Dagur þrjú.

Ég var hálf pirruð í nótt – eða eigum við að segja ferlega pirruð því útvarpsvekjaraklukka sem var hérna á náttborðinu hjá mér tók upp á því að senda út eitthvert urg sem kom í tvígang og hætti svo, kom svo aftur eftir einn eða tvo klukkutíma, nóg til þess að ég var yfirleitt nýsofnuð aftur þegar allt byrjaði upp á nýtt. Á endanum , einhverntíman undir morgun sleit ég fjárans tækið úr sambandi og ætla sko ekki að hafa það í sambandi oftar yfir nótt.  Ekki veit ég hvort þetta er liður í meðferðinni en ef svo er,  þá ætla ég sem sé að svindla á því . 

Ég fór á fætur um sjö og fór í kaldar bunur klukkan tuttugu mínútur fyrir átta. Við vorum samferða hún stalla mín í næsta herbergi og ég, hvorug hafði hugmynd um hvað biði okkar með köldum bunum.  Þegar við komum á staðinn var komin þar biðröð, allir með buxurnar brettar upp á læri svo við gerðum eins og biðum í okkar röð.  Þegar ég hafði þokast með röðinni inn eftir ganginum var loks komið að mér og fór ég þá inn í skotið sem ég hafði séð hina fara inn í. Þar sat maður klæddur gúmmístígvélum með garðslöngu í hendinni. Ég varð að passa mig að fara ekki bara að skellihlæja því mér fannst allt fyndið við þessa halarófu með uppbrettar buxur, sem smá þokaðist að þessu skoti og síðan þessi með slönguna. Maðurinn sagði að ég ætti fyrst að snúa að sér og síðan bunaði hann ísköldu vatni úr slöngunni upp leggina á mér hvað eftir annað, alveg upp á hné, síðan átti ég að snúa mér upp að vegg og  þá var komið að því að sprauta aftan á með sama hætti nokkrum sinnum. Það var mjög skrýtið að fá þessa köldu bunu í hnésbæturnar og svo var endað á að sprauta neðan á iljarnar. Þar sem ég hafði ekki heyrt neinn af gamlingjunum sem voru á undan mér emja þá beit ég bara á jaxlinn og emjaði ekki heldur, en mikið rosalega fannst mér þetta vont og mig verkjaði alveg svakalega í fæturna á meðan á þessu stóð. En nokkru eftir að þetta var búið og maður var orðinn þurr á fótunum aftur, þá kom þessi yndislega hitatilfinning sem lét mér líða svo vel.  Þetta á að vera svo gott fyrir blóðrásina svo líklega mæti ég þarna framvegis upp úr sjö og læt pína mig í skamma stund til að fá svona góða líðan á eftir. 

 

Ég rétt náði að skreppa í morgunmatinn áður en ég fór yfir í fyrsta tímann í sjúkraþjálfunina. Ég rétt náði svo þaðan í nálastungurnar til doktor Ho. Já nú fær maður þetta bara orginal með kínverja.   Hvílíkt dekur.

Göngutúrinn klukkan ellefu var svo á sínum stað þrátt fyrir slyddubyl og það mátti sjá í matsalnum hvernir fóru í gönguna og hverjir ekki. Jú, það sást á eplakinnunum.

Í dag var ekki fleira á dagskránni nema að ég skellti mér í heitu pottana og fékk mér sm,á nudd.

 

En það gerðist svolítið skemmtilegt í kaffitímanum. Það settist við borðið hjá mér kona sem ég hef aðeins lauslega talað við á göngunum.  Ég spurði hvaðan hún kæmi og sagðist hún þá koma frá Akranesi.  Ég sagðist eiga frænku þar. Eins og gengur í svona samtölum þá spurði hún hvað frænkan héti. Jú, ég sagði að hún héti Oddný Valgeirsdóttir. “Já Oddný, við vinnum saman. Þekkir þú þá frænku hennar á Selfossi sem heitir Edda?” Já ég hélt það nú, það væri systir mín. Konan sagði þá að Edda hefði verið í sveit hjá foreldrum sínum í mörg ár. Ég spurði þá hvort hún héti Sigurlaug og væri frá Hvammi. Jú hún hélt nú það.   – Er þetta ekki týpískt fyrir okkar ástkæra Ísland þar sem allir þekkjast eða eru tengdir á einhvern hátt.  Ég hef aldrei á ævi minni hitt þessa konu en bara heyrt um hana talað.

 

Ég læt þetta duga fyrir daginn í dag þar sem ekkert er eftir nema letikvöld í kvöld. Ætli ég haldi ekki aðeins áfram að segja frá, svona næstu daga meðan nýjabrumið er ennþá ekki farið af og rútínan farin að endurtaka sig.

Kær kveðja til ykkar allra, bæði þeirra sem kvitta fyrir í orðabelginn og hinna þöglu. 


Comments

7 responses to “Dagur þrjú.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *