Gamla góða bloggið mitt vanrækt.

Ég var spurð að því í gær hvort ég væri alveg hætt að skrifa á “bloggið” mitt? Já ég varð að játa það og hef ekki einu sinni leitt hugann að því að skrifa færslu í dagbókina mína í rúm tvö ár, eins og hún var mér hugleikin hérna áður en Fésbókin kom til sögunnar.  Ástæðuna sagði ég vera þá, að mér finndist ég ekki hafa neitt merkilegt að segja. – Þarf það endilega að vera eitthvað merkilegt? var ég þá spurð. Sú spurning kom mér til þess að setjast við tölvuna núna.

Í dagbókina var ég vön að skrifa hugrenningar mínar um allt og ekkert og um eitthvað sem skeði þann daginn, en leiddi aldrei hugann að því hvort það væri eitthvað merkilegt sem eg væri að segja. Þessar færslur yrðu hvort sem er bara lesnar af fjölskyldu og vinum. Það gæti verið gaman að skoða seinna hvað ég upplifði og jafnvel gaman fyrir afkomendur mína seinna meir að fara í gegnum þessar gömlu færslur.

Ég eignaðist fljótt fáa, en nána og góða bloggvini. Þau komu úr sitt hverri áttinni og ég þekkti engin deili á þeim fyrr en þau fóru að skrifa við færslurnar mínar og við síðan hvert hjá öðru.  Við urðum öll svo náin að við deildum gleði okkar og sorgum með bréfaskriftum, fyrir utan litlu ummælin á dagbókum okkar. Ein bjó í Amman í Jórdaníu, tvær bjuggu í Ameríku, ein i Portúgal og við hin svo á Íslandi.  Fyrir nokkrum árum hittumst við nokkur og áttum yndislega dagstund saman.  Það er ótrúlegt hvað fólk getur bundist sterkum böndum  á þennan hátt.

Svo kom Facebook.

Í huganum hef ég kennt Facebook um það að ég hætti alveg að blogga, en það er auðvitað ekki sanngjarnt að gera það. Breytingin varð bara sú að ég fór allt í einu að gaspra eitthvað út og suður á þessum nýja miðli, oftast vanhugsað og í fljótfærni og langt frá því að vera neitt í líkingu við gömlu góðu dagbókarsamskiptin.  Ég vil þó ekki gera lítið úr Facebook því það er ómetanlegt að fá fréttir og myndir af vinum og vandamönnum sem maður heyrir sjaldan í eða hittir og að geta skoðað öll þau húsráð og fróðleik sem í boði eru. Á síðustu árum hef ég líka verið í svona smá veikindastússi og mikið hefur mér þótt vænt um allar góðu óskirnar og batakveðjurnar sem ég hef fengið á Facebook þegar ég hef þurft á þeim að halda og sömuleiðis hefur verið notalegt að geta sent öðrum kveðjur í slíkum aðstæðum.

Ég hef einnig verið spurð  hvort ég hafi aldrei íhugað að tjá mig um reynslu mína af heilbrigðiskerfinu. –  Jú ég hef stundum íhugað hvort ég ætti að gera það og einn og einn gamall póstur á http://ragna.betra.is/ er jú um samskipti mín við heilbrigðiskerfið, bæði góð og slæm samskipti, en þegar ég lít til baka þá man ég betur þau góðu en slæmu. Flestir sem ég hef þurft á að halda í sambandi við veikindi mín hafa verið svo góðir við mig og viljað allt fyrir mig gera. Ég verð hins vegar að játa, að þegar ég hugsa mig betur um, þá kemur ýmislegt upp á yfirborðið og þá sérstaklega í sambandi við Bráðavaktina.

Ég ætla að velta þessari áleitnu spurningu fyrir mér um sinn. Get einhvern veginn ekki ímyndað mér að það geti orðið áhugaverð lesning ef ég fer að skrifa um veikindi og samskipti við kerfið.   Þessari spurningu er því ósvarað a.m.k. í bili.

Þú kæra dagbók getur þakkað RUV fyrir leiðinlegar bíómyndir í kvöld, en það voru þær sem komu mér til þess að pára nokkrar línur hérna inn, það hlyti að vera skemmtilegra og meira gefandi en að sitja og tuða yfir sjónvarpinu.

Góðar stundir !


Comments

One response to “Gamla góða bloggið mitt vanrækt.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *