Undarlegt – Enn um „tilviljanir“ og það sem enginn skilur.

Á sjómannadaginn, þegar við Haukur fórum niður á höfn þá ákváðum við að skreppa aðeins í Kolaportið og ná okkur í flatkökur. Á leiðinni að flatkökubásnum sá ég konu sem var með krukkur á borði fyrir framan sig. Mér fannst endilega að ég þyrfti að athuga hvað hún væri með svo ég gekk að borðinu. Hún var að selja ýmis jurtakrem sem hún hefur sjálf búið til.  Hún horfði á mig svolítið sérstöku augnaráði og sagði "það er þetta sem myndi passa þér". Kremið sem hún sagði að passaði fyrir mig heitir Birkismyrsl.

Svo hélt hún áfram að horfa á mig og sagði svo að ef ég vildi koma aðeins inn fyrir borðið til hennar þá gæti hún hlustaði líkamann. Venjulega hefði ég bara þakkað fyrir og sagt að það væri sama og þegið. Eitthvað fékk mig samt til að þiggja þetta boð. Konan lagði umsvifalaust hendina beint á mjóbakið á mér og sagði "þú ert með brjósklos og það er mikil útbungun hérna beint aftaná"  Svo ert þú slæm niður í fæturna og þreytist fljótt". Ég missti sko hökuna alveg niður á bringu ég varð svo hissa. Lýsingin var svo hárrétt og alveg í samræmi við segulómunina sem ég var nýbúin að fá niðurstöðu úr. Nú lýsti þessi kona,  sem ég hef aldrei séð eða heyrt, nákvæmlega því sem að mér var, einungis með því að leggja höndina á bakið á mér utanyfir fötin.  Þegar ég mátti loks mæla þá sagði ég bara "Þetta er alveg rétt hjá þér".  Hún sagðist vera sjúkranuddari og geta reynt að hjálpa mér ef ég kæmi til hennar í nudd og frekari meðferð. Ég fékk nafnspjald hjá henni og keypti krukku af Birkismyrsli. Ég hugsaði talsvert um þetta og það lét mig ekki í friði tilhugsunin um það hvernig hún fór að því að sjá nákvæmlega hvað var að mér.

Í gær fór ég í heilnudd til hennar Gerðar Benediktsdóttur og það var mjög sérstök lífsreynsla svo ekki sé meira sagt.  Ég ætla ekki að lýsa meðferðinni í smáatriðum því ég vil ekki eyðileggja með fánýtum orðum það sem ég upplifði þarna, en Þegar hún hafði skannað líkama minn og farið um mig sínum líknandi höndum þá beinlínis sveif ég út. Hún var ekki ein um að veita hjálpina,  því það virtust vera fleiri hjá henni og hún nefndi  t.d. Einar frá Einarsstöðum og Sigvalda Kaldalóns (var hann huglæknir?). Engan sá ég þó eða heyrði, en mikið leið mér vel og þegar ég vaknaði í morgun þá fann ég ekkert fyrir þessum verkjum og stífleikanum sem hefur legið svo niður í fæturna í langan tíma. Ég þori varla að vona að brjóskið hafi gengið til baka og þannig létt á taugum niður í fæturna en það lítur þó út fyrir það.  Ég er ákveðin í að fara aftur til hennar Gerðar þegar ég kem frá Danmörku og fá svona yndislegt sjúkranudd. 

Ég vissi strax þegar ég horfði í augun á þessari konu þar sem ég hitti hana fyrst í Kolaportinu, að það bjó einhver innri kraftur í henni, það fór bara ekki framhjá mér. Svo bara varð ég að fá að deila þessari lífsreynslu minni með ykkur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Undarlegt – Enn um „tilviljanir“ og það sem enginn skilur.

  1. að skilja?
    Við skiljum ekki allt, en við skiljum þegar okkur líður vel. Þetta hefur að mínu mati ekkert með ofurtrú að gera. Staðurinn og stundin segja það sem segja þarf. Mér er alveg sama hvaðan gott kemur, og Einar á Einarsstöðum hefur hjálpað mörgum. Bæði lífs og liðinn. Sigvaldi tónskáld var venjulegur sveitalæknir, heimilislæknir á nútímamáli. Sá sem getur samið eins yndisleg sönglög og hann gerði veit lengra en nef hans nær. Gangi þér vel, og góða ferð í Baunaland!

  2. Hulla says:

    Vá… ég er með kjúkklingabólur over det hele.
    Þetta er pínu krípí að lesa, en auðvitað er til fólk sem sér meira og veit meira en við.
    Vona bara mest af öllu að þetta hjálpi þér til frambúðar.
    Knús í kotið.

  3. þórunn says:

    Ótrúlegt
    Þetta hefur sannarlega verið ótrúleg upplifun, það er ekki hægt að mótmæla þessu þó maður geti ekki skilið hvernig þetta er hægt. Mikið varstu heppin að verða á vegi þessarar konu eða hún á vegi þínum. Það er gott að þér líður betur og vonandi hjálpar hún þér enn meira þegar þú kemur til baka. Góða ferð til Danmerkur, þar hefur verið gott veður undanfarið.
    Bestu kveðjur,
    Þórunn

  4. Svanfríður says:

    Þetta er magnað og ég trúi þessu. Og á meðan þér líður betur þá skaltu halda þessu áfram því e-ð gott er að gerast.

  5. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir að leggja orð í belg. Ég hef ekkert fundið til í fótunum og lítið sem ekkert í bakinu. Ég krosslegg bara fingur og vona að þetta sé búið í bili og við getum notið þess að rölta um í danaveldi eftir helgina.

Skildu eftir svar