Það var búið að standa til lengi að við í frænku/frændaklúbbnum (afkomendur mömmu minnar og pabba) myndu hittast á Gufuskálum og eiga þar saman skemmtilega helgi hjá frænda mínum, konu hans og syni.
Við konurnar í stórfjölskyldunni erum vanar að hittast svona einu sinni til tvisvar á ári í frænkuklúbbnum, þar semvið tölum oftast allar í einu, hlæjum mikið og höfum það skemmtilegt. Svo kom tillaga um það í fyrra að gaman væri nú og auðvitað alveg bráðnauðsynlegt að fara alltaf saman í útilegu einu sinni að sumrinu og þá myndu allir vera með. Í fyrra fórum við að Hellishólum, en í ár buðu Þór systursonur minn og hans kona Dandý okkur að heimsækja þau að Gufuskálum. Ég bjóst fyrst ekki við því að geta farið með, en sem betur fer leystist það og við fórum á húsbílnum hans Hauks og lögðum af stað um hádegi á föstudag. Við ókum sem leið lá um sunnanvert Snæfellsnesið og nutum þess að aka þarna um í svo góðu skyggni því það var búið að spá rigningu. Við stoppuðum á leiðinni, hituðum okkur kaffi og sátum svo í “eldhúskróknum” og horfðum á fjöllin út um annan gluggann þar sem við sátum og kíktum eftir umferðinni út um hinn á móti. Við sáum nú ekkert til okkar fólks enda fóru ekki allir sömu leið á sama tíma. Stelpurnar mínar komust ekki með sínar fjölskyldur og fleiri gátu ekki mætt , en stundum hittist bara svona á. Einmitt í þessu tilfelli var það mjög miður, því svona ferð verður ekki endurtekin.
Þegar við komum vestur með Snæfellsjöklinum þá fundum við hvað það var hvassara og svalara þar og þegar við komum alveg vestur fyrir að Gufuskálum, var eins og móðir mín hefði kallað það “hífandi rok”. Við vorum hinsvegar með fullt af hlýjum fötum og ekkert að vanbúnaði og húsbílinn getum við haft funheitan, en aðrir gistu þarna í íbúðum. Um kvöldið voru allir sem gátu komið mættir á staðinn. Það var ómetanlegt að hafa góðan sal til að njóta samverunnar í því úti var ekki hægt að vera í kulda og trekki.
Gufuskálahjónin tóku á móti okkur með heitri súpu og brauði og síðan setti Þór sonur elstu systur minnar fjölskyldusamkomuna. Eftir matinn var yngsta kynslóðin, frá fjögurra ára upp að fullorðins búin að útbúa kvöldvöku þar sem sagðir voru brandarar og síðan settur upp Útsvars-þáttur. Þau voru með kvöldvöku bæði kvöldin og Útsvarið var svona alvöru með spurningum og leiknum – mjög flott hjá þeim. Svo rifjuðum við hin upp skemmtilegar sögur úr fjölskyldunni þegar ungviðið var farið fram að spila og það var mikið hlegið og mikið gaman.
Eftir hádegi á laugardaginn hittumst við öll aftur og nú var mikil eftirvænting í loftinu því það átti að skoða Vatnshelli. Ég var ekki viss um það þegar ég fór að heiman að ég myndi fara í hellaferðina, en þegar vestur var komið komst sú hugsun ekki einu sinni að í huga mér. Við þurftum aðeins að bíða á staðnum því það var annar hópur niðri í hellinum þegar við komum, svo við notuðum okkur að kroppa nokkur bláber á meðan beðið var. Það fara tveir fararstjórar með hverjum hópi niður, því annar gengur fremst og hinn aftast. Það er engin lýsing í hellinum fyrir utan það, að hver og einn er með hjálm með ljósi í og sterkt vasaljós til þess að lýsa niður fyrir sig með. Þór og Ægir voru okkar fararstjórar enda fáir kunnugri aðstæðum þarna en þeir. Eftirvæntingin jókst þegar við vorum að setja á okkur hjálmana og fá vasaljósin. Þór safnaði okkur síðan saman áður en farið var niður og sagði okkur frá hellinum og hvernig hann var byggður upp til þess að fólk gæti skoðað hann án þess að neitt yrði skemmt þar eða fólk slasaði sig – Það var gaman að heyra að hann átti þátt í að hanna þennan langa, flotta hringstiga sem liggur niður í neðsta hluta hellisins og hve vel allt var útfært. Það var t.d. búið að gera ráð fyrir hraðleið til þess að draga upp sjúkrabörur ef einhver yrði veikur eða annað kæmi fyrir þarna niðri í iðrum jarðar. Hérna á myndinni sést stiginn að mestu leyti.
Við gengum fyrst niður tvo smærri hringstiga með smá slóð á milli og síðan áfram inn efri hellinn og loks farið langa hringstigann niður í hvelfinguna. Þetta var stórkostleg upplifum og alveg magnað þegar allir voru látnir slökkva ljósin þarna niðri í botni hellisins og enginn mátti segja neitt svo það varð svartasta myrkur og algjör þögn fyrir utan smá dropa sem féllu niður hellisvegginn. Þetta var nokkuð sem maður upplifir ekki í nútímavæddu þjóðfélagi þar sem alltaf eru einhver aukahljóð. Upplifunin af því að vera komin svona langt niður í iður jarðar, þar sem engin glæta nær að komast og ekkert nema náttúran gerir aðeins vart við sig með einstaka vatnsdropa sem fellur, gerir mann alveg agndofa og maður fyllist einhverri undarlegri tilfinningu. Ég var fegin að hellirinn var ekki upplýstur með rafmagni því einmitt svona er hann svo dulúðugur og flottur. Það eru margvíslegar bergmyndanir þarna, margir litir og ekki má gleyma brúna súkkulaðiberginu. Ég undraðist það að ég varð ekkert lofthrædd, hef líklega verið of upptekin af því sem ég sá og upplifði til þess og ég fann ekki til í bakinu í hellaferðinni. Orkan þarna í Snæfellsjöklinum hefur bara verið svona mögnuð.
Ég vona að ég geti komið fleiri myndum í myndaalbúmið hérna á síðunni. Síðast þegar ég reyndi var eitthvað vesen á því.
Á laugardagskvöldið var allt kjöt sem fólk kom með grillað og þeir sem höfðu kraftgalla stóðu úti og sáu um þá eldamennsku, svo var allur matur salöt og meðlæti sett á langborð og svo var sameiginlegt borðhald. Eftir kvöldvökuna á laugardagskvöldið var okkur sagt að fara og klæða okkur í allt hlýtt sem við höfðum meferðis því við myndum enda samveruna á varðeldi. Það var gaman að reyna síðan að þekkja hvert annað þegar við mættum aftur niður í hús, kappdúðuð og vafin, eins og við værum Michelinkallinn í dekkjaauglýsingunum – það veitti ekki af að klæða sig svona vel því það var enn bálhvasst og hitastigið orðið lágt. Við vorum síðan leidd áfram í myrkrinu niður í rjóður þar sem beið stór “grýlupottur” og eldiviður lá við hliðina. Hver og einn átti síðan að setja spýtu í pottinn og eftir að olíu var hellt yfir þá var kveiktur hinn myndarlegasti varðeldur og við sátum í brekkunni í kring og horfðum á eldinn og nutum samverunnar. Feðgarnir Biggi og Janus skiptust á að spila á mandolín og við hin reyndum að rifja upp einhverja brekkusöngva. Við þurfum að vera búin að læra betur heima fyrir næsta varðeld. 🙂 Með varðeldinum lauk þessum dásamlega skemmtilega fjölskylduhitting sem verður lengi í minnum hafður, þökk sé öllu skemmtilega fólkinu mínu og sérstaklega þeim Þór, Dandý og Ægi fyrir skipulagninguna og fyrir að hugsa fyrir öllum okkar þörfum. Þetta verður ekki hægt að toppa – en við höldum þó áfram að hittast og vonandi verða fleiri með okkur næst.
Heimferðin gekk vel og þegar við komum heim drifum við okkur beint í afmælissúpu hjá Guðbjörgu því það var verið að halda upp á afmæli Odds.
Leave a Reply