við að reyna að lesa, athuga hvort Mp3 vasaútvarpið sé ekki örugglega á sínum stað ef ég vaki eitthvað yfir nóttina, slekk ljósið og hlassa mér í rúmið, breiði upp fyrir haus og styn hátt af vorkunnsemi við sjálfa mig. Ég tauta eitthvað misfagurt, treð eyrnatöppum í eyrun og skil svo ekkert í því að ég næ ekki með nokkru móti að slappa af og sofna.
–  Já, svo furða ég mig á því næsta morgun að svefninn hafi verði svona skrikkjóttur. – Sem betur fer gerist þetta ekki oft, en það gerist þó stundum, allt eða eitthvað af þessu.

Ekki veit ég hvort svona rugl fylgir því að eldast, eða hvort tæknin er farin að rugla mann svona í ríminu. Þetta var svo miklu einfaldara hér áður fyrr með venjulegri vekjaraklukku og prentaðri bók í stað þess að vera með hitateppi, Gemsa, I-pad, MP3 spilara og hvað þetta heitir nú allt saman sem maður raðar í kringum sig.  Einhvers staðar las ég að maður ætti bara að leggjast til svefns í svefnherberginu loka augunum og sofa til næsta dags.  Humm – prufa það kannski í kvöld.


Comments

3 responses to “Að koma sér í rúmið á tækniöld.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *