Árið 2011 kveður.

Þegar ég lít yfir árið 2011 sem er alveg að kveðja, þá hefur  þetta verið ljómandi gott ár. Það byrjaði reyndar ekkert skemmtilega hjá mér, því fyrir nákvæmlega ári síðan var ég svo veik  um áramótin og fyrstu dagana í janúar. Ég var inn og út af bráðavakt fimm sinnum frá gamlársdegi  og fram á nýja árið, án þess að hægt væri að finna út hvað væri að mér.  En til að gera langa sögu stutta þá þá uppgötvaðist loks hvert meinið væri og enn ein brjósklosaðgerð var gerð á mér þann 10. janúar 2011, að þessu sinni á mjög óvenjulegum stað ofarlega á bakinu. Eftir þetta fór ég svo að smá lagast í ristlinum og fleiru sem brjósklosið hafði lamað.
Er ekki sagt að fall sé fararheill?  Ég byrjaði sem sagt nýja árið á þessum hremmingum,  en þar sem við eigum bestu lækna í heimi er ég til frásagnar í dag og er búin að gera allt mögulegt skemmtilegt á þessu ári sem nú er að kveðja okkur.

Karlotta mín, fyrsta barnabarnið, fermdist í vor og það var gaman að fá að taka þátt, bæði í undirbúningi, athöfninni  og veislunni hennar.  Mikið líður nú tíminn hratt- það er svo stutt síðan hún fæddist.

Haukur varð sjötugur í maí og hann langaði til þess að við færum til Spánar og  vera þar á afmælinu sínu. Ég var alveg til í það  og við fórum til Benidorm þar sem við vorum á rosalega fínu hóteli í fullu fæði.  Við vorum dugleg að fara í gönguferðir og  ég náði að byggja mig ágætlega upp eftir bakaðgerðina og allt vesenið í janúar. Það skemmtilega gerðist svo að Hulla dóttir Hauks og Eiki hennar maður og þrír afastrákar komu akandi frá Danmörku til þess að vera með afa á sjötugs afmælinu. Við áttum alveg dásamlegan tíma með þeim og svo áfram þessar tvær vikur sem við vorum þarna.

Þegar við komum heim fór svo Haukur að huga að húsbílnum sínum og gera hann klárann fyrir sumarferðina.
Við fórum svo alla Vestfirðina í algjörri rjómablíðu allan tímann og mikið er það dásamlegur ferðamáti að vera með svona húsbíl.  Við fórum svo í smærri ferðir á húsbílnum, m.a. á ættarmót þar sem afkomendur mömmu og pabba hittust á Hellishólum.   Ég hlakka til þegar við endurtökum slíka útilegu.

Haukur fór svo austur á Borgarfjörð með systkinum sínum, en ég naut hinsvegar veðurblíðunnar hérna á suð-vesturhorninu á meðan.

Það er lítið fréttnæmt af mér í haust og fyrri hluta vetrar og oft er  nú sagt að engar fréttir séu góðar fréttir svo ég læt það duga fyrir þann ársfjórðunginn.

Nú hlakka ég til að kynnast því smám saman hvað nýja árið færir mér. Það verður eflaust eitthvað ferðast á húsbílnum og hver veit nema ég skreppi í sextugs afmæli til Bornholm og kannski út á Jótland. það er best að taka ekki ákvarðanir svona fljótt. Mér reynist oft best að gera hlutina með stuttum fyrirvara, finnst það öruggast og vil ekki vera lengi búin að hlakka til einhvers sem síðan verður ekki að veruleika.  Þetta bíður því allt síns tíma.

Ég er afskaplega þakklát fyrir árið sem er að kveðja. Þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í lífi barna og barnabarna enn eitt árið. Ég er þakklát fyrir alveg  ágætis heilsu miðað við aldur og allt hitt.  Ég er þakklát fyrir vini mína og  ættingja.  Ég er líka þakklát fyrir tækni, eins og Internetið, sem opnar leiðina út í hinn stóra heim, og færir okkur m.a. Facebook  þar sem auðvelt er að finna vini og ættingja sem maður hefur misst samband við, fá fréttir og skoða myndir. Það er líka svo gaman að  eiga mína eigin heimasíðu sem ég  hef gaman af að dútla við.   Á komandi ári ætla ég að vinna betur uppskriftirnar mínar og setja myndir í myndaalbúm.

Allt er þetta alveg dásamleg tækni sem dregur úr því að fólk sem ekki er lengur á vinnumarkaði einangrist.  Það er nefnilega svo margt breytt frá því sem var þegar fólk var alltaf að kíkja í heimsókn.  Fólk hringdi kannski á undan sér – eða  kom bara og hringdi á dyrabjöllunni.  Ég hef alltaf kunnað að meta slíkar heimsóknir, en nú heyrir þetta nánast sögunni til.  Nú kemur enginn nema vera boðinn og sjálf fer ég ekki í heimsóknir nema vera boðið, því annars heldur maður sig gera ónæði. Svona er þetta nú orðið breytt. Sumar breytingar eru mjög góðar en aðrar, eins og þessi, eru bara ekkert skemmtilegar.

Kæru vinir mínir nær og fjær

Ég óska ykkur gleði, góðrar heilsu og farsældar á nýju ári.
Ég óska þess einnig að vonir ykkar um komandi ár rætist.

Þakka ykkur fyrir trausta vináttu á árinu sem er að kveðja,
 fyrir skemmtileg samskipti hérna á heimasíðunni, fyrir samskiptin á Facebook
og ekki síst þakka ég ykkur fyrir 
samskiptin í hinum raunverulega heimi,
því auðvitað jafnast 
ekkert á við raunverulegt faðmlag og spjall.

 Njótum kvöldsins , áramótanna og komandi árs.


Comments

6 responses to “Árið 2011 kveður.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *