Að morgni dags.

Er að koma heim frá nýja heimilislækninum mínum hérna í Heilsugæslunni í Salahverfi og mér líst mjög vel á hann og sýnist hann traustur og athugull.  Hann sendi mig beint í öndunarpróf, sem ég var svo heppin að komast í hérna á Heilsugæslunni. Ég var mikið fegin því að þurfa ekki að flækjast eitthvert annað til þess,  því ég hef einhvern veginn takmarkaða heilsu í það núna.  Sterakúrinn, sem átti að klárast í gær hefur nú verið framlengdur í 9 daga í viðbót og svo fékk ég Zitromax.  Nú er bara að krossa fingur og vona að þetta dugi.  Á svo að hitta hann aftur á sama tíma eftir viku og þá verður þetta vonandi allt komið í lag.

Ég má til með að minnast á verðlagið á því sem ég þurfti að kaupa í Apotekinu.  Það er sko greinilegt að Apotekin hafa verið fljót að taka við sér og hækkað hjá sér vöruna, því bara fyrir Zitromaxið, sem inniheldur nákvæmlega 3 töflur, borgaði ég 3.800 krónur og er þó með afslátt. Ég tók líka eftir því um síðustu helgi þegar ég keypti Fjallagrasamixtúru við hóstanum, þá kostaði glasið 1.300 krónur og það var ekki stærra en svo að það dugði í tvo sólarhringa.
Þetta eru hinsvegar vörur sem maður, í tilfellum eins og mínu núna, getur ekki verið án svo það er ekkert að gera annað en brosa og borga. Svo grettir maður sig bara á heimasíðunni sinni þegar heim er komið.

Ég legg ekki meira á ykkur í bili. Best að athuga hvort BBC Prime hefur upp á eitthvað að bjóða í sjónvarpinu því nú á bara að slappa af og VERA sjúklingur – en það er nokkuð sem ég á mjög erfitt með að gera þó það sé ekkert sem stoppar mig í því.  Það er bara ein spurning varðandi BBC Prime.  Á maður kannski að sniðganga alveg það breska? – Það verður erfitt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Að morgni dags.

  1. 1.800 kall á töflu! Vonandi virkar helv…..(afsakaðu orðbragðið) Góðan og skjótan bata mín kæra. Kveðja í bæinn.

Skildu eftir svar