Er meinilla við það sem spinnur vefi.

Mér hefur alltaf verið meinilla við þá sem gera vefi, það er að segja alla aðra en þá sem gera tölvuvefi því þeir eru bráðnauðsynlegir og mega sko ekki missa sig 🙂  En verur  eins og t.d. kóngulær og ýmsar smáverur sem vefa svona vefi hér og hvar finnst mér óhugnarlegar.  Samt lenti ég í því að  einhver örvera hefur dundað sér við að vefa þéttan harðan vef utan um fyllinguna sem sett var í brjóstið mitt þegar krabbameinið var tekið. Ekki skrýtið að mér skuli hafa liðið þannig í langan tíma að ég væri með illa lagað grjót framan á mér sem meiddi mig stöðugt í stað þess að vera með venjulegt uppbyggt brjóst. Þegar þetta var búið að vera hart og mjög undarlegt í laginu í marga mánuði þrátt fyrir sjúkraþjálfun og nudd, þá ákvað að láta kíkja á þetta og vera ekki alltaf að draga úr. Ég spurði  skurðlækninn hvort þetta gæti átt að vera svona. „Nei, ég geri aðgerð og skoða þetta. Fyllingin er búin að snúa sér. “
Ég verð að játa að ég varð mjög fegin að það ætti að opna þetta og skoða því ég var þreytt á að finna alltaf til í þessu. Aðgerðin, sem var gerð fljótlega, gekk vel og mér hefur liðið mun betur í brjóstinu þessa daga síðan,  þó svona stutt sé frá aðgerð og vonandi heldur það áfram þannig.

Í gær fékk ég nánari skýringar á því hjá lækninum hvað hefur verið að gerast. – Mikill örvefur búinn að vefja sig utan um allt saman og sjálfsagt búinn að snúa öllu á hvolf. Læknirinn sagðist hafa þurft að fjarlægja þennan harða örvef, sem var u.þ.b. fingurþykkur á köflum og gera rásir í hann þar sem ekki var alveg hægt að taka hann í burtu.

Þegar umbúðirnar vou teknar í gær og ég sá brjóstið þá datt mér í hug gatan okkar hérna fyrir utan, sem er með þykkum klakahjúp og djúpum hljólförum ásamt því að búið er að gera rásir í átt að niðurföllunum – sem sagt ekkert fallegt sem blasti við mér og á þeirri stundu sá ég eftir að hafa ekki bara staðið við það sem mér kom fyrst í hug þegar þetta byrjaði allt. – Láta fjarlægja meinið og sauma svo fyrir –
Strax í dag hefur þetta nú jafnað sig aðeins enda er ég aftur komin í strekk sem ég verð í líklega í 6 – 8 vikur til þess að halda öllu á réttum stað og draga úr bólgum.  Drenið mitt losna ég svo vonandi við á morgun eða á mánudaginn því þá hef ég verið með það í viku. Svo verður sprautað aftur sterum og einhverju fíneríi undir hendina eftir svona 4 – 6 vikur, en hann gerði eitthvað slíkt í aðgerðinni líka.

Nú bara vona ég að í þetta skiptið láti þetta örverukvikindi mig í friði. Ég get ekki hugsað til þess að einhver sé að dunda sér við að spinna vefi í brjóstinu á mér. Ég verð sko að beina allri minni orku að því að reka þennan vefara út úr mínum líkama 🙁

Hún ætlar að vera endalaus þessi saga af brjóstinu mínu, en ég hef hins vegar ákveðið að nóg sé nóg nú sé ekkert nema góð tíð framundan og segi STOPP við alla sem ætla að ráðast á mig innanfrá.

Til skýringar afritaði ég neðangreint frá http://www.brjostakrabbamein.is/ og þar er auðvitað hægt að fræðast um svo margt þessu tengt eins og á vefnum  http://www.skurdlaekningarbrjostakrabbameina.is/  :
….
“ Örvefur:
Þegar púðanum hefur verið komið fyrir myndast örvefur umhverfis og til verður það sem kallast vefjarhylki. Yfirleitt er svona vefjarhylki allt frá því að vera gisið yfir í þétt, þó þannig að ekki finnst fyrir því. Engu að síður gerist það öðru hverju (í einu af hverjum tíu tilfellum) að vefjarhylkið verður mjög hart. Þá getur það framkallað verki og aflagað brjóstið. Gerist það, getur skurðlæknir molað örvefinn og reynist það nauðsynlegt, komið fyrir annarri fyllingu. … “

Ég skrifaði þessa færslu, ef einhver er í sömu aðstöðu og ég var í og er að reyna að googla eitthvað um málið. Ég vildi að ég hefði kvartað meira yfir þessu, svo þetta hefði verið skoðað fyrr.

Enn sem fyrr hæli ég öllu starfsfólkinu sem kemur að þessum málum – Þau bregðast manni aldrei. 🙂

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

Gamli tíminn rifjast upp.

Í sjötugs afmæli minna góðu vina Hreins og Birgit í gær rifjuðust upp margar góðar stundir frá liðnum tíma. Þarna var m.a. allur gamli spilaklúbburinn hans Odds heitins og þar á meðal æskuvinir hans Hreinn og Kristinn, en þeir byrjuðu allir saman í 7 ára bekk í Langholtsskóla og voru vinir upp frá því.  Þeir Oddur og Hreinn eignuðust síðan kærustur sínar, okkur Birgit, á svipuðum tíma, svona um 16 ára aldurinn. Við Birgit urðum strax góðar vinkonur og hefur vinskapurinn við þau hjón staðið allar götur síðan. Einnig vinskapurinn við Ingunni sem giftist Kristni og svo bættust fleiri við síðar.

Ég hugsaði um það eftir veikindi Odds hvað það er mikill munur á því að eiga annars vegar vini sem hverfa við breyttar aðstæður og hins vegar sanna vini sem standa með manni hvað sem á dynur, en þau heiðurshjón Birgit og Hreinn tilheyra sönnum vinum, ásamt fleirum sem voru í þessum góða hópi sem spilaklúbburinn var.

Það  rifjaðist upp fyrir mér í veislunni í gær að þegar spilaklúbburinn, sem í voru eingöngu fátækir námsmenn, var í fyrsta skipti búinn að safna allan veturinn í púkk til þess að geta boðið sínum heitt elskuðu út að borða. Þá var sjóðurinn ekki digrari en svo að hann dugði til þess að greiða aðgangseyri að Glaumbæ, þar sem pantað var „Smörrebrauð“ og kók. Ég man meira að segja hvar við sátum uppi á efri hæðinni. Þetta var hvílík upplifun og flott að fara svona út að borða og það sem meira var, að komast inn án þess að vera beðin um skilríki því ég var árinu yngri en þau hin, sem voru ýmist orðin 18 eða að verða það.

Árið eftir náðist að safna aðeins meiru í sjóðinn, sem nú dugði til þess að kaupa körfukjúkling og franskar í Naustinu. Þetta var svona alvöru 🙂  Rosalega fannst okkur við vera að fara fínt út að borða í það skiptið.
Áður en kjúklingakörfurnar komu á borðið þarna í Naustinu var komið með glös með vatni og sett við hvern disk, mig minnir að það hafi verið sítróna í glasinu líka.  Á meðan við biðum eftir matnum drukkum við að mestu vatnið úr glösunum, en þegar þjónninn kom með matinn varð hann eitthvað skrýtinn á svipinn og sagði svo kurteislega “ Fyrirgefið, en vatnið átti að vera til þess að skola af fingrunum þegar þið borðuðuð kjúklinginn“.   Nú voru það við sem urðum kindarleg á svipinn. Hvernig áttum við líka að vita af þessum kúnstum. Ég hafði held ég aldrei borðað kjúkling fyrr en þarna og líklega sömu sögu að segja af hinum, hvað þá heldur að við ættum að halda á þessu með fingrunum.

Svo leið tíminn og alltaf söfnuðu þessar elskur í sjóð til þess að bjóða konunum sínum út að borða, einu sinni á ári.  Við konurnar skiptumst hins vegar á að hafa fyrir þá veislukaffi í hverjum spilaklúbb.

Eftir að þeir luku hver af öðrum sínu námi og fóru að vinna, þá fór nú að safnast meira í sjóðinn og eftir að borða í einhver ár hérna heima á Sögu, Holti og fleiri stöðum kom að því að geta farið saman til London þar sem við borðuðum  m.a. á Beefeater of London og fórum í leikhús, þar sem við sáum Evitu, Cats og fleiri leikrit. Þetta var alveg dásamlegur tími. Því miður var Englandsferð síðasta ferðin sem Oddur náði að vera með í, því hann veiktist nokkru síðar.

Hinsvegar buðu þessir yndislegu traustu vinir í spilaklúbbnum mér tvisvar í slíkar ferðir til útlanda, en það var þegar  Oddur var orðinn þannig, að vitað var að hann myndi aldrei koma aftur í spilaklúbbinn. Önnur ferðin sem mér var boðið í var til Amsterdam og sú seinni til Hamborgar.  Þetta var svo höfðinglega gert af þeim og aldrei fékk ég að taka upp budduna til að borga fyrir mig.
Ég er þeim ævinlega þakklát fyrir rausnina og hugulsemina að gefa mér tækifæri til þess að gleyma erfiðleikunum og lyfta mér upp með  þessum sönnu vinum og eiga með þeim góða daga – Þetta var  nefnilega svo góður hópur sem kunni að skemmta sér saman og aldrei bar skugga á vinskapinn í þessum hópi og hefur örugglega ekki gert enn þann dag í dag – enn er sama góða fólkið og ég fór með í utanlandsferðirnar forðum.

Þetta er nú að hluta til það sem mér lá á hjarta þessa stundina – Reyndar eins og oft áður hafa minningarnar látið mig skrifa mun meira og í raun allt annað en mér datt fyrst í hug, en þannig eru bara minningar, það rekur hver aðra.

 

 

Posted in Hugleiðingar mínar, Ýmislegt | 2 Comments

Að koma sér í rúmið á tækniöld.

Já, það ætti nú að vera einfalt mál að koma sér í rúmið er nóttin nálgast. Goie_pngemsinn minn minnir mig á það klukkutíma fyrir svefn að taka þetta blessað Magnesium Citrate . Svolítið seinna finnst mér gott að fá mér svona bangsate og nota síðan tímann til þess að þvo mér, koma mér í náttfötin, pústa, bursta tennur, og smyrja nýja Niveakreminu á andlitið, Voltarenkreminu á hálsliðina og Lavenderolíunni á handleggina og auðvitað pissa, svona eins og lög gera ráð fyrir og vera búin að láta hitateppið ylja upp rúmið þegar ég skríð uppí. Yfirleitt er þetta allt í réttri röð og alveg dásamlega notalegt.

Þá upphefst athöfnin við að koma sjálfri mér og Ipadinum fyrir til þess að lesa,  en það

oie_jpg (1)er bara heilmikið mál. Fyrst leggst ég á upphitað undirlagið og hækka aðeins höfðagaflinn. Síðan set ég púða ofaná bringuna á mér, á púðann set ég svo Ipadinn minn upp á rönd.  Svo kemur trikkið, því nú set ég sængina ofaná mig svo brúnin nemi rétt yfir Ipadinn á púðanum svo hann haldist fastur í lesstöðu. Þetta fann ég út þegar ég fór að vera slæm í hálsliðum og handleggjum og gat ekki haldið á bók uppi í rúmi. Nú get ég látið handleggina liggja á hitateppinu og lyfti bara öðrum í einu til þess að smella á nýja síðu.  Þessi nýja tækni er alveg frábær 🙂

Já alveg frábært þegar allt skipulagið gengur upp, þ.e.a.s. þegar ég fer í rúmið og er búin að tékka á því að síminn sé á náttborðinu stilltur á hringingu næsta dag, búin að setja vatn í bolla á náttborðið, búin að bera Voltarenkremið aftan á hálsinn á mér og slakandi Lavenderolíuna á handleggina. Leggja svo eftir lesturinn Ipadinn varlega á náttborðið, setja eyrnatappa í eyrun, loka augunum alveg afslöppuð og bíð augnablik eftir að Óll Lokbrá komi með draumana.

Því miður gengur þetta nú ekki alltaf fyrir sig á þennan hátt.
Stundum er ég nefnilega búin að gera mig klára í rúmið, eða tel það a.m.k. þegar ég tek fyrst eftir því að ég hef gleymt að kveikja á hitateppinu og kveiki á því. Síðan átta ég mig á því þegar ég er að leggjast út af,  að Ipadinn sem geymir bókina sem ég er að lesa er líklega frammi í eldhúsi. Ég sprett af stað og finn hann. Ég kem mér síðan vel fyrir í rúminu aftur eftir tilheyrandi  tilfæringar og byrja að lesa.
Síðan ætla ég að fá mér smá vatnssopa og tek þá eftir því að það er enginn bolli á náttborðinu 🙁  Ég rýk þá upp úr rúminu, legg Ipadinn svolítið harkalega aftur á náttborðið, fer fram í eldhús, set vatn í bolla og fer inn aftur með bollan  Ég sé sem betur fer í leiðinni að Gemsinn er ekki á náttborðinu og ég sæki hann. Síðan kem ég öllum tilfæringunum með Ipadinn fyrir enn á ný og byrja að lesa. Eftir nokkrar mínútur fer ég að verða svo þreytt í hálsliðunum og man þá að ég gleymdi að bera á mig Voltarenkremið. Allt byrjar upp á nýtt og nú skelli ég Ipadinum pínulítið harkalega á náttborðið og segi líka eitthvað pínulítið ljótt og æði fram á bað og ber á mig þetta blessað krem, drekk svo aðeins meira af vatninu áður en ég leggst uppí aftur og reyni að slaka á við lesturinn eftir að koma mér vel fyrir.

Loksins næ ég að slappa af og er farið að líða vel á hitateppinu mínu. Nú hef ég líklega náð að lesa í einar í tíu mínútur þegar ég uppgötva ég að ég hef of oft teygt mig í bollan með vatninu. Nú þarf ég sem sé enn einu sinni að byrja upp á nýtt og fara framúr. Í þetta skiptið til að pissa – Fjárans vatnsdrykkjan alltaf.  Ég svipti af mér sænginni með formælingum sem alls ekki eiga við fyrir svefninn, hendi burtu koddanum af bringunni á mér og Ipadinum er nú skellt mjög harkalega á náttborðið.  Ég æði fram á bað og lýk erindinu og eins gott að ég mundi í leiðinni eftir því að bera á mig Lavenderolíuna sem ég hafði gleymt að bera á mig. Ég dríf mig svo inn, læt mér ekki einu sinni detta það í hug að byrja á byrjunarreit við að reyna að lesa, athuga hvort Mp3 vasaútvarpið sé ekki örugglega á sínum stað ef ég vaki eitthvað yfir nóttina, slekk ljósið og hlassa mér í rúmið, breiði upp fyrir haus og styn hátt af vorkunnsemi við sjálfa mig. Ég tauta eitthvað misfagurt, treð eyrnatöppum í eyrun og skil svo ekkert í því að ég næ ekki með nokkru móti að slappa af og sofna.
–  Já, svo furða ég mig á því næsta morgun að svefninn hafi verði svona skrikkjóttur. – Sem betur fer gerist þetta ekki oft, en það gerist þó stundum, allt eða eitthvað af þessu.

Ekki veit ég hvort svona rugl fylgir því að eldast, eða hvort tæknin er farin að rugla mann svona í ríminu. Þetta var svo miklu einfaldara hér áður fyrr með venjulegri vekjaraklukku og prentaðri bók í stað þess að vera með hitateppi, Gemsa, I-pad, MP3 spilara og hvað þetta heitir nú allt saman sem maður raðar í kringum sig.  Einhvers staðar las ég að maður ætti bara að leggjast til svefns í svefnherberginu loka augunum og sofa til næsta dags.  Humm – prufa það kannski í kvöld.

Posted in Ýmislegt | 3 Comments

Langt síðan síðast.

Já janúar mánuður hefur ætt áfram eins og óð fluga og sólin hækkar með hverjum deginum sem líður. Í dag var ég alveg ákveðin í því að það væri að byrja að vora, en líklega var það nú of mikil bjartsýni. Hins vegar eru það ekki neinar ýkjur að nú sést hvað hænufetunum fjölgar og við njótum birtu lengur með hverjum degi. Myndin hérna er þó  síðan á nýjársdag.
Það er allt að komast á rétt ról svona eftir jólastússið og mikið var ég fegin þegar við pökkuðum jólunum niður og settum út í bílskúr.  Eins og það er gaman á hverri aðventu að taka upp jóladótið þá er ég jafnglöð solarlag2014þegar það er komið aftur út í bílskúr. Mér finnst svo þröngt og erfitt að þrífa neitt á meðan allt þetta skraut er út um allt.  Kannski er það íhaldsemin sem veldur því – allt verður alltaf að fara á sinn gamla stað. Ég fæ líka alltaf athugasemdir ef eitthvað vantar, eins og  „Amma, hvar er jólasveinninn sem hefur alltaf setið á þessari hillu. – Hérna á endanum?“  Já svona gengur þetta nú fyrir sig.
——————–
Við höfum veri með góðan félagsskap í janúar því Hulla dóttir Hauks kom í byrjun janúar frá Danmörku og gisti hérna fyrstu næturnar og síðan kom Eva og var hjá okkur, en fór heim til Glasgow eldsnemma í morgun. Ég komst bara að því áðan, að ég er alveg hætt að standa mig sem Paparazzi og á bara örfar janúarmyndir.

2014_2Ég hélt endilega að ég hefði tekið myd um síðustu helgi þegar dætur Hauks komu þrjár í mat til okkar, en enga slíka fann ég í safninu. Þessi er hins vegar tekin núna á laugardagskvöldið af þeim Hullu og Evu með pabba sínum, en þá var Borghildur ekki.
Ég hef lengi verið að vandræðast með að setja á einfaldan hátt  myndir svona  inn í texta hjá mér, en Eva var svo elskuleg að sýna mér nýtt myndaforrit sem er svo miklu þægilegra en það sem ég hef notað. Tilefni þessarar færslu var ekki af því að ég hefði neitt í huga til þess að skrifa um, enda ber textinn þess merki, heldur vildi ég prufa þetta myndaforrit áður en ég gleymdi því alveg hvernig ætti að nota það og ég held bara að þetta hafi alveg tekist hjá mér 🙂
—————-
„Regndropi sem kitlar mig þegar hann rennur niður með nefinu gerir mér glatt í geði“ segir bókin mín góða og ég hlakka til þegar það kemur ausandi rigning og klakinn fer af götum og stígum, en það veit Guð að ég er ekki að biðja um meira regn en bara til þess að þjóna þessari ósk minni – Svo má sólin skína.
Lifið heil þar til næst.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Áramótakveðjan mín.

(Því miður birtist ekki myndin sem þessi texti átti að vera á – einhver villa í kerfinu sem vill ekki birta þetta fyrir mig. Gengur vonandi betur á næsta ári. )

Ég óska ykkur góðrar heilsu, gleði og hamingju
á komandi ári.
Þakka ykkur fyrir trygglyndi,vináttu og góða
samveru á þessu ári og öllum hinum góðu árunum.
Horfum bjartsýn til ársins 2014 og gerum okkar
besta til þess að það verði gott ár.
Hjartans kveðja til ykkar allra
Ragna

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

Svo lánsöm í lífinu þó ….

Eins og alltaf og ekki síst á þessum tíma árs þá lít ég yfir farinn veg og þakka fyrir líf mitt. Þakka fyrir þá sem mér þykir vænt um og fyrir það að geta alltaf deilt gleði minni og sorgum með þeim. Ég er þakklát fyrir það að eiga yndislega fjölskyldu og fá að sjá barnabörnin vaxa og þroskast í leik og námi og sjá hvaða eiginleikum þau eru gædd. Já bara svo óendanlega þakklát fyrir allt. Já, ég fæ svo oft þessa tilfinningu, ekki bara þegar nálgast áramót

Ég viðurkenni að ég hef velt því fyrir mér hvers vegna ég sé svona þakklát. Það er nefnilega ekki hægt að segja að lífið hafi eingöngu farið um mig mjúkum höndum og stundum hef ég þurft að hafa mig alla við til að komast í gegnum það blessað. Hvers vegna þá að vera svona þakklát? Er ástæða til þess að þakka fyrir þá erfiðleika sem maður hefur þurft að upplifa?

Vitanlega ber að þakka fyrir hvern dag, líka fyrir erfiða daga því hver dagur að kvöldi kominn er sigur.  Það er nefnilega ekki síst í sorg, erfiðleikum og veikindum, sem við þurfum að finna okkar innri styrk og nota hann til þess að takast á við það sem að höndum ber.  Það er mikið þakkarefni þegar okkur tekst það, því það þroskar okkur sem persónur.

Að mínu mati eru alltaf tveir kostir í boði.  Annars vegar að leyfa sér að sogast niður með erfiðleikunum, en hinn að standa uppúr og láta þá efla sig og styrkja.

Já, fyrri kosturinn felst í því að ákveða í upphafi að staðan sé vonlaus og það sé tilgangslaust að sætta sig við orðinn hlut eða yfirleitt að reyna að berjast á móti. Ef slíkur kostur er valinn, eru mestar líkur á að dragast niður með erfiðleikunum og enda svo niðurbrotinn eða jafnvel í óreglu fullur sjálfsvorkunnar.

Seinni kosturinn er að ákveða í upphafi að ætla sér að standa uppúr og berjast, finna okkar eiginn styrk og sýna hvað í okkur býr.  Við breytum ekki staðreyndum, en við getum lært að sætta okkur við þær. Við getum engu breytt nema okkar eigin viðhorfi.  Erfiðleikar geta kengbeygt okkur, en það er okkar að berjast áfram og virkja okkar eigin mátt og láta ekki brjóta okkur niður. Við vinnum ekki sigur ef við tökum ekki þátt í baráttunni – svo einfalt er það.

Ég hef aldrei tekið lífinu sem sjálfsögðum hlut þar sem allt eigi að vera í stakasta lagi og bara gaman endalaust og allt það slæma hljóti bara að koma fyrir aðra.  Það er ekki rétt sýn á lífið, sem er allt í bland, gleði, hamingja og erfiðleikar.  Við getum ekki ætlast til þess að okkar líf sé eingöngu dans á rósum á meðan hvers kyns erfiðleikar, veikindi og slys komi bara fyrir hjá öllum hinum –  Berjumst til sigurs hvern dag og þökkum að kvöldi.
————————

 

Posted in Ýmislegt | 6 Comments

Jolakvedjan2013

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Þorláksmessa

Í dag er Þorláksmessa og árlega þennan dag minnist föðurfjölskylda dætranna minna fæðingardags tengdamömmu, sem var fædd á Þorláksmessu. Það er ljúft að minnast hennar tengdamóður minnar sem mér þótti frá því ég hitti hana fyrst ákaflega vænt um og mat hana mikils.

Ég ætla að setja hérna úrdrátt úr eldri færslu sem enn á við þennan dag og Lofti og Dröfn þakka ég af öllu mínu hjarta fyrir þann myndarskap og stórhug, að taka alla fjölskylduna í skötuveislu og saltfisk og síðan kaffiboð, hverja einustu Þorláksmessu. Fjölskyldan er líklega komin yfir fertugasta tuginn þegar makar eru meðtaldir og stöðugt bætist við ungviðið. Það væri ekki hægt að minnast hennar tengdamömmu á myndarlegri hátt. Blessuð sé minning hennar og hvíli hun í friði á Rangárvöllunum sínum.

… “ Það var alltaf  svo gaman  þegar fjölskyldan hittist í afmælinu hennar á Þorláksmessu. Í gamla daga var hún með kaffi  og kökur en hún fylgdist vel með tímanum og tískustraumum og þegar það komst í tísku að vera með skötu á Þorláksmessu,  þá  breytti mín snarlega yfir í það og bauð  fjölskyldunni í skötu á afmælinu sínu á meðan hún hafði heilsu til.
Nú fagnar hún tengdamamma blessunin ekki lengur með okkur  afmælisdeginum sínum  þannig að við sjáum hana,  en ég er viss um að hún er ekki  fjarri gleðskapnum þegar fjölskyldan hittist á hverri Þorláksmessu.  Loftur mágur minn og  Dröfn kona hans halda nefnilega við þessum skemmtilega sið  og af miklum rausnarskap  bjóða þau öllum afkomendum tengdamömmu og fylgifiskum í skötu og saltfisk á Þorlák. Þannig  minnumst við ömmu Böggu, eins og hún hefur verið kölluð síðan hún varð fyrst amma“

 

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

Komið á óvart.

Við hjónaleysin erum aldeilis búin að njóta aðventunnar.  Tvennir tónleikar að baki. Þeir fyrri voru jólatónleikar hjá Fóstbræðrum í Gamla bíói – Mér fannst þeir kannski ekki alveg nógu jólalegir og saknaði þess að heyra ekki meira af íslenskum jólalögum en að öðru leyti voru þeir mjög góðir.  Svo var það rúsínan í pylsuendanum í gær.

Ég var nýkomin fram í gærmorgun þegar síminn hringdi og í ljós kom að Hulla dóttir Hauks í Danmörku var á hinum endanum og spurði hvort við værum nokkuð upptekin klukkan hálf fimm „i dag“.  Ég fór í huganum yfir það sem ég hafði skipulagt að gera og flýtti mér svo að segja „Nei, nei það held ég ekki“. – Þá sagði Hulla “ Það er fínt, eruð þið þá ekki til í að fara á tónleika með Frostrósum klukkan hálf fimm í dag“.  Ég missti nú bara hökuna alveg niður á bringu, því ég hélt kannski að hún ætlaði að biðja okkur um að gera eitthvað smáviðvik fyrir sig.

Til þess að gera langa sögu stutta þá vorum við sem sé á leið á tónleika Frostrósa í Lugardalshöllinni . Vei!  Ég þurfti nú auðvitað ekki meira til og snerist í marga hringi til þess að ná áttum 🙂   Ég talaði svo við Guðbjörgu og sagði henni hvað stæði til. Nokkru seinna hringdi Guðbjörg svo aftur og spurði hvort ég héldi að Sigurrós væri með aukalykil hjá mér, það mundi ég ekkert, en spurði hvers vegna hún þyrfti að komast inn hjá mér. – Jú hún þurfti að fá að fela jólagjöf, en væri ekki með bílinn fyrr en klukkan fimm svo það væri gott að hafa lykil. Ég spurði hvort við gætum ekki tekið þetta í bílinn þegar við færum, en hún sagði að þetta yrði örugglega í lagi og við kvöddumst.

Við nutum svo þessara frábæru tónleika og komumst í hvílíkt jólaskap – annað væri bara ekki hægt.
Þegar við vorum á leiðinni heim þá kveikti ég á símanum og sá að Guðbjörg hafði hringt. Þegar ég kom síðan heim undraðist ég að það var svo góður hreingerningarilmur þegar ég kom inn. Mér fannst það skrýtið því ég hafði ætlað að klára að þrífa í gær, en ekki komið því í verk. Ég fór svo bara beint inn og kveikti á tölvunni því ég ætlaði að Googla smávegis áður en ég gleymdi því. Tölvan opnaði sig á Facebook  og þar blasti við mér færsla frá Guðbjörgu þar sem hún spyr mig hvort ég hafi nokkuð rekist á Jólasleiki, eða tekið eftir því að hann hafi komið við hjá mér.
Nú var komin skýring á þessu með lyklana og jólagjöfina sem þurfti að fela. Jólasleikir hafði sem sagt þurft að komast inn hjá mér og var búinn að þurrka af öllu og strjúka úr gluggum og hillum – allt þetta bjástur sem mér finnst svo erfittt að teygja mig og beygja við að gera. Nú var allt glansandi út úr dyrum.

Það mætti halda að þær hefðu staðið saman í þessu Hulla og Guðbjörg því þetta heppnaðist svo fullkomlega. Dásamlegir tónleikar og dásamlegt að koma heim og þurfa ekki að hugsa um að eiga eftir að gera nein húsverk.

Ég sendi risaknús til Hullu og Eika í Bovrup og segi TAKK fyrir dásamlegu tónleikana. Svo sendi ég Jólasleiki í Ásakórnum risaknús og segi TAKK fyrir að sleikja allt svona fínt hjá mé

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Aðventustund í leikskólanum.

Þegar við förum í Gullsmárann annan hvern föstudag til þess að syngja með öðrum „gamlingjum“ við gítarundirleik og harmonikuspil, þá koma börnin úr Leikskólanum Arnarsmára alltaf í heimsókn og hlusta fyrst en taka svo lagið fyrir okkur.  Í morgun var okkur hinsvegar boðið í aðventustund hjá þeim í leikskólanum. Þar sem Freyjuskottið okkar er nú á þessum leikskóla kom ekki annað til greina hjá mér, en að mæta þar klukkan níu í morgun.

Ég lét það ekki breyta ákvörðun minni að ég var glaðvakandi í nótt frá því fyrir klukkan fjögur. Ég var enn að hlusta á vasaútvarpið mitt þegar ég sá að klukkuna vantaði korter í sjö og ákvað þá að bíða bara eftir sjöfréttunum og fara svo á fætur. Aha 🙂 Ég hef hinsvegar steinsofnað eftir þessa ákvörðun, og hentist síðan upp við klukkuna rétt fyrir átta þegar ég var beinlínis rifin burtu úr draumheimum þar sem ég stóð í ströngu að redda einhverju. Fyrsta hugsun var að stoppa klukkuna í símanum, hætta við að fara, sofna aftur og klára þessa reddingu sem ég var að fást við í draumheimum, því maður stekkur ekki frá því sem maður er að gera. Þá hnippti samviskan í mig og hreinlega skipaði mér að hætta þessum aumingjaskap og drífa mig á fætur. Af hverju að sleppa svona tækifæri sem bara stæði til boða í dag, þegar ég gæti hvenær sem er sofið. Ég gat ekki komið að þeirri röksemd að ég hafi svo lítið sofið í nótt og þar að auki legði ég mig aldrei á daginn. Nei, það mátti bara engan tíma missa , – koma sér í leppana, setja á sig andlit og greiða smá yfir óklippta hárið sem bíður eftir að komast í snyrtingu, fá sér eitthvað smávegis í gogginn og bruna af stað.

Ég sá að það voru nokkuð margir bílar fyrir utan og hálf kveið fyrir að koma svona ein á staðinn, en ég reyndist síðan vera fyrsta manneskjan til að mæta og gat því farið inn á Grallaradeildina og heilsað aðeins up á Freyju mína sem varð mjög undrandi að sjá ömmu allt í einu fyrir framan sig þar sem hún sat og spilaði við vini sína. Nokkru síðar sá ég hjón koma inn og loks stakan mann. Þetta voru nú allir gestirnir sem mættu. Það hefur líklega eitthvað spilað inní hvað það var langt síðan við fengum boðið og hvað það var hált í morgun því það hefur alltaf verið mjög vel mætt í þetta aðventuboð sem hefur verið haldið síðan 2002.

Eftir fallega sönginn hjá börnunum og búið var að kveikja á aðventukerti númer tvö, var okkur boðið upp á kaffi, kakó, kleinur og piparkökur og við sátum þarna í góðum félagsskap fóstranna og spjölluðum um heima og geyma, en börnin fóru inn á sínar deildir að leika sér, spila og föndra.

Ég þakka bara kærlega fyrir mig og eitt er víst að ég mæti aftur að ári. Hér eru börnin að syngja. Freyja sést ekki á myndinni nema rétt á ljósa kollinn hennar vinstra megin á myndinni þar sem fóstrurnar sitja.

Mynd0459

 

Posted in Ýmislegt | 2 Comments