Sigurrós skrifar:
Ég fékk sms frá mömmu í morgun um að nóttin hefði verið fín, hún hefði fengið verkjalyf fyrir nóttina og verkirnir höfðu ekki versnað. Það var sama sagan upp úr hádegi, hún hafði það ennþá alveg ágætt.
Síðdegis var þrýstingurinn samt farinn að aukast eitthvað og þetta var orðið eitthvað óþægilegra en þó ennþá alveg bærilegt.
Skurðlæknirinn kom og talaði við hana og sagði að þetta hefði litið mjög vel út svona við fyrstu sýn. Æxlið verður samt sent í ræktun og þegar niðurstöður úr því eru komnar þá fær hún að vita nánar hvort hún þarf geisla eða lyfjameðferð eða hvort hún nær að sleppa við það eins og læknirinn sagðist jafnvel búast við.
Hún á að vera á spítalanum þar til á morgun en þá ætlaði hún að flytja sig yfir á sjúkrahótelið. Það mátti ekki panta það neitt fyrirfram, henni var bara sagt að ræða það við starfsfólkið á vaktinni eftir aðgerð. Nú bregður hins vegar svo við að þar er allt yfirfullt svo að það er ólíklegt að hún komist þangað inn á morgun. Hún var sett á biðlista svo að nú vonum við bara að einhver af sjúklingunum á sjúkrahótelinu hressist snarlega og komist heim til sín 😉 Vonandi getur hún fengið að vera aukanótt á spítalanum fram á fimmtudag og að þá verði kannski búið að losna á sjúkrahótelinu. Við krossum fingurna og vonum það besta, því það er auðvitað óþægilegt að vera send heim með drenið svona nokkrum dögum eftir aðgerð – og af því við þekkjum nú öll hana móður mína þá vitum við að hún væri vís með að fara að sýna einhvern myndarskap heima og fara að sinna matseld eða öðrum heimilisverkum, alveg sama þó heilsan leyfi það ekki og þó Haukur reyni að halda aftur af henni….!
Leave a Reply