Önd í appelsínusósu – Pússlað úr ýmsum áttum – mjög gott.

Ekki láta það fæla ykkur frá því að prufa að elda svona önd, að lesningin er frekar löng. Þetta er  alls ekki flókið, en ég vildi bara koma öllum gagnlegum upplýsingum á framfæri  svo enginn þyrfti að  velkjast í vafa um eitthvað sem ekki kæmi fram í uppskriftinni.
Endilega sendið mér póst á ragna@betra.is ef þið hafið einhverjar athugasemdir. 
 
Ég var í fyrsta skipti að elda svona önd í kvöld. Uppskrift og aðferð fann ég á ýmsum stöðum og pússlaði svo saman  og úr varð þessi líka fína hunangsgljáða önd með appelsínusósu. Svo ég gleymi ekki hvernig ég pússlaði þessu saman þá ætla ég að setja niður minnispunktana strax. 
 
Öndina, sem í þessu tilfelli var Herragarðsönd sem ég keypti frosna, lét ég þiðna í kæliskáp í rúma þrjá sólarhringa. 
 
Ég mæli með því að hafa tvær endur fyrir fjóra, því ég vil frekar  eiga afgang en upplifa það, að enginn þori að taka síðasta bitann.
Þessi uppskrift er þó miðuð við eina önd því það lagði ég upp með. 
 
-Viðmiðunarregla er að steikja fuglinn í klukkutíma fyrir hvert kíló – segir í matreiðslubók Delíu Smith. Hún mælir líka með því að setja enga auka fitu, hverju nafni sem nefnist, á öndina því þetta er feitur fugl. 
 
Ofninn er hitaður í 220°C.
 
Ég byrjaði á því að taka innmatinn og hálsinn ef hann fylgir með úr fuglinum og setja í pott með vatni og einum teningi af hænsnakryddi. (Líklega um hálfan líter af vetni).  Suðan látin koma upp og mallað á lágum hita  í svona 3 tíma svo bragðið náist vel úr innmatnum.
 
Öndin er þerruð vel bæði utan og innan. það er jafnvel gott að setja hana í ískáp eftir að hún er þerruð,  í einhverja klukkutíma  – ekki í umbúðum – til þess að leyfa henni að þorna vel. 
 
Síðan er stráð vel salti og pipar yfir öndina (gott að mala aðeins svartan pipar yfir) 
 
Öndin er sett á rist í ofnskúffu eða í steikarpott með bringuna upp.
 
Pikka göt á skinnið og vel innúr  t.d. með bandprjóni  – Þetta er gert til þess að fitan fari frekar inn í fuglinn og geri kjötið meirt í stað þess að leka bara niður puruna og í ofnskúffuna. 
 
Nú er öndin tilbúin í ofninn sem er kominn í 220° og hún er sett eins ofarlega og hægt er. Hafa ekkert yfir öndinni á þessu stigi. 
Eftir 20 mínútur er hitinn lækkaður í 180° og  öndin pensluð með hunangi. Ef einhver feiti hefur komið af öndinni á þessum tíma er rétt að hella henni af, t.d. í krukku  og gera þetta nokkrum sinnum á meðan öndin er elduð.  – henda ekki –   Ég kem að því síðar. 
 
Pensla öndina á 15 mínútna fresti með hunangi, sem á þessu stigi er gott að bæta aðeins af appelsínuþykkni saman við.

Fylgjast vel með steikingunni – steikarpotturinn hafður opinn ennþá. Þegar öndin er búin að fá á sig fallega gullinn lit er rétt að færa hana neðar í ofnininn svo hún verði ekki of dökk. Lærin dökknuðu mun meira á meðan ofninn var hafður opinn, svo ég vafði álpappír yfir þau svo þau brynnu ekki.
þegar búið er að steikja í svona tvo tíma,  (eða skemur ef öndin er að verða of dökk)  er rétt að minnka hitann í 160 og setja lokið yfir steikarpottinn eða plötu yfir ofnskúffuna.  
 
Til þess að nota tímann á meðan öndin er í ofninum, er gott að búa til eplasalat, byrja á sósunni og huga að því hvernig kartöflur verða hafðar með öndinni
 
Sósan:
 
1. Skera smátt lítinn lauk eða hálfan, ásamt einni til tveimur gulrótum.
 
2. Nú er komið að feitinni sem hefur safnast af fuglinum. Hella smávegis á pönnu og krauma þar í laukinn og gulræturnar í smá stund – mala  aðeins pipar yfir.  –  Þetta gefur mjög gott bragð í sósuna.  – Geyma aðeins á pönnunni.
 
3. Innmaturinn, sem hefur verið að  malla síðan byrjað var að undirbúa öndina, tekinn upp úr pottinum og soðið síað yfir í annan pott.
 
4. Bæta í soðið 1/2 dl. af appelsínuþykkni (byrja alla vega með það og bæta frekar við síðar).
5.Hella nú því sem er á pönnunni í gegnum sigti út í pottinn með sósugrunninum.
 
6. Einn hænsnateningur mulinn út í. 
 
7. Hella slatta af rjóma  út í – mældi ekki, en gæti verið 1 1/2 – 2 dl. 
 
8. Bragðbætt frekar að smekk hvers og eins, t.d. með því að mala aðeins meira af svörtum pipar, salti eða setja meira þykkni
i sósuna og kannski smá slettu af t.d. appelsínulíkjör eða öðru víni  (var ekki með slíkt í minni tilraun).
Þykkja aðeins með sósujafnara.
 
Ef það eru eldaðar tvær endur, þarf auðvitað einnig að gera ráð fyrir meiri sósu svo það er rétt að tvöfalda það sem ég hef talið upp.
Nú er sósan tilbúin og komin með rétt bragð, en öndin enn í ofninum – 
 
Öndin er nú tilbúin og tekin úr ofninum. Hún er sett á skurðarborð, lærin skorin frá ásamt vængjunum. Bringurnar eru skornar frá beinunum og síðan eru þær skornar í sneiðar. Lærunum og bringunum raðað smekklega á fat, skreyta síðan með appelsínusneiðum. 
 
Vonandi eruð þið eins heppin með önd og ég, því herragarðsöndin sem ég eldaði í kvöld bragðaðist eins og besta Pekingönd með appelsínusósu  eins og maður sækist eftir að fá í útlöndum.  
 
Meðlætið hjá mér ver: 
Appelsínusósan.
Bakaðar kartöflur 
Brokkolí
Eplasalat með vínberjum og einni lítilli appelsínu.