Aðallega áminning til sjálfrar mín.

Við vorum í svo fínu fimmtugsafmæli á Selfossi í dag. Veðurspáin í gær leit nú þannig út að ég veðurhrædda konan reiknaði ekkert með því að það yrði fært yfir Hellisheiðina, en raunin varð önnur og við fórum með Guðbjörgu, Magnúsi Má og Ragnari í afmælið hans Jóa tengdasonar systur minnar.  Alltaf svo gott að koma til þeirra Selmu og Jóa og eins og venjulega voru sortirnar á veisluborðinu svo margar að ég reyndi ekki einu sinni að kasta á þær tölu 🙂 Ég segi bara takk fyrir mig.

Eftir smá sjónvarpsgláp í kvöld, þá settist ég hérna niður til þess að klára að skrifa jólabréfin til ensku vinanna minna og prenta út jólakortalistann. Ég var hvorugt farin að gera þegar ég mundi allt í einu eftir þér kæra dagbók og áttaði mig á því hversu mjög ég hef vanrækt þig. Aldrei áður hefur liðið svona langur tími sem ég hef  nánast gleymt þér 🙁
Ég veit svo sem ekki hvort ég á mér nokkrar málsbætur nema þær að hafa verið svo gjörsamlega andlaus að mig hefur vantað eitthvað til að segja þér. Það er ekkert gaman að tala bara um heilsuleysi og ferðir með sjúkrabílum. Nú vona ég að hjartalæknirinn hafi fundið réttu leiðina svo þeim kafla sé lokið og ég verði brátt búin að vinna upp góða orku og eintóm sæla sé framundan.  Það er sú framtíðarsýn sem ég kýs að hafa í dag.

Svo eru blessuð jólin framundan. Sem betur fer þá er ég er svona smátt og smátt að átta mig á því að ég get ekki ætlast til þess að hafa sömu orku núna og ég hafði fyrir einhverjum áratugum þegar mér datt í hug að morgni að mála eitthvert herbergið, keypti málningu og var búin að mála að kvöldi. Nú segi ég bara “Æ, ég geymi þetta bara þangað til vorar, því það er mikið betra að mála í dagsbirtunni”. – Svo kemur vorið. Já, já við förum ekkert nánar út í það 🙂
Jólabarnið í mér er búið að setja upp jólaljós, smá skreytingar og nóg til af kertum, púrtvínið er komið í jólaflöskuna og við mæðgur og barnabörnin búin að baka litlu piparkökurnar sem eru komnar í krukkuna við hliðina á jólaflöskunni. Ég læt svo bara ráðast hvort ég geri Sörurnar, en ætla þó helst að standa við að baka þær.  Eitt hef ég þó ákveðið og ætla að standa við – Ég ætla ekki að stressa mig umfram mína orku fyrir þessi jól.  Það er betra að njóta heldur en að gera sjálfan sig örmagna á öllum þeim kröfum sem maður gerir til sjálfs sín – Það er bara liðin tíð. Jólin koma og jólin líða hvort sem það er einni smákökusortinni fleira eða færra, eða hvort íbúðin hefur verið máluð eða ekki. Það er fyrir öllu að eiga skemmtilegan og notalegan tíma.

Ég lofa engu kæra dagbók, en vonandi  vanræki ég þig ekki í svona margar vikur aftur.

Ég var reyndar að opna Vísdómsbókina mína áðan, en hún segir nákvæmlega þetta :
“Langbest er að þegja, sé ekkert gott að segja.”  – Ég er ekki alveg sammála þessu þó auðvitað sé sagan miklu skemmtilegri þannig, en lífsins saga væri ekki sönn, ef látið er líta út fyrir að allaf sé allt gott og skemmtilegt.

Njótum aðventunnar, verum glöð og góð hvert við annað og umfram allt látum ekki stressið ná tökum á okkur 🙂

 


Comments

6 responses to “Aðallega áminning til sjálfrar mín.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *