Sveiflukennt.

Síðasta fyrirsögn hjá mér var, að sumarið væri komið eins og óð fluga. En, það er nú með þessar blessuðu óðu flugur að þær koma og fara eins og þeim sýnist og svo reyndist líka um sumarið, en allt skilar þetta sér nú aftur.

Á sunnudaginn þegar við vorum að koma heim eftir skemmtilega og vel heppnaða ferð á "Kalla á Þakinu" var allt hvítt yfir að líta í Svínahrauninu. Hérna var þó ágætisveður en seinna um kvöldið gerði þó él. Snemma í morgun brá mér svo heldur betur í brún þegar ég sá að pallurinn hjá mér var hvítur. Af því ég var enn á náttfötunum þá datt mér nú í hug að mig væri bara að dreyma en þetta reyndist hinn mesti veruleiki. Eftir því sem á morguninn leið þá hlýnaði hinsvegar og þetta var farið upp úr miðjum morgni.

Ég skellti mér í langan göngutúr í morgun og nágranni minn sem var úti að leggja stétt fyrir annan nágranna okkar, hældi mér mikið, þegar ég kom aftur, rúmum tveimur klukkutímum seinna. fyrir dugnaðinn að hafa gengið svona langt. Ég var hinsvegar svo heiðarleg að ég sagði honum að ég hefði nú aðeins svindlað því ég hefði ekki staðist mátið að líta aðeins inn hjá henni Selmu frænku minni og heilsa upp á hana og sólargeislann, hana Sólrúnu Maríu.

Þegar ég kom heim úr göngutúrnum og heimsókninni þá var orðið svo hlýtt að ég sat hérna úti á pallinum í góða stund og fékk mér tesopa og las norsku blöðin sem hún Birgit vinkona mín gaf mér um daginn.
Svona sveiflast nú hlýindin um þessar mundir milli þess að vera frost og funi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sveiflukennt.

  1. afi says:

    Það er stundum í lagi að svindla pínu. Í þetta sinn var ástæðan ærin.

Skildu eftir svar