Svona fór nú kvöldið hjá mér.

Ég er svona rétt að ná andanum aftur, en það er ekki vegna spennings yfir lögunum í fyrri hluta undanúrslita í Evróvisjónkeppninni í kvöld, heldur datt mér það snjallræði í hug þegar ég var búin að horfa á fyrstu tvö lögin, að nota tækifærið og lakka á mér neglurnar. Ég ætlaði hvort sem er að sitja kyrr á meðan ég væri að horfa á keppnina svo lakkið gæti þornað áður en ég færi að gera eitthvað sem eyðilegði lökkunina. Ég fór fram til þess að ná í naglalakkið sem ég keypti í vikunni, en var ekkert farin að nota.
Í næ í lakkið uppi í baðskáp, en þar sem ég sný mér við og ætla aftur út úr baðherberginu, þá vill ekki betur til en svo að ég missi glasið úr höndunum á mér í gólfið og það splundrast og naglalakkið slettist bókstaflega um allt gólf og upp á flísar.
Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð.  Tusku og vatn þýddi auðvitað ekkert að nota svo það kom sér vel að ég átti líka stórt glas með asitoni, svo ég hófst strax handa við að þrífa upp þennan ófögnuð sem byrjaði strax að þorna og notaði til þess grisjur og asiton. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að að eyða  dýrmætum sekúndurm í að sækja Hauk og láta lakkið þorna enn fastar á flísunum á meðan. Hann var auðvitað upptekin af sjónvarpinu og áttaði sig ekkert á því hvað ég var lengi að bauka eitthvað og þusa við sjálfa mig þarna frammi á baði.
Það er alveg með ólíkindum hvað innihald svona glass með naglalakki getur slettst víða þegar það mölbrotnar á flísalögðu gólfi. Hvílíkt lán var samt yfir mér að missa glasið inni á baði en ekki fyrir utan dyrnar á parketið í holinu.

Ég náði svo síðasta laginu í söngvakeppninni eftir að hafa skriðið um allt baðgólfið, hreinsað upp glerbrot og nuddað naglalakkssletturnar af gólfi og veggjum og andað að mér asitoni í dágóða stund áður en ég þvoði yfir gólfið á eftir. Við erum búin að lofta vel út svo við eigum að sleppa við að vera í asitonvímu í nótt.

Þannig fór nú fyrsti hluti Evróvisjón 2015 hjá mér- Kannski missti ég ekki af neinu, en á fimmtudagskvöldið ætla ég hvorki að hreyfa legg né lið þegar ég verð sest við sjónvarpið til þess að horfa á hana Maríu okkar og alla hina sem taka þátt það kvöld.

Góða nótt mín kæru.

 


Comments

2 responses to “Svona fór nú kvöldið hjá mér.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *