Það var mikil spenna að komast til Akureyrar í stelpuferð, en við mæðgur ætluðum þrjár saman með Karlottu norður, því hún ætlar að vera áfram í MA og skólinn byrjar núna á mánudaginn. Á föstudag var Sigurrós hins vegar komin með hálsbólgu, kvef og hita svo hún varð úr leik, en Oddur Vilberg kom í hennar stað. Við lögðum upp í ferðina eftir hádegi á föstudag og þegar við komum norður fórum við beint í matarboð hjá tengdaforeldrum Guðbjargar sem tóku vel á móti okkur að vanda. Svo var Karlottu skilað á heimavistina. Mikið fannst mér gaman að koma og sjá skólann hennar og herbergið sem hún fékk á vistinni. Það var líka svo fallegur gróðurinn þarna fyrir utan í dásamlegum haustlitum.
Fyrir utan heimavist MA á Akureyri.
Á laugardagsmorgninum byrjuðum við á að fara í Jólahúsið og fá svona smá jólatilfinningu, skoða aðeins allar dásemdirnar þar og krakkarnir keyptu sérstakar karamellur sem ku vera regla að kaupa þegar fjölskyldan mætir í jólahúsið.
Síðan röltum við niður í bæ og Karlotta þurfti að kaupa sér nokkrar skólabækur. Við fengum okkur súpu í Bakaríinu og skoðuðum “Mollið”. Mér fannset ég vera að rölta um í útlöndum þegar ég kom í verslunarmiðstöðina þeirra, meira að segja Rúmfatalagerinn virtist voða spennandi 🙂
Það leið að kvöldmat og við ákváðum að fara á Hamborgarafabrikkuna en þar fékk ég rosalega góðan hamborgara án brauðsins en franskar sætar kartöflur í staðinn, nammi namm. Þar sem við gátum bara fengið borð klukkan sex þá vorum við búin að borða og komin aftur heim í hús fyrir veðurfréttirnar í Sjónvarpinu. Þar sáum við að spáin var breytt og nú sagt að veðrið sem búið var að spá að kæmi síðdegis næsta dag, kæmi um nóttina og sérstaklega tilkynnt að ekkert ferðaveður yrði á landinu næsta dag.
Við tókum þá ákvörðun að verða á undan veðrinu og drifum okkur því af stað heim uppúr klukkan átta í gærkveldi. Guðbjörg ók en það kom í hlut okkar Odds að reyna að vera svolítið skemmtileg til þess að halda henni vakandi, því það getur verið erfitt að berjast við syfjuna þegar kominn er svefntími og ekið er í myrkri, sum staðar slyddu og rigningu, allt í bland. Það voru greinilega fleiri en við að forðast veðrið næsta dag því það var talsverð umferð á móti og einnig á sömu leið og við. Guðbjörg stóð sig eins og hetja við aksturinn, en það var ekið án þess að stoppa til að rétta almennilega úr sér alla leiðina. Það er alls staðar lokað svo snemma á kvöldin, en við náðum þó að koma í Staðarskála klukkan hálf tólf þegar verið var að loka þar og gátum fengið að skreppa á klóið – það var allt og sumt.
Svo var bara brunað áfram án þess að stoppa nema þegar við vorum að koma í göngin, en þá stoppaði lögreglan okkur, lýsti með vasaljósi inn í bílinn og bað Guðbjörgu um ökuskýrteini. Þeir sögðust bara vera að athuga ástandið á fólki. Þeim leist a.m.k. svo vel á okkur að við þurftum ekki frekari rannsóknar við og svo var haldi áfram þangað til við komum í Kópavoginn klukkan tvö í nótt. Mikið var svo notalegt að skríða í bólið sitt, vitandi það að við áttum ekki eftir að vera í kapphlaupi við veður á leiðinni heim næsta dag.
Þetta er nú allt gott og blessað, en einn mínus varð vegna klaufaskapar míns. –
Í öllu patinu um kvöldið þegar við ákváðum að drífa okkur bara strax heim, vorum búin að læsa og setja lykilinn í þar til gerðan læstan kassa, þá mundi ég að þegar við fórum í matinn þá vildi ég ekki láta I-padinn minn liggja á glámbekk og stakk honum undir sængina á rúminu sem ég svaf í. Þarna var hann svo þegar lyklinum hafði verið skilað, afgreiðslan var lokuð og ekkert að gera annað en að drífa sig bara af stað. Á leiðinni náði ég svo símasambandi og lét vita af þessum óförum mínum. Nú vona ég að litli I-padinn minn skili sér til mín við fyrsta tækifæri því mér bara farið að þykja svolítið vænt um hann og sakna hans.
Leave a Reply