18. maí 2015 – svalir sumardagar

Eruð þið ekki sammála mér að sumarið sé komið. Það er yndislegt að vakna við geisla sólarinnar, sem ná að þröngva sér meðfram rúllugardínunni og fá mann til að blikka aðeins augunum og fyllast bjartsýni á daginn framundan. Ég viðurkenni þó að stundum finnst mér sólin helst til snemma á ferð þegar klukkan er varla orðin fimm að morgni, en eftir leiðinda dimmviðrið í fyrrasumar og í allan vetur er þetta bara dásamleg tilfinning. Hitastigið yfir daginn fer reyndar ekki mikið yfir sex eða sjö gráður, og nær enn ekki tveggja stafa tölu, en ég á nóg af hlýjum fötum svo ekki þarf ég að láta mér verða kalt.  Já mér finnst komið sumar og nýt þess virkilega, þrátt fyrir það að vindurinn sé kaldur og ég verði að fara í úlpu, hnýta á mig trefil og hafa vettlinga þegar ég fer í smá göngutúr.
Ég má nefnilega ekki leita mér að afsökunum að fara ekki út að ganga því ég ætla að styrkja mig vel fyrir næsta krukk þeirra sem sjá um skurðhnífana á Lsh.  Hvenær svo sem eitthvað fer nú að þokast áfram á  biðlistum þar á bæ. Þeim er vorkunn, sem starfa á Lsh og vilja hjálpa sjúklingum sínum fljótt og vel, að allt skuli vera í biðstöðu vegna verkfalla. Ég hef aldrei kynnst nema góðu fólki sem starfar á Landspítala og vona svo sannarlega að það fái  sína samninga sem allra fyrst

Nú er best að njóta hvers dags, af þessum fallegu sem nú eru í boði, hlusta á fuglasönginn og köll barnanna sem láta ekki smá kulda á sig fá og leika sér úti á hjólum, brettum og hoppa á trampolínum án þess að hafa áhyggjur af morgundeginum. Tökum þau okkur til fyrirmyndar. Það er með börnin eins og fuglana þau eru fyrstu merki sumarsins.


Comments

One response to “18. maí 2015 – svalir sumardagar”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *