Nýja Saumavélin.

Við vorum nýflutt í Grófina 1 þegar ég ákvað að kaupa mína fyrstu saumavél því nú var ekki eldgamla saumavélin hennar mömmu tiltæk.

Ég fékk því að skreppa í bankann í vinnutímanum einn daginn og tók peninga út af bankabókinni minni og fór svo rakleitt þegar vinnu lauk inn í Borgartún í heildverslun Ásbjörns Ólafssonar.  Þar sagðist ég ætla að fá eitt stykki Bernina saumavél.  Mikið rosalega fannst mér ég vera orðin fullorðin þegar ég sagði hvað ég ætlaði að fá og montin að geta svo talið mína eigin peninga upp úr veskinu til þess að borga fyrir. Ég man líka hvað ég var hamingjusöm á heimleiðinni – alltaf að kíkja aftur í aftursætið á splunkunýju saumavélina. Það kom auðvitað ekki til greina að setja slíkan kostagrip eins og hvert annað drasl í skottið á bílnum. Nei, hún varð að vera þar sem ég gat kíkt á hana öðru hvoru. Þess ber auðvitað að geta að vélin var kyrfilega lokuð inni í tösku, eða réttara sagt kassa með haldi á. En, ég sá fyrir mér vélina þegar ég horfði á umbúðirnar og um mig fór bylgja af stolti og ánægju.

Ég var búin að kaupa efni í sængurver og koddaver því auðvitað gekk ekki að vera með slíkt af sitt hvorri sort, nei þetta varð að vera samstætt.  Ég var svoooo spennt að geta byrjað að æfa mig á vélina að ég var mikið að spá í það hvort við þyrftum nokkuð að elda.

“Ertu nokkuð svangur núna Eigum við kannski bara að sleppa matnum því þú ert hvort sem er að fara í spilaklúbbinn?”
“Jú eigum við ekki að elda??? ég er orðinn glorhungraður og nenni ekki að bíða til klukkan 10 í kvöld að fá eitthvað í spilaklúbbnum”.

Það var því eldað, borðað og vaskað upp – oh hvað þetta tók langan tíma –  En loksins var þetta frá og Oddur farinn í spilaklúbbinn.  Ég tók hinsvegar strax til við nýju saumavélina. Það var svolítið skrýtið að eiga að stýra vélinni með hnénu, en ég var vön fótstiginni vél. Það varð því að passa sig vel að hreyfa ekkert hnéð, sem stjórnaði  arminum, því þá þaut vélin óðara af stað.

Allt gekk þetta vel svona fyrsta meterinn sem ég saumaði, en þá stoppaði ég aðeins til þess að sauma hina hliðina á koddaverinu. Ég var svo að hagræða því þegar ég rak mig óvart í arminn og vélin þaut af stað – ég rak upp öskur, vélin varð föst og nálin brotnaði.

Öskrið var ekki af því að ég ætti ekki nál til skiptanna heldur var fyrirstaðan sem stöðvaði vélina fingurinn á sjálfri mér. Sem betur fer var ég ekki föst við vélina en helmingurinn sem brotnaði af nálinni var fastur í fingrinum á mér. Ég vissi nú ekki mitt rjúkandi ráð – Oddur ekki heima, ég ekki með neinn bíl og enginn sími nema niðri á skrifstofu.

Ég fann því skrifstofulyklana og fór niður og hvílíkt lán sem var yfir mér – var ekki einmitt Þorsteinn gamli eitthvað að sækja á skrifstofuna og þegar ég hafði sagt honum hvað hefði komið fyrir mig og ég þyrfti að hringja á leigubíl, þá tók hann ekki annað í mál en að fara með mér á Slysavarðstofuna.  Við eyddum því kvöldinu þar, Þorsteinn og ég. Fyrst sitjandi á biðstofunni í langan tíma, því þetta kvöld sýndist mé að helmingur borgarbúa hefði endilega þurft að slasa sig  líka – hvílíkt ósanngjarnt þar sem þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég hafði þurft að koma á þennan stað. En, svona var þetta nú. Það sem skelfdi mig meðan biðin frammi stóð yfir, var að nálin sem í fyrstu hafði staðið út úr puttanum hvarf smám saman inn í puttann, sem bólgnaði alltaf meira og meira.

Loksins var biðin á enda og við vorum kölluð inn. Læknir tók á móti okkur og skömmin sú fór bara að hlæja þegar ég sagði honum að ég hefði saumað með saumavél í gegnum fingurinn á mér. Það segi ég satt að mér fannst þetta EKKI fyndið.  Hann þurfti svo að spretta eitthvað fyrir á fingrinum til þess að ná í endann á nálinni og síðan var ég sett á fúkkalyf í einhverja daga. Mig minnir að ég hafi fengið einhverja sprautu líka.

Þorsteinn skilaði mér svo heim aftur og mikið var ég honum þakklát fyrir að hafa hugsað svona vel um mig.  Oddur kom svo aðeins seinna heim úr spilaklúbbnum og botnaði ekkert í því hvað ég hefði gert við hendina á mér því ég var öll reyfuð.  Ég man að hann sagði að næst yrði hann að fá einhvern til að passa mig svo ég færi mér ekki að voða J

———————————-

 Ég var eftir þetta alveg sérstaklega varkár þegar ég notaði saumavélina mína og setti alltaf upp arminn þegar ég þurfti að lagfæra eitthvað. Þessa saumavél átti ég og notaði í 45 ár, eða þangað til Haukur gaf mér saumavél í afmælisgjöf þegar ég varð sextug.


Comments

9 responses to “Nýja Saumavélin.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *