Við ætluðum að hittast þrjár vinkonurnar, undirrituð, Birgit og Ingunn Ragnars. Það var ákveðið að við hittumst í Grasagarðinum. Um hálf tíu í morgun fékk ég svo SMS frá Ingunni sem sagðist vera strandaglópur í flugvél á Kastrup flugvelli. Við Birgit ákváðum samt að hittast. Það var yndislegt að sitja fyrir utan veitingahúsið í Grasagarðinum í logni og sólskini í þessu líka fallega umhverfi og borða fína franska fiskisúpu. Ég verð samt að játa að skálarnar hefðu mátt vera stærri, en þær voru nær því að vera á stærð við desertskálar en súpuskálar, kannski var það bara af því súpan var góð að maður hefði getað borðað meira. Birgit bauð mér svo að koma vestur á nes til hennar og fá okkur kaffisopa þar.
Við vorum á sitt hvorum bíl og ég ákvað að dóla niður Laugaveginn og í gegnum miðbæinn. Ég veit ekki hvað er eiginlega langt síðan ég hef farið niður Laugaveginn. Ég sá allavega bæði ný hús og nýjar búðir. Nú er TÍSKUVAL flutt upp á Laugaveg og er nú hinu megin á götunni. Erindi Ingunnar til Kaupmannahafnar var einmitt að kaupa inn fyrir nýju búðina.
Mér fannst gaman að sjá götuljósin neðst í Bankastrætinu en í stað þessara hefðbundnu eru komnir rauðir túlipanar. Fróðlegt að sjá í myrkri hvernig lýsing er af þeim, sjálfsagt eitthvað rómó.
Það var líka gaman að aka fram hjá tjörninni, alltaf mikið fuglalíf þar.
Það rifjaðist upp fyrir mér hvað það voru mikil mótmæli á sínum tíma gegn byggingu ráðhússins, en hún var talin eiga að drepa allt lífríkið á tjörninni og vera hvílík sjónmengun. Sama fólk var á móti byggingu Álversins í Straumsvík, en mengunin af því átti að eyða bæði gróðri og öðru lífi alveg niður í Hafnarfjörð ef ég man rétt. Nú eru gróðursettar plöntur meðfram öllu Álverinu sem hefur þó stækkað margfalt síðan það var upphaflega byggt. Það er alla vega ekki sjáanleg nokkur gróðureyðing þar nema síður sé.
Ég hef grun um að það sé síðan þetta sama fólk sem er á móti Kárahnjúkavirkjuninni, Álverinu í Reyðarfirði og fjölmiðlalögunum.
Mikið held ég að það sé nú leiðinlegt að vera alltaf á svona neikvæðum nótum og hreinlega lifa fyrir það að vera á móti, sama hvert tilefnið er. Einhverntíman hefði þetta fólk nú verið kallað nöldrarar. Ég vil alla vega leyfa mér að kalla það því nafni. Svo er það búið að stofna samtök sem hefur það að markmiði að hittast og mótmæla.
Hvað varðar Kárahnjúkavirkjunina þá skil ég vissulega ást fólksins á þessu fallega landi, sem nú hefur verið umbylt. Auðvitað elskum við öll hvern þumlung af fallega landinu okkar, en verðum við ekki stundum að vera raunsæ. Værum við ekki ennþá í torfkofunum með kolurnar til að lýsa okkur ef ekki hefði verið ráðist í virkjanir. Það er alveg sama hvaða stað hefur átt að virkja, sá staður er alltaf talinn of fallegur til að hrófla við honum. Við eigum bara svo fallegt land að það er erfitt að finna svæði sem öllum er sama um. Ég held við verðum sætta okkur við að við getum ekki bæði haft nægilegt rafmagn og algjörlega ósnortið land. Því miður er það svo að annað verður að víkja fyrir hinu. Þeim er svo sannarlega vandi á höndum og þeir ekki öfundsverðir, sem þurfa að velja land til virkjana því þeim sem það þurfa að gera þykir örugglega eins vænt um landið okkar og okkur hinum.
Ég nenni nú varla að tjá mig um Álverið í Reyðarfirði, sem hreinlega bjargar því að þessi þorp á Austfjörðum fari ekki öll í eyði. Ég var samt að spá í mótmælendahópinn sem þar var mættur á sama tíma og heimamenn fögnuðu upphafi framkvæmda og því að sjá nú fram á að vonir þeirra um næga atvinnu væru á góðri leið með að rætast. Mér meira en datt það í hug að þessi hópur væri hluti af nöldraragenginu sem aðallega heldur til og er mjög sjáanlegt þessa dagana hér sunnan heiða.
Það stóð nú svo sannarlega ekki til að fara út í svona pælingar og þegar ég les þetta yfir þá finnst mér ég orðinn hálfgerður nöldrari líka að vera að nöldra svona yfir hinum nöldrurunum en þetta kom upp í hugann þegar ég ók framhjá tjörninni í morgun.
Ég stoppaði svo góða stund hjá Birgit og fékk gott kaffi og svakalega fínt konfekt sem henni hafði verið gefið.
Ég skrapp svo í Fossvogskirkjugarðinn og leit aðeins til með leiði foreldra minna og síðan lá leiðin aftur heim í Sóltúnið.
Ég sló blettinn og þegar ég var komin inn aftur þá lak ég niður í stól til að horfa á restina af fréttunum og kastljósið. Ég sá nú byrjunina en áttaði mig svo á því klukkutíma seinna að ég var bara búin að steinsofa í stólnum.
Já, svona er nú lífið hjá mér í dag.
Leave a Reply