Skrýtin vika – Hvað er aftur síminn hjá vælubílnum?

Það var sko gott að ég tók allt í einu þá ákvörðun að koma heim úr bústaðaferðinni á mánudeginum en ekki á þriðjudeginum eins og til stóð í upphafi því ekki hefði ég viljað viljað vera í sumarbústað næstu nótt.  Mánudagurinn var hins vegar svo fallegur og það var alveg dásamlegt að aka heim í gegnum Þingvelli og ég tók margar myndir á leiðinni.

Ég var búin að vera slæm af hálsríg í bústaðnum og var fegin að eiga tíma í sjúkraþjálfun til þess að liðka hálsliðina. Ekki gat ég þó notað mér sjúkraþjálfunina því ég tók upp á því að fara í óvænt ferðalag nóttina eftir að við komum heim og ég kom ekki heim aftur fyrr en seinni part næsta dags. Já, ég vaknaði bara upp úr fasta svefni við að það sem var líkast því að einhver væri að tromma með öflugu trommusetti inni í mér. Til að stytta söguna, þá reyndist ég með svona bullandi háan blóðþrýsting og hraðan púls og var send í sjúkrabílarallí, fyrst í Fossvoginn þar sem tekin var blóðprufa og línurit og þaðan seinna með öðrum sjúkrabíl á Hringbrautina.  Mér var gefið eitthvað viðbótarlyf til þess að lækka blóðþrýstinginn. Ég lá svo þarna inni fram eftir degi á meðan púlsinn smá gaf eftir, en þá mátti ég fara heim þar sem ég hafði ekki önnur einkenni með þessu en höfuðverk og hálsríg. Var reyndar á sterku fúkkalyfi vegna smá ígerðar, en það var svona spurningamerki hvort það hefði nokkuð haft með þetta að gera.
Þetta var fyrri hluta vikunnar – svo kemur seinni hlutinn.

Á fimmtudaginn fór ég svo að finna fyrir miklum tak-verk í hægri síðunni, undir rifjaboganum á bakinu og hef átt erfitt með að hreyfa mig og ná djúpa andanum. Nokkurn veginn í lagi að sitja en ferlegt að standa upp. Ég hitti sjúkraþjálfarann minn á föstudaginn og hún setti á mig allar þær græjur sem hún átti til og mér fannst ég nú verða heldur betri. Þegar ég fór út frá henni, þá ákvað ég að kveikja aftur á símanum mínum sem ég hafði sett á hljóðlaust.  Ekki vildi þá betur til en svo,  þegar ég stóð við nokkrar flísalagðar tröppur sem ég þurfti að ganga niður, að síminn skaust úr höndum mér og skoppaði niður tröppurnar. Mér brá svo mikið að ég fékk þau ósjálfráðu en heimskulegu heilaboð að reyna að grípa símann aftur.  Það hefði ég ekki átt að gera því ég fékk svo mikinn slink á mig að ég varð aftur jafn slæm og þegar ég staulaðist inn.  Ég náði þó að hnoða mér inn í bílinn og aka sæmilega skammlaust heim. – Þetta var auðvitað ábyrgðarlaust með öllu nema fyrir það að ég passaði vel upp á hraða og vandaðí mig rosalega vel við aksturinn.
Heimilislæknirinn minn var í fríi í gær svo ég skrapp á læknavaktina í Smáranum í gærkveldi, því ég átti ekki nein verkjalyf nema Panodíl sem virkar ekkert á þetta. Það var sama sagan í þetta skiptið. Læknirinn skoðaði mig og potaði í mig svo ég æjaði, en hann gat ekki fundið út frá hverju þetta tak stafaði. Hann hjálpaði mér síðan að standa upp úr stólnum aftur, og heim fór ég með lyfseðil fyrir Parkódín Forte og loforð um að tala við heimilislækni strax á mánudag og fá myndatöku því það væri ekki hægt að fá myndatökur um helgar. Þetta gæti verið allt mögulegt, allt frá brjósklosi til  – Þá sagði ég bara “Nei takk það væri alveg nóg að vera búin að fara í þrjá bakskurði  ég ætlaði ekki einu sinni að hugsa um að bæta þeim fjórða við.”  Heim fór ég úr apotekinu með Parkódín Forte og er búin að skrönglast hér um í dag. Var reyndar ágæt um miðjan dag, en ég verð að játa að ég hlakka ekki mikið til að leggjast upp í rúm.  Ég ætla rétt að vona að ég verði á yfirnáttúrulegan hátt laus við þetta í fyrramálið og geti sprottið út úr rúminu með “elegans” Mér finnst ég vera búin að vesenast nóg við vælubíla og lækna í þessari viku og nú vil ég bara byrja veturinn með stæl.

Við segjum Gleðilegt sumar og nú ætla ég að segja Gleðilegan og góðan vetur kæru vinir og vonandi fáum við oft eins fallegt sólarlag og var í kvöld.

Fyrsti vetrardagur 2013 008


Comments

9 responses to “Skrýtin vika – Hvað er aftur síminn hjá vælubílnum?”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *