Ég fór í Qi gong hjá Krabbameinsfélaginu um hádegið og í framhaldi af því var flutt erindi um hamingjuna. Síðasta glæran sem kom þar upp á skjáinn var:
Hamingja er ekki að fá það sem þú vilt
heldur að vilja það sem þú hefur.
Þegar ég kom heim þá hringdi síminn og mér var tilkynnt að ég ætti að fara í endurhæfingu í 4 vikur í Hveragerði líklega í janúar. Mér fannst þetta gott framhald af hamingjufyrirlestrinum og mikið varð ég ánægð, því þá get ég kannski fundið orkuna mína sem ég hef alveg týnt og hver veit nema hún hafi fokið austur yfir fjall og ég finni þana þar sprelllifandi eftir áramótin.
Allt gengur samkvæmt áætlun og ég fæ vonandi góða skoðun hjá skurðlækninum á morgun og hjá innkirtlafræðingnum í næstu viku. Ég er ákveðin í að vera ekki neitt að jólastressast og skammast mín bara ekkert fyrir það að vera í leti fyrir þessi jól. Ég jólastressast þá bara tvöfalt fyrir þarnæstu jól. Hann Gunnar Eyjólfsson sagði í hugleiðslunni í morgun að þessi árstími væri tími hvíldar og rólegheita. Við ættum að gera eins og náttúran sjálf, að spara orkuna og hafa það rólegt, hvíla hugann og láta ekki allt áreitið sem á okkur dynur í fjölmiðlum og annars staðar ná tökum á okkur. Þetta væri tími sem ætti að safna kröftum en ekki að sóa þeim.
Ég ætla að enda þessa mjög svo stuttu færslu á nokkrum orðum úr fyrirlestrinum um hamingjuna um hádegið,
“Verðu tíma með vinum og fjölskyldu. Ánægjulegt líf er líf sem við deilum með vinum og fjölskyldu.
Því nánari sem tengslin eru og því oftar sem við eigum í samskiptum við þau, því hamingjusamari verðum við. “
Mér finnst þessi orð eiga svo vel við núna og þau undirstrika það sem Gunnar Eyjólfs hafði sagt nokkru áður en fyrirlesturinn hófst, að við eigum ekki að stressa okkur í einhverju brjálæði fyrir jólin heldur rækta okkur sjálf og sjá til þess að fá góða hvíld.
Leave a Reply