Smá uppfærsla á þriðja degi.

Þakka ykkur fyrir allar góðu kveðjurnar og Sigurrós mín þakka þér fyrir að setja inn póstana.
Skurðlæknirinn hann Kristján Skúli er nú ekki par hrifinn af því að ég fékk ekki inni á sjúkrahótelinu. Hann segir að meðferðin sé miðuð við að það séu tveir dagar á sjúkrahúsinu eftir aðgerð og svo beint á sjúkrahótelið í viku til 10 daga. Nú eru hins vegar svo fá pláss þar að ekkert er laust eða losnar neitt næstu daga. Við sem erum í þessari stöðu þurfum því að fara daglega á spítalann eða sjúkrahótelið til þess að láta losa úr drenunum og setja nýja poka, hvernig sem okkur líður þessa fyrstu daga. Í morgun var mér svo rosalega óglatt, með magapínu og  svima svo  ég hélt að ég kæmist ekki niður á spítala.  Eftir að borða slatta af suðusúkkulaði að ráði Hauks, þá losnaði ég nú við magapínuna, en sviminn og ógleðin gáfu sig ekki.  Líklega þoli ég ekki tvö af lyfjunum sem ég átti að taka, annað er morfínskylt lyf og svo sterkt Ibufen. Því var skipt út fyrir annað svo ég er búin að vera heldur hressari seinni partinn í dag, eftir að ég kom heim af göngudeildinni þar sem ég fór í blóðprufur og fleira og lá á bekk í á þriðja  tíma í dag. Læknar og hjúkrunarfólk er allt alveg dásamlega gott og umhyggjusamt og hvað sem hver segir þá má bara alls ekki kenna því um að ástandið er svona. Ég segi enn og aftur að ég er undrandi á því að það skuli sætta sig við þessar aðstæður og skuli ekki vera allt farið úr landi.

Ég vona að ég vakni hressari á morgun og einnig að blóðþrýstingurinn hætti að vera í limbói ýmist upp eða niður.   Svona er nú ástandið hjá jákvæðu konunni í Salahverfinu – Hún hefur bara hreint ekkert verið gleiðbrosandi og jákvæð í gær eða í dag, hefur bara ekki haft orku til þess. En nú er hún farin að skrifa á tölvuna svo hún hlýtur að vera að hressast og þýðir ekkert lengur að vera með neitt væl eða víl.  Morgundagurinn verður sem sagt betri og ekki orð um það meir.

Góða nótt kæru vinir og vandamenn – þið hafið reynst mér alveg dásamlega vel með allar ykkar góðu kveðjur, bænir og óskir.


Comments

8 responses to “Smá uppfærsla á þriðja degi.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *