Nú eru þessi verkföll sum hver búin að standa í margar vikur og enn bætast við fleiri félög á leið í verkfall. Allt virðist vera í hnút og engin lausn í sjónmáli. Í fávísi minni langar mig til þess að spyrja af hverju í ósköpunum þurfi alltaf að semja um prósentutölur upp allan skalann, þegar hækka á laun. Það gefur auga leið að þá fá þeir sem mest hafa hæstu launahækkanirnar á meðan þeir sem minnst hafa fá minnst.
Með því að hækka laun um t.d. 50 þúsund krónur á mánuði upp allan launaskalann, eða aðra upphæð eftir atvikum, þá fái ALLIR sömu launahækkun. Þeir sem lægst hafa launin ættu að komast í og yfir 300 þúsund krónu lágmarkslaunin ( má ekki minna vera) og þeir sem meira hafa og þeir sem margfalt meira hafa í laun á mánuði fái þá sömu hækkun, eða 50 þúsund krónur. Þetta tel ég vera jafnræði og hvílíkt sem slíkt myndi einfalda þetta allt saman. Er verðgildi peninga eitthvað öðruvísi hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar? Ég veit ekki annað en að allir borgi það sama fyrir matarinnkaup og ef 50 þúsund krónur er næg upphæð sem launahækkun fyrir láglaunafólk, þá ætti það svo sannarlega að vera það einnig fyrir þá sem hafa hæstu launin.
Mér dettur ekki í hug að tala um að allir eigi að vera á sömu launum, enda væri það ekki sanngjarnt, því þar kemur margt inn í eins og menntun, ábyrgð o.fl., en ofaná þau laun sem fólk hefur í dag, finnst mér ákveðin krónutala vera sjálfsögð, sú sama fyrir alla.
Nú langar mig, sem á rétt á að hafa skoðun og tjá mig, jafnvel þó ég hafi ekki hundsvit á samningamálum í kjaradeilum hvað þá meira, til þess að fá að vita hjá þeim sem ekki eru eins fávísir, af hverju það má ekki einu sinni ræða um þá einföldun að allir fái sömu krónutölu í launahækkun?
Hvað er það sem gerir það svo sjálfsagt að þeir sem hafa hæstu launin fái alltaf margfalt hærri krónutölu með prósentutölum, en þeir sem lægstu launin hafa?
Svo má auðvitað ræða um hækkaðan persónuafslátt og fleira, sem ég kann ekki skil á, en að prósentuhækkun fari upp allan skalann finnst mér og hefur alltaf fundist alveg ótrúlega mikið ranglæti.
Ég vona að ég fái svör við mínum fávísu vangaveltum og hlakka til að sjá hver þau verða.
Leave a Reply