Skrýtinn dagur.

Í morgun fór ég með Sigurrós inn í Glæsibæ til þess að setja rör í eyrun á henni Freyju Sigrúni og taka úr henni stóra nefkirtla. Það gekk allt vel en það tók hana um þrjá klukkutíma að losna út úr martröðinni þegar hún var að vakna, en hún braust í þennan tíma um á hæl og hnakka  og ekkert hægt að gera fyrir hana. Sigurrós hefur örugglega verið örmagna þegar þessu lauk.  Ég var svo hjá þeim í Arnarsmáranum þangað til Freyja róaðist og sofnaði en fór þá heim til mín.
Nokkru eftir að ég kom heim þá  hringdi Guðbjörg og sagði að Karlotta hefði meitt sig á fingri í Hreystivali  í skólanum og þær væru að fara upp á slysó.

Nú liðu svona 20 mínútur þangað til  hringt var á dyrabjöllunni hjá mér. Úti stóð konan sem þrífur stigaganginn, en hún er heyrnalaus og ég á erfitt með að tala við hana eins og ég vildi geta gert.  Hún kemur yfirleitt til mín ef eitthvað þarf  í sambandi við þrifin eða eitthvað vantar fyrir hana og þá reyni ég bara að tala greinilegt varamál, svo notum við handapat og einhvern veginn náum við nú að hafa smá samskipti.  Hún sýndi mér ljótan bruna á framhandleggnum á sér frá hendi og upp að olnboga. Stór blaðra hafði myndast en það hafði rifnað ofanaf henni, líklega þegar hún hefur farið úr peysunni. Þetta leit mjög illa út. Ég skildi það á henni að hún hefði brennt sig niðri í hjólageymslu þar sem hún tekur vatnið.  Ekki veit ég hvað hún var að nota heita vatnsslönguna, en það er greinilegt að stúturinn sem var fremst á slöngunni  hefur losnað af og heita vatnið sprautast yfir hana.  Yfirleitt er þessi stútur bara notaður á kaldavatnsslönguna en kannski hefur hún ætlað að bræða eitthvað meira úr tröppunum þarna niðri eða eitthvað sem ég ekki veit.   Ég bleytti handklæði og vafði um handlegginn  og sagði henni að fara á spítala . Þá hristi hún höfuðið og þá tók ég símann og spurði hvort ég gæti hringt í einhvern, datt í hug túlkurinn, en hún hristi höfuðið. Hún fór svo með handklæðið vafið blautt um handlegginn og plastfilmu yfir. Mér fannst svo leiðinlegt að geta ekki gert meira fyrir hana og ég var ekki einu sinni viss hvar hún ætti heima svo ég gæti keyrt heim með hana. Hún kvaddi bara og fór og ég hafði miklar áhyggjur af henni.

Guðbjörg var enn með Karlottu á slysó þegar þetta var og hún hringdi nokkru seinna og sagði að Oddur væri læstur úti. Ég sagði henni að hreingerningarkonan hérna myndi vonandi koma þarna niður eftir fljótlega og það gekk eftir eins og ég frétti síðar.   Ég fór svo og bjargaði Oddi, sem hafði ákveðið að bíða í skólanum heldur en að bíða í forstofunni heima eftir að komast inn. Svo sóttum við Oddur Ragnar á leikskólann í leiðinni. Piltarnir komu svo með ömmu heim og fengu eitthvað í svanginn. Svo komu Guðbjörg og  Karlotta að sækja þá, en þá frétti ég að Guðbjörg hafði heyrt niðri á slysó, að hreingherningakonan hefði verið með annars stigs slæman bruna.

Ég verð að játa að þetta var nokkuð mikið af atburðum á einum og sama deginum. Það er af  Freyju að segja að henni leið nú betur undir kvöld þegar hún var búin að fá verkjastíl, Karlotta kom heim með tvo fingur reyfaða saman, hún er óbrotin en það hafði blætt inn á liðinn og fingurinn tognað.  Því miður veit ég ekki hvernig ég get frétt nánar af henni Kötlu hreingerningarkonu en vonandi hefur hún fengið góða meðhöndlun á slysó og grær fljótt.

Í þeirri von að ekki gerist meira á þessum degi, þá lýk ég þessari færslu og fer inn í stofu að horfa á sjónvarpið.


Comments

8 responses to “Skrýtinn dagur.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *