Koma sér í gírinn.

Enn á ný skal taka ferðatöskurnar fram og pota einhverjum tuskum og góðum skóm í þær. Það verður einfalt núna því við eigum ekki von á að þurfa að klæða okkur neitt sérstaklega upp á hverju kvöldi eins og á Hótel Gala og ekki býst ég við að við finnum neitt dansiball því danskurinn virðist ekki vera neitt upptekinn af því að koma saman og hreyfa fæturna í takt við góða músikk. Þeir eru hinsvegar duglegri að hreyfa handleggina, en til þeirrar iðkunar þá nota þeir bjórflöskur, sem lyft er í sífellu. Í byrjun hverrar æfingar er bjórflaskan full og svo eftir því sem flaskan tæmist og æfingin er endurtekin oftar, þá verða þeir kátari og kátari og lyfta hraðar og hraðar.  Ég hef aldrei íþróttamanneskja verið og er því aum í þessari íþrótt eins og reyndar flestum öðrum.

Hinsvegar eigum við von á því að fara í Jensens Böffhus í Sönderborg, því danskurinn kann alveg að steikja gott nautakjöt svo það bráðni í munni. Ég get mjög vel tekið þátt í þeirri íþrótt að lyfta hníf og gaffli og hef reyndar yndi af því að borða góðan mat.

Svo er nú  ekki leiðinlegt að vera að fara til að hitta Jensen fjölskylduna í Bojskov, þó það sé ekki sú sama Jensen fjölskylda og sú sem á  buffhusið.
Það verður líka gaman að fara aftur og gista í  Gråsten hjá henni Vitu í Kernebo. Hún sagði að herbergið okkar biði bara eftir okkur, en eins og þið sjáið á myndunum þá er þetta ekki amalegur staður.

Svo verðum við í nokkra daga með Ásakórsfjölskyldunni þar sem þau verða í sumarhúsi nálægt Billund. það verður gaman að geta skoðað sig um á því svæði Jótlands, án þess að þurfa að aka daglega langar leiðir fram og til baka.

Svo er aldrei að vita nema við þorum núna að aka lengra inn í Þýskaland heldur en bara í skóbúðina sem er í  Flensburg rétt fyrir sunnan landamærin.  Nú þurfum við nefnilega síður að hræðast  það að  týnast  fyrir fullt og allt ef við hættum okkur of langt inn í Þýskaland,  því Haukur var að festa kaup á GPS tæki til þess að setja í bílinn.  Allavega vona ég, þar sem þetta er jú staðsetningartæki, að ef við villumst þrátt fyrir allt og klúðrum því að rata heim aftur, þá sé hægt að miða okkur út og koma okkur rugludöllunum til skila á réttan stað.

Nú skín sólin hérna í Salahverfinu þrátt fyrir rigningarspá og Hauki finnst það talsvert Guðlast að ég skuli sitja hérna og pikka á tölvu þegar hægt er að fara út í góða veðrið. Ég ætla því að setja punktinn hér og fara í strigaskóna, setja upp sólgleraugun og rölta aðeins með þeim "gamla" hérna í kring. Ha,ha hann verður nú ekki ánægður með þessa nafngift  þó hann kalli bróður sinn "gamla"  án þess að blikna.

Í kvöld er mér svo boðið út að borða eins og sannri prinsessu. Mikið hlakka ég til.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Koma sér í gírinn.

  1. já lífið er leikur….
    Nú líst mér vel á, Danmörk og Þýskarar. Góða ferð og góða heimkomu. Kær kveðja í bæinn.

  2. Ragna says:

    Það er reyndar rétt rúm vika til stefnu en ég hlakka mikið til.

  3. Hulla says:

    🙂
    Takk fyrir falleg orð um hann afa minn, á síðunni minni.
    Hlakka óskaplega til að hitta ykkur, get hreinlega ekki beðið 🙂
    Kveðjur frá okkur öllum.

Skildu eftir svar við Hulla Hætta við svar