Svona eru tilviljanirnar oft skemmtilegar.

Mig hefur lengi langað til að fara í söngstundina sem er annan hvern föstudag hjá FEBK í Gullsmára. Í gær tókst mér að sannfæra Hauk um að koma með mér og kíkja á þetta. Þegar við komum inn í anddyrið þá sátu leikskólabörn í langri röð upp við einn vegginn. Mér datt í hug hvort það gæti verið að ég ætti einhvern í þessum hópi. Ég fylgdi röðinni og þegar ég var alveg að komast út á enda þá stóð eitt barnið upp, kallaði amma og kom og knúsaði okkur – þarna var hún nafna mín Ragna Björk komin.  Ég spurði hvað þau væru að gera þarna þá sagði mín  ” Amma við ætlum að syngja með gamla fólkinu á elliheimilinu”. Alveg dásamlegt. Við fórum svo inn í salinn og börnin sátu í hálfhring fyrir framan harmonikuleikarana fjóra sem sáu um sönginn, Við sátum hinsvegar til hliðar við þá og sáum því beint á börnin. Eftir smá stund kom mín og sagði að fóstran hefði sagt að hún mætti alveg sitja hjá okkur.

Þetta var virkilega skemmtilegt. Það voru sönghefti á öllum borðum svo hægt var að rifja upp það sem er búið er að gleyma. Það er svo gaman að syngja svona  með öðrum og ekki  spillti svo að fá svona alveg óvænt að hafa hana nöfnu sína í fanginu á meðan – það fór bara ekki af mér brosið.  Ég var að vona að börnin myndu syngja fyrir okkur nokkur lög því ég veit að þau eru með kór á leikskólanum.  Það var hinsvegar engu breytt í söngvalinu þó að börnin væru með, öðru en því að þeir spiluðu fyrir þau  “Í skóginum stóð kofi einn”, sem var nú frekar kúnstugt val þar sem þetta er jólalag um jólasvein og síðan tvö barnalög að auki. Börnin virtust þó njóta stundarinnar vel og  virtust njóta þess að hlusta á sönginn þó verið væri að syngja það sem þau kunnu ekki – allir stilltir og prúðir allan tímann.

Nokkru áður en söngstundinni átti að ljúka, voru börnin kölluð saman og þau röltu síðan aftur upp brekkuna að leikskólanum sínum í Arnarsmáranum.  “Ekki skrýtið að börnin væru send í burtu áður en kom að bröndurunum” hvíslaði ég að Hauki þegar gömul kona  svona með þeim eldri í hópnum stóð upp til þess að segja brandara. Einn var um titrara sem festist í konu, annar um tudda sem var leiddur til kvígu og fleira í þeim dúr.   Þær  leyna heldur betur á sér þessar gömlu svo mikið er víst.

Svo var drukkið kaffi og við hittum þarna fólk á okkar aldri, sem Haukur þekkir úr ræktinni á morgnanna og við vorum lengi að spjalla við þau – reyndar alveg þangað til við tókum eftir því að allir aðrir en starfsfólkið voru farnir.

Þetta var svo skemmtilegt og hvílík tilviljun að hún litla nafna mín skyldi einmittt koma í þetta eina skipti sem við höfum mætt í sönginn.


Comments

6 responses to “Svona eru tilviljanirnar oft skemmtilegar.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *