Maturinn fyrir jól í öðru landi.

Þessi minning skýtur upp kollinum hjá mér alltaf þegar jólin nálgast eins og fleiri frá þessum tíma.  Þetta var í Englandi 1975.  Eflaust hef ég sagt frá þessu áður, en ég segi þá bara frá því enn á ný,  á nýja blogginu mínu.

Þegar fór að nálgast jólin fór ég að kíkja eftir hamborgarhrygg, en slíkt hafði ég ekki séð í stórmörkuðunum sem ég verslaði við og enginn vissi hvað ég var að tala um þegar ég sagðist vera að leita að  “hamburger back, – a smoked back of  a pig  “.  Öðru vísi vissi ég ekki hvernig ég gæti skýrt þetta svona í fyrstu tilraun.  Mikið rosalega held ég að þeir hafi hlegið þegar ég var farin úr búðinni.  Þó áttuðu þeir sig á því að ég vildi reykt svínakjöt og mér var bent á beikon, ég gæti fengið það í heilu stykki. Ekki vildi íslendingurinn það og reyndi áfram. Ég leitaði svo eins og alltaf, til hennar Angelu vinkonu minnar sem vissi allt. Hún benti mér á að fara í kjötbúðirnar sem slátrararnir væru með því þeir vissu það ef einhver, hvað ég vildi fá. það væri best að fara til Weybridge eða annarra af stærri bæjunum í kringum okkur.

Ég endaði svo  í Adelston , þar sem ég fann frekar stóra kjötbúð og bað kotroskin um að fá að tala við aðalkjötkaupmanninn. Inni í mér hamaðist þó hjartað og ég var að springa úr stressi yfir því sem í vændum væri þegar ég færi að tjá mig um hvað ég vildi og spurningin um hvernig ég ætti að bregðast við, ef  kjötkaupmaðurinn myndi springa úr hlátri þegar ég bæri upp erindið.
Ég var hins vegar heppin því þarna hitti ég kjötkaupmann sem hafði fullan skilning á erindi mínu og vildi allt fyrir mig gera. Hann hafði heyrt um þessa verkun á svínakjöti en sagðist ekki vera með það því það væri ekki enskur siður að borða slíkt. Þetta væri örugglega þýskt eða skandinavískt. Þegar ég sagði svo að það þyrfti að vera “back of a pig” þá var hann heldur ekki ekki viss um hvað ég meinti með því að ætla að fá bak af svíni. Ég teiknaði þá á bakið á mér til að sýna hvernig ég vildi hrygginn. Mér var nú orðið sama að hve miklu fífli ég gerði mig í búðinni bara ef ég fengi eitthvað sem nálgaðist að vera rétti jólamaturinn.
Hann brosti þá góðlátlega að leikrænum tilburðum mínum og var svo elskulegur að segja mér að koma aftur eftir nokkra daga því hann ætlaði að kynna sér málið betur og reyna eins og hann gæti að útvega þetta fyrir mig, því auðvitað yrði ég að fá réttan jólamat, annað hvort væri nú.
Nokkrum dögum síðar mætti ég svo aftur til slátrarans í von um að hann hefði fundið eitthvað fyrir mig semlíktist því sem ég var að biðja um.  Jú, það stóð ekki á þessari yndislegu hjálpsemi sem ég hafði raunar alls staðar kynnst í Englandi og þessi elskulegi maður kom brosandi til mín  um leið og hann sá mig koma inn í búðina og rétti mér hamborgarhrygg.
Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum.
Það fór því svo að þessi enski slátrari átti sinn stóra þátt í því að við fengum eftir allt okkar hamborgarhrygg á jólunum og það mjög góðan hrygg.
Ekki vildi hann gera mikið úr fyrirhöfninni en sagðist hafa fundið þetta og pantað frá London. Ekki til að tala um að fara að borga eitthvað sérstaklega fyrir fyrirhöfnina það væri bara ánægja sín að hafa getað fundið þetta fyrir mig og svo bauð hann Gleðileg Jól. Mig langaði mest til þess að stökkva upp um hálsinn á honum og gefa honum knús en vissi ekki alveg hvernig hann myndi taka því og þakkaði honum því bara með fallegum orðum. Stundum verður það að duga.

 

 


Comments

8 responses to “Maturinn fyrir jól í öðru landi.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *