Hér er ég, dagur 6.

Fréttir dagsins.
Loksins, Loksins komst ég inn á netið – þessir pungar virka nefnilega ekki alltaf eins og þeir ættu að gera 🙂  En með hjálp Símans gekk þetta nú fyrir rest þegar ég hafði heilsu til að tala við þá.
Ég komst hérna inn á sjúkrahótelið um miðjan dag í gær og hafði það sannast sagna verulega skítt alveg fram á nótt, ógleðin og sviminn mjög  að angra mig – samt fann ég að ég var komin í góðar hendur og var svo ánægð með það. Mér hafði verið ráðlagt niðri á LSH í gær að breyta lyfjunum, en það hefur líklega orðið til þess að í dag er konan búin að greiða sér, komin með varalit og  maskara, en það eru ótvíræð merki þess að hún sé að komast í betra lag.

Já, verkja og bólgueyðandi lyfin sem ég átti að taka fóru svona illa í mig.

Ég vil alls ekki vera vanþakklát, því það er auðvita ekki hægt að hlaupa eftir kröfum og dyntum hvers og eins í mataræði á svona stað, en mér finnst alveg vanta grænmeti og ávexti á matartímunum og allt of margar brauðmáltíðir en kvöldmaturinn er alltaf brauð og súpa.  Ég gerði ég mér fulla grein fyrir því áður en ég fór í þetta ferli, en  Landspítalinn kom vel til móts við mig í þessu glutenlausa fæði – meira fór ég ekki fram á þar og  fékk ég alltaf grænmeti og ávexti með máltíðunum. Ég er hins vegar aðallega svo hissa á því að  hér skuli ekki vera lögð meiri áhersla á grænmeti og ávexti, eins og manneldisráð hefur mælt með að fólk almennt borði hvort sem fólk er á einhverju sérfæði eða ekki.

– Í þessum töluðu orðum er best að fá sér þurrkaðar lífrænar apríkósur, bláber og vínber sem mér hefur verið fært 🙂  Já það er gott að eiga góða að.

Næsta vers er að losna við drenin, en ef það minnkar ekki meira í þeim af sjálfu sér, þá verða þau tekin á þriðjudag og líkaminn verður þá sjálfur að vinna á restinni. Bíð þó vongóð eftir að það fari að minnka í þeim.

Ég er búin að vera að smá fara hérna inná og setja þetta inn í dag á meðan aðrir hafa horft á fótbolta í sjónvarpinu. Nú loka ég hins vegar dagbókinni svo ég fari ekki að villast aftur út um víðan völl.

Njótið helgarinnar kæru vinir og þakka ykkur fyrir þolinmæðina og allar góðu kveðjurnar ykkar.


Comments

4 responses to “Hér er ég, dagur 6.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *