Eftir alla sólina og hitann var ágætt að fá smá vætu þó við hefðum alveg komist af með minna en þessi ósköp sem búið er að rigna. Það var samt ekki nema smástund sem gerði hvítt af hagléli hérna á miðvikudaginn, minna en margir aðrir máttu þola eftir því sem fregnir herma.
Ég er búin að ætla í lengri tíma að baka kleinur en veðrið var bara alltaf of gott til þess að standa inni yfir því. Í rigningunni í morgun var hins vegar engin afsökun tiltæk svo ég byrjaði daginn á því að baka kleinurnar og þrífa fyrir helgina. Veðrið lék við mig og ég naut þess að vera inni í rigningunni, hlusta á útvarpið og baka kleinurnar og hugsa um það sem gerðist á þessum degi fyrir 40 árum.
Það passaði svo, að þegar þessu var lokið var sólin komin aftur svo ég hefði ekki mátt seinni vera. Nú get ég aftur farið að njóta góða veðursins – með góðri samvisku- og sest út með kaffibolla og kleinur.
——————
Já, dagurinn í dag er mér sérstakur því fyrir 40 árum gengum við Oddur heitinn í hjónaband, hann tvítugur og ég átján ára. Það þætti nú nokkuð ungt í dag en á þessum tíma var það alvanalegt að svo ungt fólk væri gefið saman í hjónaband. Jafnvel eins og í okkar tilviki þar sem ekki var neitt barn á leiðinni eins og stundum var nú tilefnið.
Við vorum búin að vera saman í á þriðja ár og vorum farin að búa svo okkur fannst tími til þess kominn að staðfesta samband okkar. Við höfðum frétt að Framsóknarfélagið væri að fara í mjög ódýra ferð til Kaupmannahafnar með leiguflugi og það væru ennþá laus sæti.
Þar sem við vorum bæði sammála um að sleppa veisluhödlum þegar við giftum okkur þá fengum við þá hugmynd að gifta okkur að viðstöddum foreldrum og systkinum og skella okkur síðan í brúðkaupsferðina. Ég gleymi ekki þögninni sem kom þegar ég hringdi í móður mína og tilkynnti henni með þriggja daga fyrirvara hvað við hefðum fengið frábæra hugmynd. Henni fannst þetta ekki eins frábær hugmynd og okkur og enginn fyrirvari. Hún hefur líklega verið farin að sjá fyrir sér yngstu dótturina ganga upp að altarinu með meiri viðhöfn. En okkur var ekki þokað, svona vildum við hafa þetta. Við áttum hvorugt efnaða foreldra, en í þá daga sáu foreldrar alfarið um veisluhöldin og við vildum hvorugt að foreldrar okkar færu að leggja hart að sér til þess að sjá um einhver mikil veisluhöld. Tengdamamma saumaði í hvelli á mig fallegan hvítan kjól og Oddur leigði smóking.
Séra Árelíus, sem hafði fermt okkur bæði, framkvæmdi hjónavígsluna sem var mjög látlaus en falleg. Eftir athöfnina borðuðum við í Grillinu á Hótel Sögu og síðan fórum við í rútuna sem ók okkur til Keflavíkur.
Við vorum komin í flugstöðina um klukkan tvö eftir hádegi full tilhlökkunar. Hópurinn var “tékkaður” inn og sagt að það gæti orðið smá seinkun. Þessi seinkun varð svo alltaf lengri og lengri, því skrapatólið frá danska flugfélaginu, sem átti að flytja okkur í brúðkaupsreisuna hafði bilað einhversstaðar og beðið var eftir að vélin kæmi viðgerð hingað til lands. Sú bið stóð hinsvegar lengur en nokkurn hafði órað því við gengum um borð í flugvélina klukkan rúmlega sex næsta morgun.
Brúðkaupsnóttinni eyddum við sem sé í gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli þar sem nokkrir stólar stóðu upp við vegg og fólk varð að skiptast á að sitja því það voru ekki stólar nema fyrir brot af fólkinu. Það var ekki inni í myndinni að nokkur fengi að fara í bæinn og bíða þar því það var jú búið að tékka sig inn.
Þessi brúðkaupsferð varð samt mjög skemmtileg og við eignuðumst í þessari vikuferð mjög góða vini sem við héldum áfram sambandi við. Og hjónabandið var gott þangað til dauðinn skildi okkur að.
Ég hugsa stundum um þennan liðna tíma þegar ég dett í það að horfa á Brúðkaupsþáttinn á Skjá einum og þeirri spurningu skýtur upp í kollinn á mér hvort þessi mikli íburður og tilstand styrki innviði hjónabandsins og láti það endast?-
Fyrstu jólin sem við héldum sjálf í litla leiguplássinu.
Leave a Reply