Mér hefur alltaf verið meinilla við þá sem gera vefi, það er að segja alla aðra en þá sem gera tölvuvefi því þeir eru bráðnauðsynlegir og mega sko ekki missa sig 🙂 En verur eins og t.d. kóngulær og ýmsar smáverur sem vefa svona vefi hér og hvar finnst mér óhugnarlegar. Samt lenti ég í því að einhver örvera hefur dundað sér við að vefa þéttan harðan vef utan um fyllinguna sem sett var í brjóstið mitt þegar krabbameinið var tekið. Ekki skrýtið að mér skuli hafa liðið þannig í langan tíma að ég væri með illa lagað grjót framan á mér sem meiddi mig stöðugt í stað þess að vera með venjulegt uppbyggt brjóst. Þegar þetta var búið að vera hart og mjög undarlegt í laginu í marga mánuði þrátt fyrir sjúkraþjálfun og nudd, þá ákvað að láta kíkja á þetta og vera ekki alltaf að draga úr. Ég spurði skurðlækninn hvort þetta gæti átt að vera svona. “Nei, ég geri aðgerð og skoða þetta. Fyllingin er búin að snúa sér. ”
Ég verð að játa að ég varð mjög fegin að það ætti að opna þetta og skoða því ég var þreytt á að finna alltaf til í þessu. Aðgerðin, sem var gerð fljótlega, gekk vel og mér hefur liðið mun betur í brjóstinu þessa daga síðan, þó svona stutt sé frá aðgerð og vonandi heldur það áfram þannig.
Í gær fékk ég nánari skýringar á því hjá lækninum hvað hefur verið að gerast. – Mikill örvefur búinn að vefja sig utan um allt saman og sjálfsagt búinn að snúa öllu á hvolf. Læknirinn sagðist hafa þurft að fjarlægja þennan harða örvef, sem var u.þ.b. fingurþykkur á köflum og gera rásir í hann þar sem ekki var alveg hægt að taka hann í burtu.
Þegar umbúðirnar vou teknar í gær og ég sá brjóstið þá datt mér í hug gatan okkar hérna fyrir utan, sem er með þykkum klakahjúp og djúpum hljólförum ásamt því að búið er að gera rásir í átt að niðurföllunum – sem sagt ekkert fallegt sem blasti við mér og á þeirri stundu sá ég eftir að hafa ekki bara staðið við það sem mér kom fyrst í hug þegar þetta byrjaði allt. – Láta fjarlægja meinið og sauma svo fyrir –
Strax í dag hefur þetta nú jafnað sig aðeins enda er ég aftur komin í strekk sem ég verð í líklega í 6 – 8 vikur til þess að halda öllu á réttum stað og draga úr bólgum. Drenið mitt losna ég svo vonandi við á morgun eða á mánudaginn því þá hef ég verið með það í viku. Svo verður sprautað aftur sterum og einhverju fíneríi undir hendina eftir svona 4 – 6 vikur, en hann gerði eitthvað slíkt í aðgerðinni líka.
Nú bara vona ég að í þetta skiptið láti þetta örverukvikindi mig í friði. Ég get ekki hugsað til þess að einhver sé að dunda sér við að spinna vefi í brjóstinu á mér. Ég verð sko að beina allri minni orku að því að reka þennan vefara út úr mínum líkama 🙁
Hún ætlar að vera endalaus þessi saga af brjóstinu mínu, en ég hef hins vegar ákveðið að nóg sé nóg nú sé ekkert nema góð tíð framundan og segi STOPP við alla sem ætla að ráðast á mig innanfrá.
Til skýringar afritaði ég neðangreint frá http://www.brjostakrabbamein.is/ og þar er auðvitað hægt að fræðast um svo margt þessu tengt eins og á vefnum http://www.skurdlaekningarbrjostakrabbameina.is/ :
….
” Örvefur:
Þegar púðanum hefur verið komið fyrir myndast örvefur umhverfis og til verður það sem kallast vefjarhylki. Yfirleitt er svona vefjarhylki allt frá því að vera gisið yfir í þétt, þó þannig að ekki finnst fyrir því. Engu að síður gerist það öðru hverju (í einu af hverjum tíu tilfellum) að vefjarhylkið verður mjög hart. Þá getur það framkallað verki og aflagað brjóstið. Gerist það, getur skurðlæknir molað örvefinn og reynist það nauðsynlegt, komið fyrir annarri fyllingu. … ”
Ég skrifaði þessa færslu, ef einhver er í sömu aðstöðu og ég var í og er að reyna að googla eitthvað um málið. Ég vildi að ég hefði kvartað meira yfir þessu, svo þetta hefði verið skoðað fyrr.
Enn sem fyrr hæli ég öllu starfsfólkinu sem kemur að þessum málum – Þau bregðast manni aldrei. 🙂
Leave a Reply