19. júní ferð okkalr Karlottu.

Við Karlotta héldum uppi heiðri kvenna og fórum í kvennaferð 19. júní. Fyrir nokkru kom bréf frá kvenfélaginu hérna þar sem auglýst var fjölskylduferð í Haukadalsskóg að kvöldi 19. júní í tilefni dagsins og það átti að taka með sér nesti og gesti. Karlotta var til í að koma með ömmu og auðvitað höfðum við nesti með okkur, langlokur, kakó og fleira góðgæti. Þar sem þema dagsins var bleikt þá hafði ég gaman af því, þar sem við áðum fyrst, að Karlotta dró bleikt teppi upp úr bakpokanum sínum og breiddi það á jörðina og kom sér þar fyrir með nestið sitt á meðan við hinar sátum við ferðamannaborð og mauluðum þar nestið okkar.

kvenfel2.jpg

Ég hvet alla sem ekki hafa farið þarna inn í Haukadalsskóg að láta verða af því. Mig hafði alltaf langað til að skoða mig um þarna í skóginum en ekki orðið af því fyrr en núna. Nú get ég hins vegar vart beðið eftir því að komast þangað aftur og skoða mig betur um og gefa mér góðan tíma til þess að taka myndir. Það er erfitt að vera í myndatökum þegar stíft er haldið áfram og ekkert endilega verið að stoppa þó það sé fallegt um að litast. Þeir sem fara í svona göngutúra bara til að ganga og hafa jafnvel oft komið á staðinn, þeir leiða venjulega hópinn og svo er arkað áfram og hvorki litið til hægri né vinstri. Það þurfti að biðja forystusauðina að ganga aðeins hægar því það voru nokkrar eldri konur í hópnum sem gátu ekki gengið svona hratt upp brekkurnar. Annars er hægt að finna þarna göngustíga við allra hæfi, jafnvel fyrir þá sem eru í hjólastólum. En við fórum talsvert á brattann.

Það er geysilega fallegt þarna og mikið af háum trjám og öðrum fallegum gróðri og svo liðast lækir um skóginn á mörgum stöðum.

kvenfel3.jpg

Það eru mörg trén í skóginum mjög há, á þessari mynd má sjá nokkrar úr hópnum á einum göngustígnum.

kvenfel4.jpg

Í Í lok ferðar skoðuðum við Haukadalskirkju. Reyndar skoðuðum við hana bara að utan því hún var læst eins og kirkjur hér á landi eru yfirleitt. Það er alveg sorglegt að það skuli þurfa að hafa kirkjur læstar til þess að ekki verði framin á þeim skemmdarverk eða stolið úr þeim.

kvenfel6.jpg

Við komum heim úr ferðinni klukkan að ganga tólf. Það var ákveðið að við færum báðar í Sóltúnið þar sem afi beið eftir að fá ferðasöguna og síðan fékk Karlotta gistingu hjá ömmu.
Hún stóð sig alveg rosalega vel í ferðinni og kvartaði ekkert þó hún væri eina barnið í hópnum og í erfiðum göngutúr löngu eftir þann tíma sem hún er vön að sofna á kvöldin.

Nú er best að hætta párinu og koma sér í rúmið. Nú sig ég á nýjum stað með tölvuna, því ég ætla að mála gestaherbergið og setja kannski gamla hjónarúmið þar inn og hafa það bara fyrir gestaherbergi.

Þó það hafi verið spáð sól á morgun lítur ekki beinlínis út fyrir það núna um miðnættið að svo verði svo kannski viðrar til þess að mála í rigningunni á morgun. Alltaf eitthvað jákvætt við þetta blessað veður.

Magnús Már er með ágætis rigningarvísur á blogginu hjá sér í dag sem gaman er að kíkja á.

Nú býð ég GÓÐA NÓTT og GÓÐAN DAG Á MORGUN – hvernig svo sem viðrar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to 19. júní ferð okkalr Karlottu.

  1. Linda says:

    Takk fyrir þennan göngutúr Ragna..
    Kannski ég fái að lauma mér með þér þegar ég kem heim, en það er eftir 36 daga.. get vart beðið..

    Ég vona að þið fáið sól og hita í morgungjöf, annars var ég búin að plana að taka með mér eins og 10 gráður í ferðatöskuna og skilja eftir þegar ég fer..

  2. Hulla says:

    Já Íslandið er frekar fallegt þó að veðrið þar sé það ekki. Spurning að setja utanborðsmótor á eyjuna og færa hana aðeins suður á bóginn. 🙂

  3. afi says:

    Skemmtileg ferð.
    Þið stóðuð ykkur vel báðar tvær. Þótt afi sé nokkuð eldri en tvævetur og víða farið, hefur hann ekki komið á þennan dýrðarstað. Gott að eiga eitthvað eftir.

  4. Anna Sigga says:

    Skemmtilesning
    …og ekki skemma myndirnar! 🙂

  5. Svanfríður says:

    Það er alveg rétt hjá þér að skógurinn er mjög fallegur. Ég fór ríðandi þarna einu sinni og hafði gaman af. Svo er guðdóttir mín skírð í Haukadalskirkju sem var yndislegt. Gömlu kirkjurnar okkar eru svo margar fallegar og það er eitthvað svo rómantískt að koma inn í þær og hlusta á gömlu fótstignu orgelin.

Skildu eftir svar