Mótmæli eða skrílslæti.

Í gær fóru fram mótmælafundir á tveimur stöðum í höfuðborginni okkar.

Í Iðnó var saman kominn fjöldi manns, sem var heitt í hamsi vegna hins hörmulega ástands í þjóðfélaginu og fólk krafðist svara stjórnmálamanna. Fólk vildi fá svör og það setti fram spurningar sínar á skeleggan hátt. Þrátt fyrir hita í salnum þá heyrðust bæði spurningarnar og svörin. Þessi fundur skaðaði engann og er vonandi gott innlegg okkar í bráttunni.

Í næstu götu, eða nánar tiltekið á Austurvelli fóru einnig fram mótmæli. Þar virtist fólk hinsvegar vera samankomið til þess eins að vera með skrílslæti og það fékk útrás í því að kasta eggjum og öðrum matvælum að Alþingishúsinu og að laganna vörðum. 
Ég hélt að fólk væri meðal annars að mótmæla því að nú eru margir að missa vinnuna og vita ekki hvernig þeir koma til með að geta keypt mat fyrir sig og börnin sín.  Því finnst mér það ósmekklegt svo ekki sé meira sagt að sýna reiði sína með því að standa og grýta mat í allar áttir. Ætli þetta hafi kannski verið af úthlutun matar frá Mæðrastyrksnefnd eða Hjálparstofnun kirkjunnar.  Svona mótmæli hef ég aldrei getað skilið.

Hvaða tilgangi þjónar það líka, eða hefur þjónað í gegnum tíðina, að vera með skrílslæti?  Ekki sýndist mér það skila vörubílstjórunum miklu í þeirra baráttu fyrir lægra eldsneytisverði að efna til skrílsmótmæla.  Það eina sem upp úr því hafðist var að einhverjir urðu fyrir líkamsmeiðingum og menn urðu fyrir eignatjóni. 

Mér finnst svona mótmæli eins og á Austurvelli í gær minna helst á það sem stundum gerist þegar börn og unglingar verða reið og sleppa sér alveg . Þau vantar oft þroska til þess að geta tjáð reiði sína í orðum og grípa þá gjarnan til þeirra örþrifaráða að öskra og henda síðan og grýta því sem hendi er næst, eða ráðast að þeim sem reiðin beinist að. Þetta getur auðvitað líka átt við um fullorðna sem eiga erfitt með að tjá sig með orðum.

Erum við ekki að safna undirskriftunum í "indefence" til þess að má af okkur þann dóm Breta að vera flokkuð sem hryðjuverkamenn? Viljum við ekki einmitt með undirskriftunum sýna öðrum þjóðum að við erum bara lítil þjóð, sem hefur verið plötuð og svikin,  en að við erum friðsöm og vel menntuð. 

Það er mikið af útlendingum í borginni núna. Í stað þess að þeir geti sagt samlöndum sínum við heimkomuna úr Íslandsferðinni, að Íslendingar séu friðsamir og gott fólk, þá hafa þeir sem urðu vitni að skrílslátunum í gær nú fulla ástæðu til þess að segja,  að kannski séu þetta bara hryðjuverkamenn.

Reynum í lengstu lög að leysa málin eins og siðaðar manneskjur ef það dugar ekki þá duga skrílslætin enn síður.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Mótmæli eða skrílslæti.

  1. Sigurrós says:

    Ég er sammála því að mér finnast svona mótmæli alltaf hálfhallærisleg. Ekki stóðum við kennarar forðum og grýttum skólabókum eða krítum í ráðhúsið í okkar verkfalli.

    Hins vegar var ég að lesa á nokkrum bloggsíðum í gær að þeir sem voru á staðnum upplifðu þetta reyndar aðeins öðruvísi en fréttirnar sögðu frá. Fundurinn hefði einmitt verið mjög góður og málefnalegur líkt og þú nefnir og svo hefði þetta verið svona ákveðinn hópur eftir fundinn sem hefði tekið upp á þessu. Eggjahópurinn áttar sig svo ekki á því að þeir skemma málstaðinn fyrir þessum málefnalegu á fundinum. Frekar sorglegt 🙁

  2. Ragna says:

    Ég var að hlusta á Silfur Egils og þar kom fram að þessi skrílslæti sem ég geri að umtalsefni, voru eftir mótmælafundinn á Austurvelli og voru algjörlega í óþökk þeirra sem stóðu að honum. Ekki vil ég gera lítið úr friðsömum mótmælum og því vil ég koma þessari viðbót á framfæri.

  3. Linda says:

    Það er oft svo að fólk breytist þegar margir eru saman komnir í óeirðum. Þeir virðast týna sjálfum sér og persónu sinni og verða í staðinn hluti af heild sem lætur svona ófriðlega. Og langflest af þessu fólki myndi aldrei láta svona illa ef þau stæðu alein á Austurvelli, ekki með neinn til að fela sig á bak við.
    Sorgleg að ástandið skuli þurfa að kalla fram skepnuna í fólki í stað þess að haga sér mannlega. Því staðreyndin sýnir að svona látalæti skilja ekkert eftir sig.

    Bestu kveðjur,
    Linda

Skildu eftir svar