Kveiktur eldmóður sem vonandi slökknar ekki.

Þegar vekjaraklukkan í símanum mínum hringdi klukkan níu í morgun, þá langaði mig mest til þess að fleygja símanum mínum út í horn og halda áfram að sofa.  Ég sparkaði  hins vegar sjálfri mér út úr rúminu því ég vil hafa reglu á hlutunum og vil ekki eyða morgnunum í að sofa. Mér fannst ég samt eiga það skilið að kúra núna, því ég var vöknuð klukkan þrjú í nótt og náði bara ekki að sofna aftur fyrr en seint og um síðir – Kannski svona spennt að fara með ungunum mínum í bústað um helgina.

Það var Qi-gong dagur í dag og svo átti að vera fyrirlestur um skapandi skrif í Skógarhlíðinni á eftir. Þó ég væri búin að drattast á fætur þá fann ég mér allt til afsökunar til þess að vera bara heima í dag – hárið var ómögulegt og ég bæði ósofin og þreytt. Þetta gekk svona alveg fram á síðustu stundu, en eftir að tala rækilega yfir hausamótunum á sjálfri mér og spyrja mig hvort ég yrði sátt við sjálfa mig ef ég sleppti þessum fyrirlestri, sem ég var búin að hlakka svo til að heyra, þá ákvað ég að láta slag standa og drífa mig af stað.  

Ég mætti á síðustu stundu í Skógarhlíðina, því bæði var ég sein og lengi að finna bílastæði þó ég næði á réttum tíma, en fékk hinsvegar bara sæti aftast í salnum. Þegar Gunnar Eyjólfsson byrjaði að leiða okkur inn í íhugunina, þá uppgötvaði ég að þetta var ekki rödd Gunnars.  Við nánari athugun þekkti ég að þetta væri Björn Bjarnason fyrrum ráðherra sem var fyrir Gunnar í dag, en þeir hafa iðkað þessa íhugun saman í einhverja áratugi.  Birni tókst mjög vel að leiða okkur áfram í orkusöfnuninni  og svei mér þá ef ég náði ekki að skafa mesta skítinn úr heilanum á mér og blása honum frá mér, því þegar kom að fyrirlestri Önnu Heiðu Pálsdóttur um skapandi skrif, þá fannst mér ég svo vel vakandi að ég drakk í mig allt sem hún sagði. Nú langar mig svo til þess að læra að skrifa eitthvað skapandi og hef fullan hug á því að komast á námskeið til þess að læra tæknina. Ég gæti þá kannski komið í sæmilegt form ýmsum glefsum sem ég hef safnað að mér svona til þess að skilja eftir handa afkomendunum og haft þetta sem tómstundaiðju í ellinni.   Eitthvað á ég af gömlum pistlum hérna í Sarpinum á heimasíðunni minni sem væri gaman að dusta rykið af og  athuga hvort hægt væri að koma því í eitthvað heildstætt og vitrænt form.  Fyrir utan það hvað fyrirlesturinn var góður, þá var mjög gaman að hitta Önnu Heiðu aftur, en þegar hún var stelpa þá var ég ritari pabba hennar, Páls S. Pálssonar, hrl.  og þá var hún oft að skottast á skrifstofunni.  

Ég hef auðvitað engan tíma til þess að byrja á neinum skrifum strax, því ég þarf að versla og gera ýmislegt fyrir bústaðaferðina um helgina.  Ég vona bara af öllu hjarta að þegar ég kem heim aftur þá geti ég aftur fundið eldmóðinn og tilhlökkunina sem ég fann fyrir í dag og fari að skoða þetta af alvöru.  Þetta gæti verið svo gaman.

 


Comments

6 responses to “Kveiktur eldmóður sem vonandi slökknar ekki.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *