Górillan í sveitinni – gömul minning.

Ég ætla að fara aftur til vorsins 1977. Við Oddur heitinn vorum í Sælukoti um hvítasunnu með Guðbjörgu 5 ára með okkur og eitthvað fleira fólk var líka í bústaðnum.  Tvö árin á undan bjuggum við í Englandi þar sem við fórum oft um helgar í ýmsa dýragarða. Og eins og alltaf voru apar þar í miklu uppáhaldi hjá börnunum.

Nú snúum við okkur aftur að þessari hvítasunnuhelgi í sveitinni. Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar bræður tengdamömmu bjuggu á Heiði og tengsl okkar borgarbúanna í Sælukoti var svo mikil við sjálfa sveitina.

Eins og oftast þegar við vorum komin í Sælukot var Guðbjörg mín fljót að skokka yfir brúna á læknum og upp brekkuna heim á bæ til þess að fá að vera með Helgu Oddnýju og Önnu Siggu. Þegar þetta gerðist stóð sauðburður sem hæst.

Guðbjörg var búin að vera í burtu í þó nokkurn tíma  þennan tiltekna dag þegar við sáum hvar Steini bóndi var að koma heim að bústað hjá okkur á jeppanum sínum. Jeppinn hafði varla stöðvast þegar Guðbjörg mín snaraðist út og systurnar Anna Sigga og Helga Oddný á eftir henni. Guðbjörgu var mikið niðri fyrir þegar hún sagði að þau hefðu verið að skoða nýfæddu lömbin sem þyrfti að hjálpa og Steini væri með tvö lömb í jeppanum og  górilluna líka.

"Bíddu nú við, hvar funduð þið górillu?"  
"Bara úti á túni það er hún sem á lömbin"

Systurnar sem bjuggu í sveitinni litu nú hver á aðra en við vorum fljót að sjá samhengið.  Guðbjörg mín var vönust því að skoða górillurnar í dýragarðinum og nú var talað um rollurnar svo í öllum æsingnum talaði mín bara um górilluna. 

Ekki veit ég hvort Anna Sigga man eftir þessu. En Guðbjörg mín hefur fengið að heyra þetta rifjað upp reglulega og við Oddur gátum aftur og aftur hlegið að þessu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Górillan í sveitinni – gömul minning.

  1. afi says:

    Skondið
    Þetta var skemmtileg frásögn. Það er svo margt skondið sem getur oltið upp úr þessum börnum. Sjálfsagt að halda því til haga.

  2. Anna Sigga says:

    Skemmtileg minning!
    Því miður man ég ekki eftir þessu tiltekna atviki en hugurinn reikar til baka… 🙂

  3. Þórunn says:

    Górilla eða rolla…..
    Þetta er skemmtileg frásögn, það er oft alveg ótrúlega fyndið sem veltur upp úr krökkum, þau misheyra, misskilja eða nota orð í annari merkingu en við gerum venjulega. Þið sem eruð með ung börn, skrifið endilega niður svona tilvik, ég sé eftir að hafa ekki gert það á meðan mín börn voru ung.

  4. Hulla says:

    Fyndið
    Þetta er fyndið……. Gó rolla!!!
    Svo er það stundum sem börn bara heyra ekki munin. Lena kallaði vin minn Bónó lengi gó nótt og vinkonu mína Melkorku, annað hvort Agúrku eða Amríku hahaha

  5. Linda says:

    Þetta er frábær saga..
    Minnir mig á litlu systir mína sem spurði alltaf hvort við ættu að fara í heimsókn til Ananas frænda.. Frændinn heitir nú Hannes en skipti svo sem ekki máli þá..thíhíhí..

  6. Svanfríður says:

    Þetta var skemmtilegt og ég skellti upp úr við lesturinn. Að vera einungis fimm ára býður stundum upp á að tungunni verði á fótaskortur.

  7. Gurrý says:

    Já, það er svo gaman að krökkum og hvernig þau skilja sum orð og koma þeim svo áfram. Það hefur oft orðið töluverður misskilningur hjá okkar börnum, sérstaklega eftir að þau höfðu dvalist á Íslandi sumarlangt. Dóttirin átti forláta húfu sem hún skildi eftir við rólurnar í leikskólanum, grét mikið og barmaði sér við fóstruna þangað til hringt var í mig og ég beðin að koma því greinilega hefði einhver karlmaður verið að ónaða barnið…þá kom í ljós að orðið „hann“ á arabísku er „húa“ mikið létti mér þegar ég fór svo og sótti húfuna fyrir barnið og hún tók gleði sína á ný.

  8. Ragna says:

    Mikið hefur verið gaman að lesa það sem þið hafið lagt í orðabelginn. Ég segi bara takk fyrir heimsóknirnar.

  9. ERICA says:

    Halló,
    Þetta er að upplýsa almenning um að frú Morgan Erica, einkaaðila lánveitandi, hafi opnað fjárhagslega möguleika fyrir alla sem þurfa neina fjárhagslega aðstoð. Við gefum út lán við 2% vexti til einstaklinga, fyrirtækja og fyrirtækja með skýrum og skiljanlegum skilmálum. hafðu samband við okkur í dag með tölvupósti svo að við getum veitt þér lánskjör okkar á: (morganerica007@gmail.com)

Skildu eftir svar