Ég var að taka aðeins til hérna á skrifborðinu mínu áðan og rakst þá m.a. á miða með þessum orðum handskrifuðum á, FRIÐUR – TRAUST – TRÚ. Einhverntíman hef ég líklega verið að hlusta á eitthvað í útvarpi og hripað þetta niður hjá mér, en svo hefur miðinn týnst innanum aðra snepla hérna á borðinu hjá mér. Þegar ég síðan fann þennan miða áðan og las á hann, þá fór ég að hugsa um hvað einmitt þessi orð væru mikilvæg og vert að hafa þau í huga öllum stundum. Þetta eru nefnilega þau þrjú meginatriði sem mér finnst að þurfi að fylgja hverjum og einum í lífinu.
AÐ LIFA Í FRIÐI: – Gerum við íslendingar okkur grein fyrir því hvað við erum lánsöm að fá að lifa í friði með okkar litlu þjóð í stóra gjöfula landinu okkar. Engir hermenn sem ógna okkur á götum úti eða önnur stríðsátök eins og við sjáum daglega fréttir af erlendis frá í fjölmiðlum. Ég minnist þess sem barn þegar kalda stríðið stóð sem hæst hvað ég var alltaf hrædd um að það yrði stríð á Íslandi líka. Nú er ég búin að búa og fylgjast með dætrum mínum og barnabörnum alast upp í okkar friðsæla landi og alltaf tekið það sem sjálfsagðan hlut að hér væru engir hermenn og ekkert stríð. Við gefum okkur bara svo sjaldan tíma til þess að meta hvað við erum heppin og yfirleitt hvað er dýrmætast í lífinu.
TRAUST OG TRÚ: Vitanlega verðum við öll fyrir áföllum á lífsleiðinni og þurfum stundum að heyja innri baráttu, en með trausti, trú og ég vil bæta við bjartsýni, þá komumst við svo langt í að yfirvinna allar hindranir. Við hugsum kannski ekki nægilega um hvað það er nauðsynlegt að bera traust til og trúa á sjálfan sig, því ef við trúum ekki eða getum treyst á okkur sjálf, hvernig í ósköpunum getum við þá gert ráð fyrir því að aðrir treysti á okkur eða trúi. Það er líka bæði nauðsynlegt og gott að geta lagt traust sitt á aðra og það þurfum við svo oft að gera, meira og minna á hverjum degi við ýmsar aðstæður.
Að ég fann þennan miða einmitt núna, þá kemur kannski sérstaklega upp í hugann hvað mér finnst gott að treysta þeim læknum sem ég hef farið í aðgerðir hjá og fer í eina slíka á næsta mánudag. Það er ómetanlegt að geta mætt í aðgerðir friðsæl, með fullt traust til þeirra sem hafa líf mitt í höndum sér og hafa trúna á að allt gangi vel. Fyrir mér er trú miklu meira en bara það að trúa á sjálfa mig, því án Almættisins hefði ég hvorki friðsæld, traust eða trú.
Mér þykir vænt um að ég skyldi rekast á þennan miða núna og fara að hugsa um hvað ég er heppin að hafa fengið að njóta þessa alls.
Leave a Reply