Fögur fyrirheit í upphafi árs.

Komið nýtt ár með fögrum fyrirheitum. Nú er bara að sjá hvort ég læt  fyrirheitin mín komast í framkvæmd eður ei.  Það fyrsta sem ég þarf að gera er að koma mér í eitthvert hreyfingarform.   Ég ætla að hringja á nokkra staði á morgun til að fá uppgefið verð og hvort hreyfingin er miðuð við svona gallað stoðkerfi eins og ég er með.  Eitthvað verð ég að taka til bragðs til þess að verða ekki alveg eins og spýta í ellinni.  Í beinu framhaldi af þessu  ætla ég mér að komast aftur í dansskóna og fara að snúast í völsum, polkum, rælum, tjútti og öllum sérdönsunum.  Oh ég bara fer á flug – í huganum.  Síðustu tvær brjósklosaðgerðir hafa ekki aukið lipurð mína í hreyfingum, en nú hlýt ég að geta farið að liðka mig meira því það er komið akkúrat ár frá þeirri síðustu.  Ég fer ekki ofan af því að dans er sú besta og skemmtilegasta leikfimi sem til er. Ég verð bara að losa um bakið á mér fyrst og svo verð ég til í tuskið.

Ég hlakka mikið til sumarsins og ferðalaganna á húsbílnum. Nóg er af fallegum stöðum til þess að heimsækja  og njóta frelsisins við þennan ferðamáta. Hver veit nema Ásakórsfjölskyldan fari með okkur í einhverjar útilegur. Við höfum góða reynslu af að ferðast með þeim.  Svo er ég ákveðin í því ef Guð lofar, að heimsækja frænku mína á Bornholm í júlí og hver veit nema það verði þá skroppið út á Jótland líka.  Já það er nóg framundan sem hægt er að gera til að gera lífið skemmtilegt.

Kannki að ég verði duglegri að koma þessum loforðum við sjálfa mig í framkvæmd núna, þegar ég er búin að  setja þetta á heimasíðuna mína. Það hefur oft reynst mér vel að birta fyrst hérna það sem ég ætla að gera,  því það er þá enn meiri ögrun að standa við stóru orðin.

Nú er bara að hefjast handa – Á morgun byrja ég sem sagt á því að skrá mig í líkamsræktina.

 

 


Comments

2 responses to “Fögur fyrirheit í upphafi árs.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *