Smá uppfærsla.

það er stundum alveg ótrúlegt hvað hver dagurinn af öðrum fer á ógnarhraða í alls konar snúninga og snatt,  sem lítur ekki út fyrir að vera mikið mál að klára þegar  minnismiði er skrifaður fyrir daginn.

Eftir að ég náði mér niður úr hraðasta Sterarússibananum og hætti að róla mér í ljósakrónunum, þá lá auðvitað ýmislegt fyrir sem hafði trassast frá því ég kom heim frá Tenerife og ég þurfti að fara að takast á við.   Fyrst var að ganga frá beiðni til tryggingafélags til þess að fá endurgreitt allt sem ég greiddi í sjúkrakostnað úti á Tenerife – eitthvað sem ég hélt að gengi í gegn svona einn tveir og þrír því allar nótur og vottorð  eru eins fullkomnu formi og hægt er að hugsa sér.   Svo datt mér í hug að árið í fyrra hefði ég greitt óheyrilega mikið í sjúkrakostnað hérna heima, svo ég ákvað að safna saman og fá gögn yfir það og þegar ég sá upphæðina þá ákvað ég að setja hana inn á skattframtalið.  Yfir alls konar svona snatti er ég búin að dunda mér síðan heilsan komst í lag.

Ég fékk fína útskrift hjá Lungnalækninum í gær og þarf nú bara að taka einn stera á dag í 10 dag ennþá, sem er mikill munur frá því að taka 10 á dag eftir að hafa verið með enn sterkara í æð. Nú er ég sem sagt nánast alveg laus úr þessari prísund og líður bara ljómandi vel og get í dag hlegið að því sem búið er að ganga á.  Öðrum eins aukaverkunum og ég fékk af þessum ofur-sterakúr sem ég kom á frá sólarlandinu hef ég sem betur fer aldrei kynnst og á vonandi ekki eftir að upplifa aftur.  Ég þekkti bara ekkert þessa manneskju sem hafði tekið sér bólfestu í mér.  Sú var fúl yfir öllu, ekkert mátti segja  – eða ekki segja,  hún bara æsti sig yfir hverju sem var, talaði á margföldum hraða og var bara svo hundleiðinleg að ég gat ekki beðið eftir því að losna við hana úr mínum líkama.  Það var því ekki margt vitrænt sem ég tók mér fyrir hendur á þeim tíma sem ég barðist við óvættinn.

Auðvitað hafði ég svo sigur að lokum og skapið mitt komið í þetta líka fína lag núna enda vorið alveg handan við hornið og annan daginn í röð höfum við nú sól og fallegt veður.

Nú ætla ég að fækka aðeins atriðum á minnislistanum mínum og byrja á því að koma mér í burtu frá tölvunni. Það er svo auðvelt að festa sig við þessa elsku þegar maður er sestur og fingurnir komnir á lyklaborðið.

Njótum návistar hvers annars
og gerum daginn góðan.

 


Comments

2 responses to “Smá uppfærsla.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *