Sunnudagsmorgunn í letikasti.

Þegar mikið hefur verið að gera og margt að gerast, þá er alveg dásamlegt að vakna á sunnudagsmorgni og leyfa sér að vera bara í algjöru letikasti. Ég er búin að njóta þess í morgun að klára að ráða Moggakrossgátuna síðan í gær og auðvitað drakk ég góðan kaffibolla með. Svo er ég búin að kíkja aðeins í heimsókn til Fésbókarvinanna og sjá hvað þeim liggur á hjarta. Svo er gott að láta bara hugann reika um síðustu vikuna, um vorið og sumarið sem eru í nánd og um yndislegu fjölskylduna mína sem ég elska svooooo mikið.

Þegar ég horfi út um gluggann þá sé ég að nú virðist vera hætt að rigna í bili, bara nokkuð bjart og nærri 10° hiti. Já það bendir allt til þess að vorið sé að reyna að brjótast í gegn. Einhvern veginn finnst mér alla vega að vorið sé alveg að koma,  þó undir niðri viti ég auðvitað að páskahretið sé eftir, en hvað munar okkur um eitt hret í viðbót við allt sem búið er að ganga á í vetur.

Er ekki sagt eitthvað á þessa leið um veður á komandi vori:  Þurr skyldi þorri,  þeysin góa, votur einmánuður og þá mun vel vora. Þorrinn var reyndar nokkuð votur líka, alla vega svona inn á milli, en ætli vorið verði þá ekki bara enn betra þegar allt hefur verið svona þeysið. Alla vega hlakka ég mjög til vorsins og sumarsins.  Við fengum svona aðeins innsýn í vorveður úti á Tenerife svo það er auðvelt að hlakka til.

Nú standa sem hæst marsafmælin og mikið á döfinni þessa dagana.  Hún Ragna Björk var búin að halda upp á fimm ára afmælið sitt. Á föstudagskvöldið hélt Guðbjörg upp á fertugsafmælið sitt með því að hafa konuboð sem var MJÖG skemmtilegt.  Í gærkveldi laugardag hélt svo Karlotta upp á fimmtán ára afmælið með vinum sínum. Þær þrjár, sem standa á fimm og núlli eru því búnar að halda upp á sín afmæli. Svo á Ragnar Fannberg afmæli á morgun . Leikskólavinir hans koma í heimsókn til hans, því nú  er minn 6 ára og byrjar í skóla í haust. Svo förum við í fertugsafmæli til Gústu  frænku Guðbjargar um næstu helgi.
Þá eru aprílafmælin eftir, Freyja Sigrún verður tveggja ára þann 5. apríl og vonandi verður hún frísk þá svo hún geti haldið upp á það. Svo á Magnús Már tengdasonur afmæli þann 8. apríl.

Ekki eru nú öll veisluhöld upptalin því í viðbót við þetta þá förum við í fjórar fermingarveislur og ætli ég haldi ekki líka saumó í vikunni sem er að byrja.  Ætli það fari ekki að verða tímabært- alla vega öruggara –  að  fara að drífa sig í líkamsræktina.

Á þessu augnabliki var að koma viðbót við veisluhöldin, því Haukur var að stinga upp á því að við færum á Fiskimarkaðinn að borða í kvöld – við áttum eftir að njóta jólagjafar, sem er einmitt gjafakort á Fiskimarkaðinn eða á Grillmarkaðinn, hvort sem valið er.
Mikið hlakka ég til þess að fá góðan fiskrétt í kvöld.

Njótum dagsins og allra daganna sem framundan eru. Við sem erum fær um að njóta – VERUM ÁNÆGÐ MEÐ LÍFIÐ og njótum þess sem það  gefur okkur. Hugsum jafnframt til þeirra, sem vegna veikinda eða slysa, eru ekki eru færir um að geta notið eins og við.

JÁ GLEYMUM EKKI AÐ VERA ÞAKKLÁT,
ÞVÍ ÞAÐ ER ALLS EKKI SJÁLFSAGT AÐ VIÐ FÁUM AÐ NJÓTA UMFRAM AÐRA.

 

 


Comments

5 responses to “Sunnudagsmorgunn í letikasti.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *