Dönsk lifrarkæfa með sveppum og beikoni.

 Þessi er búin til alveg frá grunni, en neðst á síðunni er tillaga að einfaldri heitri lifrarkæfu.

 

250 gr. Svínalifur
100 gr. Svínaspek
1 lítill laukur
3 msk. Hveiti
1 tsk. Salt
1 tsk. Pipar
½ tsk. Allrahanda
2 ½ dl. Mjólk,
1 egg.
Ofan á:
Beikon, sveppir og rjómi.
Svínalifur, Spek og laukur hakkað saman. Öðru blandað saman við og hellt í form.
Bakað í 170°heitum ofni  í 1 klukkustund. 

Ofan á:
Beikonið sem er skorið í litla bita er steikt ásamt sveppum og rjóma og hellt yfir þegar lifrarkæfan er tekin út úr ofninum og borin fram. Lifrarkæfuna má frysta.

 Hér er svo einfalda uppskriftin sem ég var að fá í dag og var sagt að væri mjög góð.

Ég ákvað að setja þetta inn strax þó ég prufi þetta ekki sjálf
fyrr en á jólunum en vil að fleiri viti um þennan möguleika.   

Þessi uppskrift er tilvalin fyrir þá sem ekki vilja eyða of miklu af tíma sínum en fá samt mjög góða heita lifrarkæfu.

Kaupa tilbúna Danska lifrarkæfu frá GOÐA.  Þetta er í álformum og fæst í öllum stórmörkuðum.

Klippa niður Bacon og sveppi og steikja hvorttveggja á pönnu.  Magn fer eftir smekk hvers og eins – gott að hafa vel af þessu.

Það má færa kæfuna yfir í annað fallegra eldfast mót ef vill áður en hún er hituð.   Setja inn í ofn og hita þar til það fer að krauma í forminu, láta krauma í örfáar mínútur og setja þá sveppina og baconið yfir og ég býst við að það megi hella aðeins rjóma yfir eins og í hinni uppskriftinni hérna fyrir ofan.

Hafa  í ofninum í 1 – 2 mín.  Láta kæfuna kólna augnablik á borði áður en hún er borin á borð.