Fyrir ykkur

Fyrir ykkur sem ég hef lofað að skrifa hérna smá fréttir af framgangi mála  þá hitti ég læknateymið í dag og það var staðfest að ekkert nýtt kom fram sem ekki sást í ómskoðuninni.  Þetta fannst mér mjögt góðar fréttir.  Það á svona eftir að fínpússa ýmis atriði og ég á að hitta læknana aftur í næstu viku, en nánar um hvernig þetta lítur út veit enginn fyrr en í aðgerðinni sjálfri.  Ég hef enn ekki fengið aðgerðardag og svo er ýmiss undirbúningur jú eftir líka.

Ég er mjög ánægð með fundinn í dag og full bjartsýni. Edda Garðars fór með mér og  við vorum komnar  á Landsp. klukkan ellefu í morgun og ég kom ekki heim fyrr en klukkan þrjú í dag og þá beint af spítalanum  Það var sérstaklega löng bið eftir seinni lækninum í dag  og um hádegið sagði hjúkka þarna að okkur væri alveg óhætt að skreppa upp og fá okkur að borða. Uppi  var hinsvegar ekkert nema sjoppan með namminu og svo var sjálfsali með samlokum löðrandi í salati.  Ég spurði þá í upplýsingunum hvort það væri enginn annar staður á spítalanum þar sem hægt væri að fá sér að borða og þá var okkur vísað á Barnaspítalann nýja. Við vorum nú ekki lengi að skreppa yfir bílaplanið og fengum þennan fína mat þar hjá þeim Hringskonum, sem þar eru með kaffiteríu.

Svo gerðist nokkuð sem ég átti ekki von á. Ég hittii hana Gullu bloggvinkonu mína og Bróa, en hún er búin að ganga í gegnum allan pakkann og hefur stutt mig mjög og það var alveg dásamlegt að hitta þau hjónin þarna.

Dagurinn var því í alla staði góður – engar slæmar viðbótarfréttir og við vinkonurnar vorum auðvitað í gleðigírnum eins og við erum vanar þegar við erum saman og nú hlakka ég bara til að takast á við framhaldið og klára þetta dæmi. Hvað það tekur langan tíma veit enginn í dag. Þegar upp er staðið þá er það ekki tíminn sem þetta tekur sem skiptir máli heldur hvernig til tekst.

 


Comments

6 responses to “Fyrir ykkur”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *