Steini heimsóttur.

Við Guðbjörg fórum í dag í hvílíkri úrhellisrigningu í heimsókn til hans Steina frá Heiði til þess að sækja forláta kistu sem hann var að gera upp fyrir Guðbjörgu. Þessa kistu átti Helga Vilborg mamma Steina þegar hún var ung. Kistuna hafði hún fengið sem ung stúlka fyrir ársvist sem vinnukona í Árnessýslu. Þegar hún síðan giftist Oddi bónda á Heiði og fluttist þangað þá hafði hún heimanmund sinn í þessari kistu. Steini sagði að hún hefði alltaf geymt spariklæðnað sinn í kistunni. Peysufötin og upphlutinn.


Við Oddur minn eignuðumst þessa kistu líklega öðru hvoru megin við 1965 þegar gömlu hjónin á Heiði gáfu okkur hana, en síðan gaf ég Guðbjörgu hana. Mér fannst það passa vel því hún er alnafna ömmu sinnar Guðbjargar Oddsdóttur sem er dóttir Helgu og Odds á Heiði. Guðbjörg mín pússaði síðan kistuna upp og lakkaði hana en hjarirnar voru orðnar lélegar og kistan gisin. Hún hefur samt haft kistuna sem stofustáss og það verður hún áfram núna þegar Steini er búinn að gera á henni hvilíkt kraftaverk. Hann þétti hana alla, setti á hana nýjar lamir og lét smíða nýjan lykil.  Það er aldeilis gott að eiga slíka handverksmenn að, sem hafa skilning á því hvernig gera á upp svona gamla hluti. Hann gerði líka frábærlega upp fyrir mig kistu sem ég gaf henni Sigurrós en þá kistu átti að öllum líkindum langa,langafi hennar Rögnvaldur. Mamma, Vilborg Sigurrós, átti þá kistu svo mér fannst hún líka eiga að fylgja nöfnu ömmunnar.


Ég mátti til að láta þetta koma hérna fram.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar