Rifsberjahlaup – verklýsing fyrir byrjendur.

Ég set inn þessa einföldu uppskrift og miða lýsinguna við að viðkomandi hafi aldrei komið nálægt því að gera sultu eða hlaup. Aðferðin er einföld og fljótleg. Lesningin er nokkuð löng því fyrir byrjendur er gott að hafa góða yfirsýn áður en hafist er handa og þessvegna er öllu lýst í smáatriðum.

Best er að hafa berin ekki of þroskuð, allavega þarf að hafa nokkuð af grænum berjum með. Stilkarnir eru hafðir á og soðnir með. Ef ykkur hafa verið gefin ber í fyrra og hafið sett þau í frost þá má auðveldlega gera úr þeim hlaup núna hvort sem er eintómum eða bæta samanvið nýju berin.

Svona undirbý ég verkið:

Byrja á því að taka til krukkurnar. Mér finnst best að hafa litlar krukkur undir hlaupið. Barnamaukskrukkur finnst mér bestar.

Krukkurnar eru þvegnar vel úr sápuvatni og skolaðar – lokin einnig. Síðan hef ég við hendina sjóðandi vatn sem ég blanda aðeins Betamon út í (fæst í öllum matvöruverslunum). Ef tök eru á er gott að hafa þetta í stórum potti á heitri hellu á eldavélinni. Í þessu vatni eru hreinar krukkurnar látnar hitna í gegn og síðan veiði ég þær upp nokkrar í einu, þurrka og helli síðan heitu hlaupinu í heitar krukkurnar.
Það hefur aldrei skemmst hjá mér sulta eða hlaup og þakka ég það því sem móðir mín kenndi mér um hreinlæti við sultugerð.
Hafa líka tilbúna skál og fíngert sigti til þess að sigta berin eftir suðuna.
klippa út úr bökunarpappír eða plasti hring sem passar efst í krukkuna. Þessu er síðan dýft í Betamon (óblandað)og síðan sett efst ofaná hlaupið í krukkunni. – Það má líka nota alkohól til að dýfa þessu í ef það er til. Þetta er gert til að auka geymsluþol.

Nú kemur að sjálfri suðunni:

Berin eru þvegin vel og pottur (gott að hafa hann stóran því það hækkar talsvert í pottinum þegar fer að sjóða), er hitaður aðeins á heitri hellunni áður en berin eru sett í hann. Ég hef kíló af sykri á móti kílói af berjum en hugsanlega má minnka sykurinn.

Nú er bara að hræra vel í pottinum allan tímann (best að nota stóra sleif) og um leið og suðan er komin vel upp þá er tíminn tekinn og þetta látið sjóða í þrjár mínútur.

Slökkvið nú á hellunni, dragið pottinn til hliðar og ausið upp í sigtið þar sem berin eru marin vel og reynt að ná úr þeim öllum vökva. – Geymið hratið því það má nota það til þess að gera úr saft.

Þegar hlaupið er komið í heitar krukkurnar er hratið sett í pottinn aftur og vatni bætt í – ég hef nú ekki mælt vatnið en það þarf að vera þannig að hratið losni vel í sundur og fljóti vel yfir. Skiptir ekki öllu máli því saftin verður þá annað hvort þykk ef lítið vatn er látið eða þynnri ef vatnið er meira. Þessa saft er gott að nota út í súrmjólk eða AB mjólk eða á ís. Það má líka sjóða úr þessu súpu og bæta þá rúsínum og sveskjum út í ásamt meiru af vatni, bragðbæta og þykkja með kartöflumjöli.

Hratið og vatnið er látið sjóða í nokkrar mínútur, eða á meðan verið er að ganga frá krukkunum með hlaupinu og hrært í öðru hvoru síðan er þetta sigtað og sett á flöskur eða glös og geymtí ísskáp. Þetta geymist ekki allan veturinn svo best er að nota það frekar fljótlega.

En, aftur að hlaupinu okkar sem hefur beðið  í krukkunum á meðan við suðum upp hratið og gengum frá áhöldunum eftir okkur. Nú er tímabært að loka krukkunum. Fyrst tökum við  plastið/bökunarpappírinn og dýfum því í betamonið eða alkohol og setjum efst í krukkurnar. Tökum síðan filmuplast og strekkjum yfir og skrúfum síðan lokið á. Ekki er svo verra að útbúa miða sem merktir eru innihaldi og dagsetningu og líma á krukkurnar.

Ég set hlaupið síðan beint í ísskáp og geymi það þar.

Gangi ykkur vel. Ef eitthvað er óljóst þá endilega sendið póst á ragna@betra.is