Ákveðin í að verða sigurvegari.

Mikið er ég þakklát fyrir upplýsingar og uppörvun frá þeim sem hafa gengið í gegnum það sem getur beðið mín, að einhverju eða öllu leyti. Fyrst heyrði ég frá frænku minni á Bornholm  sem sendi mér síðan heilmiklar upplýsingarnar.

Svo fékk ég um daginn símtal frá bloggvinkonu minni, sem er á einu ári búin að fara í gegnum alla  þá meðferð sem veitt er vegna brjóstakrabba. Ég var búin að fylgjast með henni á blogginu þar sem hún lét okkur bloggvini sína fylgjast með sér og sagði okkur svona undan og ofan af því sem hún gekk í gegnum. Það var hins vegar alveg dásamlegt að tala við hana og hún gaf mér mikið af upplýsingum um ýmislegt þessu tengdu, bæði varðandi réttindi og það sem  í boði er til hjálpar,  svo margt sem ég hafði ekki hugmynd um í sambandi við þetta allt saman.

Svo í lokin þá sagði hún mér að hún hefði skrifað dagbók – stutt yfirlit yfir hvern dag allan meðferðartímann.  Hún bauð mér síðan að fá að lesa dagbókina hennar ef ég vildi.  Hvort ég vildi –  Hún sendi mér hana síðan og ég hóf lesturinn alveg á stundinni.

Nú hefi ég í höndum upplýsingar og lýsingar sem eru mjög ólíkar því sem ég hef lesið á netinu, enda ekki skrýtið að það sé með ólíku móti sem er annars vegar tekið saman af fagmönnum um blákaldar staðreyndir og hins vegar  lýsingar einstaklings á sinni upplifun þar sem  persónulegar tilfinningarnar koma við sögu.

Dagbókin hennar, sem vissulega er ekki fögur lýsing, sýnir þrátt fyrir allan alvarleikann svo mikinn baráttuanda og bjartsýni, að ég tali nú ekki um dugnaðinn. Það er dásamlegt  að sjá í gegnum lesturinn hvernig hún hefur ríghhaldið í baráttuandann og fullvissuna um að koma út úr þessari erfiðu glímu sem sigurvegari.  Það er sama hvað hún hefur verið illilega slegin niður aftur og aftur í baráttunni gegn þessum óvini og lyfjunum og öðru sem þessu fylgir þá hefur uppgjöf  bara ekki komið til greina  – hún hefur staðið upp aftur og aftur og  hefur nú komist alla leið í mark sem SIGURVEGARI, tilbúin að njóta lífsins að nýju.

Þessa konu geri ég að fyrirmynd minni í baráttunni og hugsa til hennar við hvert  skref sem ég  stíg í átt að settu marki.

Við lesturinn sá ég svo hvað ég er heppin að búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem er stutt að fara, bæði á spítalann og í aðra þjónustu í sambandi við þetta.  Hún vinkona mín á hinsvegar heima  langt úti á landi.  Það hlýtur að vera mikið aukaálag að þurfa að keyra í allt að 8 klukkutíma eða meira hvora leið til þess að sækja sér læknishjálp á Landspítalann og þurfa að dvelja í langan tíma í einu fjarri heimili sínu og eiginmanni – aftur og aftur.

Mér fannst svo gott að lesa þessa dagbók, þrátt fyrir það að í henni sjái ég svart á hvítu hverju ég get búist við. Engar tvær meðferðir eru þó eins og enn veit ég ekkert hvað mér verður ætlað að gera.

Þegar staðið er frammi fyrir slíkum óvini sem krabbameinsæxli er, þá eru bara tvær leiðir í boði  önnur er sú að berjast en hin að taka ekki til vopna  – Aðra leiðina verður maður að velja og ég ætla ekki að láta slá mig út bardagalaust – þó ég telji mig nú nokkuð friðsama manneskju – Svo einfalt er það.

Ég hef áður bognað en ekki brotnað í lífinu og vonandi held ég sveigjunni og seiglunni ennþá svo ég komi upprétt  og sigurglöð úr þessari raun.

Nú er sem sagt komið að þessu því á mánudaginn mæti ég klukkan 07:00 um morguninn í fimm tíma aðgerð.  Ég hef fengið nokkur símtöl frá vinkonum sem ekki eru á Facebook, en óska eftir að fá fréttir af mér hérna á blogginu.  Ég er því búin að biðja Sigurrós um að sjá um það.

Kær kveðja og knús í allar áttir og hjartans þakkir fyrir allar góðu kveðjurnar og bænirnar mér til handa, sem munu fylgja mér í aðgerðina og í framhaldið.

Heyrumst svo þegar ég verð sjálf komin með ráð og rænu aftur.

 

 

 

 


Comments

10 responses to “Ákveðin í að verða sigurvegari.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *