Tíminn líður svo hratt.

Af hverju ætli tíminn líði svona hratt? Jú, ég hef eina skýringu. Það er bara svo margt skemmtilegt að gerast þessa dagana.

Afmælið hans Lofts var nú toppurinn um helgina, síðan tók hvað við af öðru. Sigurrós og Jói komu hingað úr afmælinu hans Lofts og voru fram á sunnudaginn. Á mánudaginn kom Ingunn mágkona mín (sem býr í USA) og var hjá mér fram á þriðjudag en þá fórum við saman í bæinn. Ég keyrði hana í Kópavoginn til Ingu svilkonu minnar þar sem við drukkum saman kaffi og síðan skrapp ég til Sigurrósar. Dagurinn í dag byrjaði svo á því að við Edda systir mín skruppum í morgunkaffi til kunningjakonu hérna á Selfossi og síðan bauð Haukur mér í miðdegiskaffi út í Eden. Á morgun hitti ég svo vinnukonurnar úr Borgartúninu – þ.e.a.s. þær sem ég vann með.

Er hægt að láta tímann silast þegar svona mikið er á döfinni? – Nei, ég svara því til að það sé ekki hægt.

Hér er hún Ingunn mágkona að ræða við
frændsystkini sín þau Odd Árnason og Ragnheiði Skúladóttur

ingunn7jpg.jpg

Það var alveg sérstaklega gaman að fá hana Ingunn í heimsókn. Við höfum um svo margt að tala því við höfum auk þess að vera mágkonur, verið góðar vinkonur síðan 1961 þegar bróðir hennar kynnti mig fyrir henni systur sinni. Við vorum að rifja upp útilegurnar sem við fórum í í gamla daga. Við Oddur heitinn fórum nánast hverja helgi í útilegu í mörg sumur, eða alveg þar til við eignuðumst Guðbjörgu en það var 10 árum eftir að við byrjuðum að vera saman.
Á föstudögum þegar við komum heim úr vinnunni var tjaldi, svefnpokum og prímus hent út í bíl og svo var brunað af stað í útilegu. Oftar en ekki vorum við í samfloti með öðrum vinum og þegar Ingunn kom með okkur þá þurfti stóri bróðir að passa hana litlu systur sína (tveimur árum yngri en ég), mjög vel því honum fannst stundum að vinir hans væru eitthvað að gefa henni of mikið auga og hann lét engan komast upp með það að hrófla við henni.

Við Ingunn eigum svo mikið af sameiginlegum minningum frá ýmsum tímum, að við gætum verið í marga, marga daga að rifja það upp. Núna leyfði tíminn ekki lengri samveru því, eins og aðrir sem búa svo fjarri okkar landi og þjóð eru með fulla niðurraðaða dagskrá til þess að hitta sem flesta. Ingunn stoppar ekki lengi núna svo hún verður að hafa sig alla við að fylgja dagskránni sinni.

Nú er komið miðnætti og best að koma sér í rúmið og reyna að sofa til morguns. Ég býð því góða nótt og hlakka til morgundagsins.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Tíminn líður svo hratt.

  1. afi says:

    Annríki.
    Það styttir tímann að hafa nóg fyrir stafni.

  2. Linda says:

    Þér ætti ekki að leiðast þessa dagana.. Fullt um að vera og gjörsamlega umkringd góðu fólki..

    Góðar kveðjur úr Ameríkunni..

Skildu eftir svar