Svo lánsöm í lífinu þó ….

Eins og alltaf og ekki síst á þessum tíma árs þá lít ég yfir farinn veg og þakka fyrir líf mitt. Þakka fyrir þá sem mér þykir vænt um og fyrir það að geta alltaf deilt gleði minni og sorgum með þeim. Ég er þakklát fyrir það að eiga yndislega fjölskyldu og fá að sjá barnabörnin vaxa og þroskast í leik og námi og sjá hvaða eiginleikum þau eru gædd. Já bara svo óendanlega þakklát fyrir allt. Já, ég fæ svo oft þessa tilfinningu, ekki bara þegar nálgast áramót

Ég viðurkenni að ég hef velt því fyrir mér hvers vegna ég sé svona þakklát. Það er nefnilega ekki hægt að segja að lífið hafi eingöngu farið um mig mjúkum höndum og stundum hef ég þurft að hafa mig alla við til að komast í gegnum það blessað. Hvers vegna þá að vera svona þakklát? Er ástæða til þess að þakka fyrir þá erfiðleika sem maður hefur þurft að upplifa?

Vitanlega ber að þakka fyrir hvern dag, líka fyrir erfiða daga því hver dagur að kvöldi kominn er sigur.  Það er nefnilega ekki síst í sorg, erfiðleikum og veikindum, sem við þurfum að finna okkar innri styrk og nota hann til þess að takast á við það sem að höndum ber.  Það er mikið þakkarefni þegar okkur tekst það, því það þroskar okkur sem persónur.

Að mínu mati eru alltaf tveir kostir í boði.  Annars vegar að leyfa sér að sogast niður með erfiðleikunum, en hinn að standa uppúr og láta þá efla sig og styrkja.

Já, fyrri kosturinn felst í því að ákveða í upphafi að staðan sé vonlaus og það sé tilgangslaust að sætta sig við orðinn hlut eða yfirleitt að reyna að berjast á móti. Ef slíkur kostur er valinn, eru mestar líkur á að dragast niður með erfiðleikunum og enda svo niðurbrotinn eða jafnvel í óreglu fullur sjálfsvorkunnar.

Seinni kosturinn er að ákveða í upphafi að ætla sér að standa uppúr og berjast, finna okkar eiginn styrk og sýna hvað í okkur býr.  Við breytum ekki staðreyndum, en við getum lært að sætta okkur við þær. Við getum engu breytt nema okkar eigin viðhorfi.  Erfiðleikar geta kengbeygt okkur, en það er okkar að berjast áfram og virkja okkar eigin mátt og láta ekki brjóta okkur niður. Við vinnum ekki sigur ef við tökum ekki þátt í baráttunni – svo einfalt er það.

Ég hef aldrei tekið lífinu sem sjálfsögðum hlut þar sem allt eigi að vera í stakasta lagi og bara gaman endalaust og allt það slæma hljóti bara að koma fyrir aðra.  Það er ekki rétt sýn á lífið, sem er allt í bland, gleði, hamingja og erfiðleikar.  Við getum ekki ætlast til þess að okkar líf sé eingöngu dans á rósum á meðan hvers kyns erfiðleikar, veikindi og slys komi bara fyrir hjá öllum hinum –  Berjumst til sigurs hvern dag og þökkum að kvöldi.
————————

 


Comments

6 responses to “Svo lánsöm í lífinu þó ….”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *