Í stað þess að vera eitthvað að myndarskapast þá sest ég hérna við tölvuna. Tilgangurinn var reyndar góður í upphafi því ég ætlaði að fara að skrifa bréf til vina minna í Englandi, en ég kem mér ekki með nokkru móti í gírinn til þess að byrja á því. Ég settist því niður í stofunni áðan og horfði ánægð í kringum mig á öll jólaljósin sem ég hafði tendrað og fór að hugsa um þá sem hafa kannski ekki tækifæri til þess að gera neitt jólalegt í kringum sig.
Já nú ljómar aðventan hvert sem litið er. Daglega bætast við ljós og svo er blessuð sólin að reyna að komast aðeins upp á himininn til þess að gefa okkur birtu yfir hádaginn. Síðan tekur máninn við og glottir yfir öllu þessu umstangi sem gripið hefur okkur. Mér finnst þetta tími til þess að njóta og vera þakklát. Það er svo margt sem okkur finnst sjálfsagt, en er það ekki. Eins og bara það, að fá að vakna að morgni og geta farið á fætur og tekið þátt í því sem dagurinn hefur upp á að bjóða. Bara þetta atriði er svo langt frá því að vera sjálfsagt. Gleymum aldrei að þakka fyrir það.
Því miður eru það svo margir sem ekki geta notið eins og við sjálf, því það vill oft gleymast að það eru margir sjúkir á spítölum, eða illa farnir eftir slys, svo er fólk að missa ástvini sína, eða sitja yfir fárveikum ástvinum. Þetta fólk er óhjákvæmilega með hugann við allt annað en að skreyta hjá sér og baka. Svo má ekki gleyma þeim sem oft eru í algjöru svartnætti á þessum tíma.
Þetta er nú bara það sem stendur okkur næst en svo er jú allur heimurinn þarna fyrir utan. Þar býr fólk sem misst hefur heimili sín í miklum hörmungum vegna styrjalda, náttúruhamfara og annarra hörmunga.
Ég ætlaði nú ekki að enda þenna pistil á svo döprum nótum. Ég fór bara að hugsa um þetta þar sem ég sat og horfði ánægð í kringum mig, búin að skreyta allt, baka nokkrar smákökur, fara á tónleika og jólamarkaði. Já þegar ég var að dásama þetta allt þá fór ég að hugsa um alla hina sem hafa það engan veginn eins gott og ég sjálf.
Verum þakklát fyrir allt það sem við höfum til að njóta og leiðum hugann að því að það er ekki sjálfsagt hlutskipti.
Leave a Reply