Landið okkar og gróðurinn.

Mér varð hugsað til þess, þegar ég horfði á magnaða þáttinn, hans Ómars Ragnarssonar í Sjónvarpinu áðan, hvað þeir eru orðnir margir staðirnir, sem nú eru orðnir að lóni vegna virkjana og vissulega er það sorglegt.  Það er hinsvegar önnur ógn sem mér finnst fólk ekkert hafa áhyggjur af og talar bara um að hún sé svo falleg – Sú ógn heitir LÚPÍNA og veður yfir landið. Hún eirir engu, hvorki smágróðri eða smáum trjágróðri og gerir engin skil á því hvort hún fer yfir berangur eða gróið land. Ég er hræddust um, að þar sem hún margfaldast að umfangi frá ári til árs og ekkert virðist gert eða eiga að gera til að hefta útbreiðslu hennar, þá endi hún með því að kæfa allan fallega smágróðurinn okkar, eins og fallegu sóleyjarnar, geldingahnappana og fleira.
Það er t.d. hræðilegt að aka í gegnum Heiðmörkina og sjá að þar sem áður var berjalyng, blágresi, sóleyjar og margvíslegur annar gróður, er nú ein Lúpínubreiða.
Við tókum líka eftir því, þar sem við ókum vesturleiðina norður í land um daginn hvað það er víða, allt of víða sem lúpínan er búin að vaða yfir í stórum flákum svo engan annan gróður er að sjá. Ég sakna þess að sjá ekki fallega íslenska holtagróðurinn lengur nema á stöku stað. Við sáum svæði með uppgræðslu skóga og lúpínan var búin að vaða þar yfir svo að rétt sá í smæstu trén upp fyrir lúpínuskóginn. Þó þessi fjólublái litur sé fallegur og blómið sjálft líka,  þá er afskaplega leiðinlegt að sjá ekkert annað og verulega sorglegt að svona sé komið. Ég hefði bara ekki ímyndað mér, nema af því við sáum hana í blóma, hvað hún er búin að leggja stór svæði undir sig.

Við sáum hinsvegar smágróðurinn fallega, berjalyng og ótal jurtir vaxa villt úti í Hrísey og það er vonandi að lúpínunni verði haldið niðri þar og kerfillinn verði líka stöðvaður.

Verum vakandi og gerum allt sem við getum til að vernda okkar einstöku íslensku náttúru. Verum ekki alltaf svona auðtrúa eins og með lúpínuna, sem sagt var að aðeins myndi binda jarðveginn á sandi og melum en aldrei fara yfir annan gróður.  Raunin er önnur í dag og nú hefur kerfillinn bættst við.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *