Vestfjarðarferð 3. hluti.

Nú var spennandi dagur framundan því það var komið að því að aka inn í Ísafjarðardjúp og skoða alla litlu firðina sem ganga inn úr því. Í einum þessara fjarða, Seyjðisfirði fæddist móðir mín og ólst þar upp þangað til hún var 15 ára, en þá missti hún móður sína og fjölskyldan leystist upp. Hún fór þá til Patreksfjarðar til þess að vera í vist hjá læknishjónunum þar.  
Það átti margt eftir að fara í gegnum huga minn á þessari dagleið okkar. 

——– 

Við kvöddum Bolungarvík sem enn skartaði bláum himni og var böðuð í sól eins og þegar hún tók svo fallega á móti okkur daginn aður og nú ókum við burtu á móti morgunsólinni á vit nýrra ævintýra. 

Við byrjuðum á að aka í gegnum Óshyrnuna yfir til Hnífsdals og þaðan til Ísafjarðar. Við ætluðum að skoða harmonikusafn á Ísafirði, en það var lokað svo það varð að bíða betri tíma. Þar sem við skoðuðum Ísafjarðarbæ daginn áður þá héldum við ferðinni áfram til Súðavíkur.

vestfirdir6.jpg 

Klettarnir á myndinni hérna fyrir ofan eru þegar við komum út úr litlu göngunum sem ganga í gegnum Arnarneshamarinn yfir til Súðavíkur og fjaran er einnig þar.  Hjónin á myndinni eru góðir vinir en hún Magnea vann með mér á Málflutningsskrifstofunni. Þau eru þarna hjónin fyrir utan Grund á Súðavík, en þar bjó hann sem strákur. Nú hafa þau ásamt fleirum gert gamla húsið svo einstaklega smekklega og fallega upp og nota nú hvert tækifæri til þess að vera þarna í þessu friðsæla og fallega þorpi.

 sudavik2.jpg 

Það hefur ekki alltaf verið svona friðsælt þarna á Súðavík og myndin hérna fyrir ofan sýnir hvar snjóflóðið stóra kom niður og hvaða hluti byggðarinnar hvarf í því.  Það hefur verið reistur fallegur minningarreitur til minningar um þá sem fórust í snjóflóðinu.  

En í dag lítur fólk þarna björtum augum á framtíðina, geymir minninguna um þennan atburð, en lætur lífið ekki stjórnast af því sem liðið er.  

Ég var svo ánægð að það skyldi hittast svo á að þau Magnea og Egill voru einmitt á Súðavík þegar við komum þar því það var virkilega gaman að hitta þau og Egill þekkti auðvitað allt þarna frá gamalli tíð.  Hann þekkti strax til gamallar vinkonu sem mamma mín hafði átt þarna á Súðavík og systir mín hafði verið hjá eitt sumar. 

Við héldum ferðinni áfram frá Súðavík sem er í Álftafirði og áfram inn djúpið að næsta firði sem er Seyðisfjörður.  Fjörðurinn hennar mömmu. Ég þreyttist aldrei á því sem barn að heyra hana segja sögur frá því þegar hún var lítil  telpa á Uppsölum. Þetta var stórt heimili með mörgum kynslóðum og mamma var svo hænd að afa sínum og ömmu Rögnvaldi og Kristínu en ég heiti einmitt í höfuðið á þeim tveimur.  Þarna var alltaf kátt á hjalla og móðurbræður mömmu spiluðu mikið á harmonikur og afi mömmu, Rögnvaldur, lét panta forláta grammofón fyrir sig  frá útlöndum, en enginn í sveitinni hafði nokkurn tíman séð slíkt galdratæki. Svo var farskóli þarna á veturna.

Nú sá ég líka niður á eyrina sem mamma hafði sagt mér að norskir hvalfangarar hefðu verið með hvalstöð á. Ég hélt alltaf að þetta hefði verið nokkuð stórt svæði og stór hvalstöð, en eyrin er lítil og erfitt að sjá hvernig margir menn gátu hafa búið þar og starfað. Nú er þarna á eyrinni eins og á svo mörgum öðrum stöðum í firðinum kominn sumarbústaður. 

Það er óralangt síðan gamli Uppsalabærinn var brenndur niður og steinhús byggt í staðinn. Frændi mömmu fór í þær framkvæmdir og mamma var aldrei sátt við það.  Nú er búið að jafna það  steinhús við jörðu og byggja sumarbústað á gamla bæjarstæðinu. Það var enginn í þeim bústað núna, annars ætlaði ég að spjalla aðeins við þá ábúendur. 

Ein ömmusystir mín bjó á kirkjustaðnum Eyri, og það eru ekki svo mörg ár síðan sonur hennar lést , en hann bjó þarna alla sína ævi með móður sinni. Húsið þar stendur enn, en er í eyði.   Kirkjan er hins vegar enn notuð og er sæmilega við haldið.   

 Hér læt ég staðar numið í bili. Einn hluti ferðasögunnar er nú eftir.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Vestfjarðarferð 3. hluti.

 1. Katla says:

  Mikið semþað hefur verið gaman fyrir þig að fara þessar slóðir. Mjög gaman að skoða allar þessar fallegu myndir úr ferðinni. Hlakka til síðasta bútsins úr ferðalaginu.

 2. Kjartan J Hauksson says:

  Sæl frænka,

  Gaman að lesa ferðalýsinguna, takk. Langar að benda á að Uppsalabærinn sem þú nefnir var ekki brenndur niður líkt og um vilja verk væri að ræða heldur brann hann af öðrum ástæðum. Hér að neðan er tengill á frétt úr blaðinu Vesturland um brunann sem varð 1938.

  https://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=322380

  Kveðja,

  Kjartan J Hauksson (Hauks S Daníelssonar, Rögnvaldssonar)

Skildu eftir svar