Að búa sig undir útsölurnar.

Ég rakst á þessa forvitnilegu fyrirsögn í Mogganum í morgun eftir að hafa hlustað á auglýsingar í útvarpinu þar sem hver verslunin af annarri var að auglýsa að nú væru útsölurnar hafnar. Ég las greinina og fór alvarlega að hugsa um að nota þessi heillaráð sem gefin voru í greininni og skella mér síðan á útsölu vel undirbúin en ekki eins og venjulega bara til að athuga hvort ég sjái eitthvað sem mig kannski vantar eða langar í.

Ráðlegginrarnar í greininni eru sem sé á þá leið, að undirbúa sig mjög vel áður en lagt er af stað á útsölur. Skoða í fataskápinn og finna út hvað það er sem vantar. Það er auðvitað hið besta mál því oft er maður bara að skoða eitthvað og kemur svo heim með allt úr stíl við það sem fyrir er. Einnig var lögð á það áhersla að ef maður væri að kaupa eitthvað sem ætti að passa við aðra flík þá ætti maður að hafa flíkina með sér á útsöluna til þess að sjá betur hvað passaði við hana.

Ég var reyndar nokkuð hugsi yfir þessum ráðleggingum og sá fram á eftirfarandi atburðarrás:

Taka fram ferðatöskuna og hefja skoðunina í fataskápnum.
Mig sárvantar jakka við síða rauða kjólinn svo hann færi fyrstur í töskuna.
Það var líka bent á að hafa með sér rétta skó til að máta fötin í svo hvítu háhæluðu skórnir voru auðvitað ómissandi við síða kjólinn svo þeir fóru næstir í töskuna,

Svo vantar mig buxur við gamla köflótta jakkann minn svo hann yrði auðvitað að fara í töskuna líka og ekki gæti ég mátað buxurnar í hvítum háhæluðum skóm svo ég varð að setja svörtu leðurstígvélin í töskuna líka.

Svo væri ekki úr vegi að athuga með topp við pilsið mitt svo það væri líklega best að hafa það líka með sér.

Að lokum hafði ég hugsað mér að athuga hvort ég fengi góðan léttan göngugalla svo íþróttaskórnir yrðu auðvitað líka að fara í ferðatöskuna og nokkrir bolir sem ég vildi vera í ef ég finndi galla – allt yrði að passa saman.
——–

Ég hélt í huganum áfram ferð minni um fataskápinn, en þegar ég sá fram á að ferðataskan myndi hreinlega springa utan af öllu því sem í hana færi, rambaði ég aftur til veruleikans. Ég sá að það væri yfirdrifið af fötum í fataskápnum og ekki myndi ég fyrir nokkurn mun nenna að draga á eftir mér stóra ferðatösku um Kringluna, Smáralind eða niður Laugaveginn og meira en það, ég þyrfti að róta í henni í hvert skipti sem mig vantaði flíkina sem ætti að máta með útsöluflíkinni.

Ég var því mjög sátt við sjálfa mig þegar ég ákvað að sleppa alveg þessum útsöluhugsunum

Það er greininni í Mogganum í dag að þakka, að útsölur verða látnar eiga sig – a.m.k. í bili. Aldrei að segja aldrei.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Að búa sig undir útsölurnar.

  1. Svanfríður says:

    hahaha-þessi var góður.

Skildu eftir svar við Svanfríður Hætta við svar