Jú við höfum verið dugleg að skreppa eitthvað og gera eitthvað skemmtilegt þessa dagana. Í gær fórum við í bíltúr austur yfir fjall, fórum Þrengslin og byrjuðum á því að skoða málverkasýningu Jóns Inga mágs míns, sem heldur nú sýningu á vatnslitamyndum í Gónhól á Eyrarbakka. svo hringsóluðum við svona aðeins um sveitina og fórum svo heim og fengum okkur kaffi. Haukur nefndi nú ýmsa staði til þess að fá sér kaffi á, en ég var bara ekki alveg í stuði til þess – það gerist nú ekki oft að mig langi ekki á kaffihús, en við enduðum sem sé á að fá okkur kaffisopa þegar við komum heim. Ég var bara eitthvað þreytt og slöpp, en dreif mig þó í að baka nokkrar muffinskökur http://ragna.betra.is/?page_id=2751 til þess að fá mér í kaffitímanum og til þess að taka með mér þar sem ég fer í kaffi.
Eftir kvöldmat var ég svo búin að vera í tölvunni, í einhverju brasi með tengla á heimasíðunni minni, þegar mér fór að allt í einu að líða eitthvað undarlega. Fór fram og ætlaði á klósettið en fann þá að ég var að líða út af og komst beint inn í rúm og náði að kalla á Hauk. Ég reyndi síðan í þrjú skipti en um leið og ég stóð upp ætlaði alltaf að líða yfir mig aftur og mér leið ömurlega og var óglatt. Ég mældi blóðþrýstinginn og hann hékk í hundrað en neðri mörkin voru í 57.
Á þessu stigi þorði ég ekki annað en að tala við þá í 112 og þeir vildu endilega koma til mín og svo varð það þeirra mat að fara með mig niður á bráðavakt. Ég átti nú von að að þeir yrðu fljótir að senda þessa móðursjúku kellingu heim aftur, en þegr búið var að fá niðurstöðu úr blóðprufum kom í ljós að ég var orðin allt of lág í natríum, sem skýrði ástandið. Fyrst var haldið að ég væri með einhverja pest (ég trúði reyndar ekki á það sjálf) og sýni voru send í ræktun og ég átti að liggja inni á einangrun í nokkra daga þangað til fyrir lægi hvað kæmi út úr þeim. Ég var því flutt á einangrunatstofu, með nitríum í æð og var þar í nótt og fram á miðjan dag í dag. Í nótt leið mér á tímabili svo illa vegna flökurleika og yfirliðatilfinningar og þá fór blóðþrýstingurinn í 77/40, sem er auðvitað hvort tveggja helmingi lægra en eðlilegt er.
Um miðjan dag í dag var ég hinsvegar komin upp í 106/60 í blóðþrýsting og þá var ég búin að fá líklega þrjá poka af nitrium í æð. Enn vantar þó uppá að það sé nægjanlega mikið, en það var nóg til þess að ég mátti fara heim uppá það að koma aftur strax ef þetta gerist aftur. Heimilislæknirinn þarf svo að láta taka blóðprufur og fylgjast með blóðþrýstingnum næstu tvær vikur.
Ég fékk í dag hringingu frá innrituninni á LSH. Fyrsti lausi aðgerðardagurinn sem er laus á skurðstofu fyrir 5 tíma aðgerð, er 4. júní, svo enn reynir á þolinmæðina, en eins og við vitum þá vinnur hún þrautir allar svo við tökum því eins og öðru.
Ég sagði nú þegar ég kom heim að auðvitað væri hægt að sjá ljósan punkt í þessari nýju frestum. Fyrst ég varð allt í einu svona lág í natrium – málmsöltum sem líkamanum eru lífsnauðsynleg, þá er nú betra að hafa þennan tíma fram að aðgerð til þess að vinna bug á því. Ég segi sem fyrr að það er forsjónin sem stjórnar og raðar niður a.m.k. í mínu lífi.
Ég hef þá trú að allt lyfjaátið og sterarnir sem ég tók í janúar og febrúar hafi skapað mikinn ójöfnuð í líkamanum, en nú vinn ég að því hörðum höndum að koma jafnvægi á allt aftur.
Þar til næst, þá segi ég bara góða helgi og líði ykkur öllum vel.
Leave a Reply