Mér finnst rigningin góð, tralla lalla la.

Það endaði með því að ég tók bara Pollýönnu á þetta. Kannski er nefnilega einmitt svo gott að fá svona dag sem ekki er hundi út sigandi, hvað þá konu sem er að verða löggilt gamalmenni. Ég fór að grúska í gömlu dóti. Fann myndaalbúm með nokkrum myndum í frá Oddi mínum  síðan hann var strákur á Heiði – ég þarf að skanna þær inn fljótlega.

Svo  fann ég hljóðsnældu, sem ég hef veikan grun um og vona að sé sú sem ég hef leitað að í dag. Nú eru bara svo nýir tímar að ekkert er kasettutækið til að setja hana í svo ég geti heyrt hvaða efni er á henni.  Ég athuga  það seinna í dag hvort barnabörnin mín lumi kannski á einhverju slíku fornaldartæki sem amma gæti fengið lánað.

Svo fann ég meira. Fullan kassa af gömlum bréfum til Tómstundaþáttarins, sem öll innihalda einhvers konar gamla leiki. Þarna eru bæði inni- og útileikir sem þættinum voru sendir árið 1956. Ég hélt þessu eftir og ætlaði að slá þetta allt inn i tölvu, þegar ég fór á sínum tíma með annað viðkomandi þættinum á Þjóðskjalasafnið.

Mikið væri nú gaman að láta verða af því að slá þetta allt inn í tölvu, þó ég viti ekki hvort nokkur hefði gaman af að glugga í þetta. Svo minnir mig líka að að hafi einhvern tíman verið gefin út bók  með svona gömlum leikjum. Spái í þetta með dætrunum – kennurunum.

Já svona geta nú dimmir og drungalegir dagar breytzt í eitthvað spennandi og skemmtilegt.

 


Comments

2 responses to “Mér finnst rigningin góð, tralla lalla la.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *