Í dag eins og allar Þorláksmessur í 50 ár tek ég þátt í afmæli Guðbjargar tengdamóður minnar. Hún hefði orðið 90 ára í dag á Þorláksmessu, hefði hún lifað. Blessuð sé minning hennar.
Það var alltaf svo gaman þegar fjölskyldan hittist í afmælinu hennar á Þorláksmessu. Í gamla daga var hún með kaffi og kökur en hún fylgdist vel með tímanum og tískustraumum og þegar það komst í tísku að vera með skötu á Þorláksmessu, þá breytti mín snarlega yfir í það og bauð fjölskyldunni í skötu á afmælinu sínu á meðan hún hafði heilsu til.
Nú fagnar hún tengdamamma blessunin ekki lengur með okkur afmælisdeginum sínum þannig að við sjáum hana, en ég er viss um að hún er ekki fjarri gleðskapnum þegar fjölskyldan hittist á hverri Þorláksmessu. Loftur mágur minn og Dröfn kona hans halda nefnilega við þessum skemmtilega sið og af miklum rausnarskap bjóða þau öllum afkomendum tengdamömmu og fylgifiskum í skötu og saltfisk á Þorlák. Þannig minnumst við ömmu Böggu, eins og hún hefur verið kölluð síðan hún varð fyrst amma
Leave a Reply